Hoppa yfir valmynd
9. maí 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 9/2005: Úrskurður frá 9. maí 2005

Ár 2005, mánudaginn 9. maí, er í Félagsdómi í málinu nr. 9/2005:

Alþýðusamband Íslands f.h.

Starfsgreinasambands Íslands vegna

Verkalýðsfélagsins Hlífar

(Bergþóra Ingólfsdóttir hdl.)

gegn

Hafnarfjarðarbæ og

(Guðmundur Benediktsson hrl.)

Samtökum atvinnulífsins vegna

Sólar ehf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 8. apríl sl. að afloknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfur stefndu, er höfðað 14. janúar 2005.

Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, Sætúni 1, Reykjavík, f.h. Starfsgreinasambands Íslands, Sætúni 1, Reykjavík, vegna Verkalýðsfélagsins Hlífar, Reykjavíkurvegi 64, Hafnarfirði.

Stefndu eru Hafnarfjarðarbær, Strandgötu 6, Hafnarfirði og Samtök atvinnulífsins, Borgartúni 25, Reykjavík, vegna Sólar ehf., Þverholti 20, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að dæmt verði að stefndu hafi brotið gegn ákvæði 4.2. rammasamnings um vinnu við ræstingar, sbr. grein 17.7.1 í kjarasamningi stefnanda við Launanefnd sveitarfélaga f.h. stefnda Hafnarfjarðarbæjar, með einhliða breytingum á tímaeiningum sem liggja til grundvallar útreikningi á vinnutíma. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu auk álags er nemi virðisaukaskatti.

Til vara er krafist að dæmt verði að stefndi Hafnarfjarðarbær hafi, með því að taka tilboði um ræstingastörf sem felur í sér lakari kjör en ákvæði 4.2 rammasamnings um vinnu við ræstingar tryggja, sbr. grein 17.7.1 í kjarasamningi, brotið tilgreindan kjarasamning. Þess er krafist að málskostnaður gagnvart stefnda Sólar ehf. falli niður en krafist málskostnaðar úr hendi stefnda Hafnarfjarðarbæjar auk álags er nemi virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefnda Hafnarfjarðarbæjar eru þær aðallega að máli þessu verði vísað frá Félagsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá er gerð krafa um málskostað í báðum tilvikum.

Dómkröfur stefnda, Samtaka atvinnulífsins vegna Sólar ehf., eru þær aðallega  að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda.

Í báðum tilvikum er krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfum verði hafnað.

I

Kjarasamningur var gerður 1. febrúar 2001 milli Verkalýðsfélagsins Hlífar, stefnanda í máli þessu, og Launanefndar sveitarfélaga f.h. Hafnarfjarðarbæjar, annars stefnda í málinu. Gildir samningurinn til 15. október 2005. Samkvæmt 1. gr. samningsins tekur hann til allra starfa sem unnin eru hjá Hafnarfjarðarbæ á félagssvæði stefnanda og getið er í samningnum. Meðal þeirra starfa, sem samningurinn gildir um, eru ræstingastörf og er um þau fjallað sérstaklega í 17. kafla samningsins. Um tímamælda ákvæðisvinnu ræstingastarfsmanna er að finna ákvæði í gr. 17.2. Fram kemur í stefnu að um það bil 120 - 130 starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar, sem jafnframt eru félagsmenn í stefnanda, hafi gegnt störfum sem ráðningarkjör samningsins gilda um.   

Þá var 1. mars 2004 gerður rammasamningur milli Samtaka atvinnulífsins og  stefnanda um vinnu við ræstingar. Segir í gr. 4.2., sem tekur til útreikninga á tíma við ræstingar, að við slíka útreikninga geti tímaeiningar (staðaltímar) verið lagðir til grundvallar. Jafnframt segir þar að þegar tímaeiningar eru notaðar fyrir hverja verkframkvæmd samkvæmt verklýsingu skuli þær vera í samræmi við ákveðinn vinnutakt sem samningsaðilar komi sér saman um að nota, sbr. gr. 4.1. og 6. kafla Leiðbeininga um undirbúning og framkvæmd vinnurannsókna, en leiðbeiningarnar eru fylgiskjal með samningnum.

Í gr. 17.7.1 fyrrnefnds kjarasamnings milli stefnanda og Launanefndar sveitarfélaga f.h. Hafnarfjarðarbæjar er ákvæði þess efnis að um önnur atriði varðandi ræstingu en um getur í samningnum fari eftir rammasamningi milli Starfsgreinasambands Íslands annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar, Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands hins vegar.

Vorið 2004 boðaði stefndi Hafnarfjarðarbær að hann myndi í hagræðingarskyni leita tilboða í ræstingar og var svo gert í kjölfarið. Í ágústmánuði síðastliðnum gekk stefndi til samninga við meðstefnda Sólar ehf. um að fyrirtækið tæki að sér ræstingar á stofnunum stefnda. Í bréfi stefnda Hafnarfjarðarbæjar, dags. 24. ágúst 2004, til starfsmanna í ræstingum var frá því greint að staða mála yrði kynnt fulltrúum stefnanda á fundi 26. sama mánaðar. Á fundinum lagði stefndi Sólar ehf. fram minnisblað þar sem fram kom með hvaða hætti ætlunin væri að standa að aðilaskiptunum af hálfu fyrirtækisins. Var þar tekið fram að ætlan fyrirtækisins væri að virða í hvívetna lög nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Þá var og boðað að þar sem fyrirhugaðar væru skipulagsbreytingar á rekstrinum yrði öllum starfsmönnum við ræstingar sagt upp, en þeim boðin endurráðning á samningsbundnum gildandi kjörum. Fulltrúar stefnanda áréttuðu að til þess að fyrirhugaðar uppsagnir væru lögmætar á grundvelli þess að um skipulagsbreytingar væri að ræða yrði að liggja fyrir í hverju þær breytingar væru fólgnar, en stefndi Sólar ehf. taldi sig ekki geta greint frá því efnislega á þessum tíma.

Stefnandi mun hafa átt óformleg samskipti við stjórn stefnda Hafnarfjarðarbæjar í framhaldi þessa fundar og í kjölfar þeirra lagði stefndi fram minnisblað sem fól í sér tillögur að áfangaskiptingu aðilaskiptanna. Samkvæmt þeim skyldu aðilaskiptin fara fram í þremur áföngum, 1. október 2004, 1. janúar 2005 og 1. mars 2005. Í kjölfar aðilaskipta myndu verða sendar út formlegar tilkynningar um breytingar á starfsskipulagi og viðræður þar sem leitað skyldi samkomulags um fyrirhugaðar breytingar. Þá var sérstaklega tekið fram í tillögunum að stefndi Hafnarfjarðarbær myndi fylgjast með því að meðstefndi fylgdi ákvæðum útboðs sem og lögum og reglum um aðilaskipti með vísan til minnisblaðs meðstefnda. Stefnandi gerði ekki athugasemdir við þessar ráðagerðir.

Þann 1. október 2004 tók stefndi Sólar ehf. við ræstingu í fyrsta áfanga aðilaskiptanna samkvæmt fyrrgreindum tillögum stefnda Hafnarfjarðarbæjar, en fjöldi starfsmanna við ræstingu í þeim áfanga mun hafa verið um 50. Með bréfi 27. október 2004 var stefnanda tilkynnt um hópuppsögn 42 starfsmanna við ræstingu. Höfðu uppsagnarbréfin verið send starfsmönnum um miðjan mánuðinn. Þegar uppsagnarbréfin tóku að berast starfsmönnum munu margir þeirra hafa haft samband við stefnanda þar sem þeir voru ósáttir við framgang málsins vegna þess að lítil sem engin kynning hefði þá farið fram á því í hverju fyrirhugaðar skipulagsbreytingar yrðu fólgnar. Hafi slíkt verið nauðsynlegt til þess að meta hvort það starf, sem þeim var boðið, væri sambærilegt þeirra fyrra starfi. Töldu þeir sig því ekki geta tekið afstöðu til þess hvort þeir hefðu hug á að vinna áfram hjá fyrirtækinu eða ekki. Stefnandi sendi stefndu og bréf 3. nóvember 2004 þar sem mótmælt var að samráð hefði verið haft við hann um fyrirhugaðar uppsagnir og lýsti stefnandi því jafnframt yfir að í ljósi þess að engar upplýsingar hefðu enn komið fram um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar liti hann svo á að með því væri aðeins verið að skjóta sér undan ákvæði 4. gr. laga nr. 72/2002 um bann við uppsögnum starfsmanna í tengslum við aðilaskipti og væru uppsagnirnar því ólögmætar. Á fundi aðila 15. nóvember 2004 lögðu fulltrúar stefnda Sólar ehf. fram teikningar og verklýsingar af nokkrum hluta þeirra vinnustaða sem um var að ræða. Kveður stefnandi að þá fyrst hafi verið ljóst hversu viðamiklar hinar fyrirhuguðu breytingar á ræstingum voru og í hverju þær fólust. Stefnandi gerði ekki athugasemdir við breytingar sem fólust í samdrætti á þjónustu við ræstingar. Hins vegar taldi hann liggja fyrir að þau svæði, sem hverjum starfsmanni var ætlað að ræsta, svonefnd „stykki”, hefðu verið stækkuð verulega um leið og sá tími, sem hverjum starfsmanni var ætlaður til þrifanna, væri mun minni en áður hefði verið greitt fyrir ræstingu á jafn stórum svæðum. Taldi stefnandi því líkindi á að þessar breytingar væru ekki í samræmi við gildandi tímamælingu á ræstingu fyrir stefnda Hafnarfjarðarbæ sem hafi verið grundvöllur útreiknings tíma fyrir tímamælda ákvæðisvinnu og því væri rétt að kanna hvort svo væri.

Stefnandi leitaði til Snæs Karlssonar, sérfræðings Starfsgreinasambands Íslands, og óskaði eftir að hann reiknaði út hversu langan tíma tæki að þrífa eitt tiltekið „stykki“ miðað við þá verklýsingu sem stefndi Sólar ehf. hafði lagt fram. Til grundvallar tímaeiningum einstakra verkþátta voru lagðar tímamælingar á ræstingaverkefnum sem upphaflega voru unnar fyrir Samvinnuhreyfinguna. Niðurstaða útreikninga Snæs var sú að þrátt fyrir breytingar á tíðni ræstinga og fleira varðandi vinnutilhögun tæki verkið miklu lengri tíma en stefndi hygðist  greiða fyrir.

Stefnandi telur ljóst samkvæmt ofansögðu að hið nýja skipulag ræstingavinnu fari gegn gildandi ákvæðum kjarasamninga og þeim viðmiðum sem lögð hafa verið til grundvallar útreikningi í tímamældri ræstingavinnu. Stefndi Hafnarfjarðarbær telur hins vegar að hann hafi staðið að fullu við laga- og samningsskyldur sínar við útboðið og í samskiptum við stefnanda og félagsmenn hans í framhaldi af útboðinu. Sé það álitaefni, hvort brotið hafi verið gegn 17. kafla fyrrgreinds kjarasamnings, eingöngu milli stefnanda og meðstefnda Sólar ehf. Af hálfu stefnda Sólar ehf. er á því byggt að hann sé ekki réttur aðili málsins þar sem hann sé ekki aðili að viðkomandi kjarasamningi og þá séu þær forsendur efnislega rangar sem stefnandi byggi tímamælingar sínar á.

II

Stefndi Hafnarfjarðarbær byggir frávísunarkröfu á að aðalkrafa stefnanda sé vanreifuð. Séu kröfur stefnanda andstæðar meginreglum réttarfars um skýran málatilbúnað, en að auki séu kröfurnar studdar ófullnægjandi sönnunargögnum þannig að ómögulegt sé að taka til varna á grundvelli þeirra. Telur stefndi óhjákvæmilegt að  málinu verði vísað frá dómi af þessum sökum.

Þá byggi stefnandi málatilbúnað sinn á því að stefndu hafi brotið gegn ákvæðum 17. kafla gildandi kjarasamnings, sérstaklega grein 17.5.1, sem og ákvæðum rammasamnings um vinnu við ræstingar. Eigi stefndi erfitt með að sjá hvernig hann geti hafa brotið 17. kafla kjarasamningsins, þá sérstaklega grein 17.5.1, þar sem í þau ár, sem félagsmenn stefnanda hafi unnið hjá stefnda, hafi verið farið nákvæmlega eftir fyrrgreindri samningsgrein og engar kvartanir borist vegna samningsbrota. Hvergi sé rökstutt í stefnu í hverju hin ætluðu brot stefnda Hafnarfjarðarbæjar séu fólgin. Erfitt sé fyrir stefnda að meta „matsgerð” sem stefnandi hafi beðið starfsmann sinn að búa til, líkt og um óháða sérfræðimatsgerð sé að ræða. Sé slík „matsgerð” marklaus.

Málið sé ekki höfðað vegna tilgreindra starfsmanna og geti stefndi ekki gert sér grein fyrir því á hvaða starfsmönnum hann eigi að hafa brotið. Sé stefnda því gert ómögulegt að taka til varna í málinu. Vegna hins mikla ósamræmis á milli dómkrafna, aðildarskýringa stefnanda og málsástæðna verði að telja að kröfugerð stefnanda sé andstæð meginreglum réttarfars um skýran málatilbúnað, sbr. t.d. d., e. og g. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að auki séu kröfur stefnanda á hendur stefnda ekki studdar neinum eða a.m.k. ófullnægjandi sönnunargögnum og svo vanreifaðar að dómur verði ekki felldur á þær. Að lokum eigi ágreiningur um hvort aðilar hafi farið rétt með túlkun og framkvæmd laga um aðilaskipti að fyrirtækjum samkvæmt lögum nr. 72/2002 ekki undir Félagsdóm heldur almenna dómstóla.

III

Frávísunarkrafa stefnda Sólar ehf. er reist á því að stefndi eigi ekki aðild að umræddum kjarasamningi. Beri þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá dómi, sbr. dóm Hæstaréttar frá 13. janúar 1994 í máli nr. 522/1993.

Þá sé óumdeilt í málinu að um starfskjör þeirra starfsmanna stefnda Hafnarfjarðarbæjar, er hófu störf hjá stefnda Sólar ehf. við yfirtöku fyrirtækisins á ræstingum hjá Hafnarfjarðarbæ, fari samkvæmt lögum nr. 72/2002 og vísi stefnandi til þeirra laga til stuðnings kröfu sinni. Samkvæmt 3. gr. laganna færist réttindi og skyldur framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi yfir til framsalshafa og skuli hann virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi þar til kjarasamningi verður sagt upp, hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur kemur til framkvæmda. Byggi vísun stefnda Sólar ehf. til kjarasamnings Hlífar og Hafnarfjarðarbæjar á þessu ákvæði. Samkvæmt því beri fyrirtækinu að virða áfram gildandi ráðningarkjör starfsmanna, en sé eftir sem áður óbundið af kjarasamningi Hafnarfjarðarbæjar að öðru leyti. 

Stefndi byggir frávísunarkröfu jafnframt á því að túlkun laga um aðilaskipti að fyrirtækjum eigi ekki undir dómsvald Félagsdóms. Þá sé heldur ekki í verkahring Félagsdóms að túlka ráðningarsamninga starfsmanna, sbr. 44. gr laga nr. 80/1938.

Að auki sé málatilbúnaður stefnanda ófullnægjandi og uppfylli ekki skilyrði d. og e. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991. Skyldur stefnda gagnvart starfsmönnum byggi sem fyrr greini á ráðningarsamningum þeirra, sbr. lög nr. 72/2002, en málið sé ekki höfðað vegna tilgreindra starfsmanna. Þá sé af hálfu stefnanda ekki gerð viðhlítandi grein fyrir því á hvern hátt stefnandi hafi brotið gegn tilvitnuðu ákvæði kjararasamnings Hafnarfjarðarbæjar í ráðningarsamningum sínum við starfsmenn. Sé hvorki í stefnu né málsgögnum tilgreint hvaða samningur um tímaeiningar það sé sem liggi til grundvallar útreikningum á vinnutíma ræstingafólks hjá meðstefnda og krafist sé viðurkenningar á að stefndi hafi brotið.

IV

Stefnandi reisir mótmæli við að frávísunarkröfur nái fram að ganga á því að engir meinbugir séu á málatilbúnaði hans, en málið snúist um tímamælda ákvæðisvinnu samkvæmt kjarasamningi. Leiði varnir stefndu, byggðar á aðildarskorti, til sýknu samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Umræddir kjarasamningar taki til þeirra starfsmanna sem vinna við ræstingar og geti stefnandi höfðað mál fyrir Félagsdómi vegna brota á þeim samningum, sbr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Þá sé ljóst að stefndi Sólar ehf. hafi gert þessa samninga að sínum er hann yfirtók þá og sé hann því bundinn af þeim.

Þá sé í máli þessu ekki verið að fara fram á túlkun á lögum nr. 72/2002, heldur snúist málið um hvort brotið hafi verið gegn þeim kjarasamningum sem í stefnu greini.

Að lokum bendir stefnandi á að sönnuarfærslu af hans hálfu sé ekki lokið og hafi hann t.d. lagt fram beiðni um útnefningu matsmanns þar sem farið er fram á að metið verði hversu langan tíma taki að ræsta tiltekið svæði, annars vegar ef notaðir eru staðlar stefnda Sólar ehf. og hins vegar ef notaðir eru staðlar stefnanda.

V

Með verksamningi 17. september 2004 milli stefndu í máli þessu tók stefndi Sólar ehf. að sér að annast ræstingar í stofnunum meðstefnda Hafnarfjarðarbæjar. Til samningsins var gengið á grundvelli útboðs í apríl sama ár. Fyrir þennan tíma hafði stefndi Hafnarfjarðarbær verið vinnuveitandi starfsmanna við ræstingar samkvæmt umræddum kjarasamningi frá 1. febrúar 2001, sem gildir til 15. október 2005, og rammasamningsins um ræstingar, er gildir til loka þessa árs. Við gildistöku verksamningsins varð stefndi Sólar ehf. þannig vinnuveitandi starfsmannanna. Ljóst er af 2. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002 að stefnda Sólar ehf. ber sem vinnuveitanda starfsmannanna að virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir meðstefnda Hafnarfjarðarbæ þar til umræddum kjarasamningi verður sagt upp, hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.

Í máli þessu leitar stefnandi aðallega viðurkenningardóms um að stefndu hafi  brotið gegn ákvæði 4.2. rammasamnings um vinnu við ræstingar, sbr. grein 17.7.1 í kjarasamningi stefnanda við Launanefnd sveitarfélaga f.h. stefnda Hafnarfjarðarbæjar, með einhliða breytingum á tímaeiningum sem liggja til grundvallar útreikningi á vinnutíma.

Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 er verkefni Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á kjarasamningi (vinnusamningi) eða út af ágreiningi um skilning á kjarasamningi eða gildi hans. Aðalkrafa stefnanda lýtur að því að stefndu hafi brotið gegn tilteknum ákvæðum kjarasamninga. Verður að telja samkvæmt tilvitnuðu ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur að það heyri undir valdsvið Félagsdóms að fjalla um slíkt ágreiningsefni. Þykir ekki skipta máli þótt stefndi Sólar ehf. hafi orðið vinnuveitandi starfsmanna stefnanda við áðurnefnd aðilaskipti eða að hann hafi ekki verið aðili að fyrrgreindum kjarasamningum enda skal stefndi Sólar ehf. virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir meðstefnda Hafnarfjarðarbæ, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002. Með því að stefndi Sólar ehf. er bundinn af kjarasamningum samkvæmt umræddu lagaákvæði verður aðalkröfu stefnanda ekki vísað frá Félagsdómi á þeim grunni að hún heyri ekki undir dóminn.

Þá verður heldur ekki fallist á þá frávísunarmálsástæðu að kröfur stefnanda séu studdar ófullnægjandi sönnunargögnum enda leiðir sönnunarskortur til sýknu en ekki frávísunar.

Í því ákvæði rammasamnings um vinnu við ræstingar sem stefnandi telur stefndu hafa brotið, gr. 4.2., segir að þegar „tímaeiningar eru notaðar fyrir hverja verkframkvæmd skv. verklýsingu, skulu þær vera í samræmi við ákveðinn vinnutakt sem samningsaðilar koma sér saman um að nota, sbr. gr. 4.1. og 6. kafla Leiðbeininga um undirbúning og framkvæmd vinnurannsókna, sbr. fskj. I.” Af ákvæði þessu er ljóst að aðilar kjarasamningsins skulu gera með sér samkomulag um nánar tiltekinn vinnutakt og skulu tímaeiningar, sem notaðar eru fyrir hverja verkframkvæmd samkvæmt verklýsingu, vera í samræmi við hann. Af gögnum málsins verður hins vegar engan veginn ráðið hvort slíkt samkomulag um vinnutakt liggur fyrir og ef svo er hvaða samhengi sé milli vinnutakts og fjölda tímaeininga í verklýsingu vegna ræstinga í þeim stofnunum stefnda Hafnarfjarðarbæjar sem verksamningur stefnda og meðstefnda Sólar ehf. tekur til. Þá lýtur krafa stefnanda að því að stefndu hafi almennt brotið áðurnefnt kjarasamningsákvæði gagnvart starfsfólki sem á aðild að stefnanda en ekki að nánar tilgreindu brotatilviki. Er málatilbúnaði stefnanda og reifun málsástæðna svo háttað að ekki er unnt að taka afstöðu til aðalkröfu stefnanda. Verður ekki úr þessum annmarka bætt undir rekstri málsins. Samkvæmt því sem rakið hefur verið er kröfugerð stefnanda svo óskýr og vanreifuð, sbr. d. og e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að efnisdómur verður ekki lagður á hana.

Til vara er af hálfu stefnanda krafist viðurkenningar á að stefndi Hafnarfjarðarbær hafi, með því að taka tilboði um ræstingastörf sem felur í sér lakari kjör en ákvæði 4.2 rammasamnings um vinnu við ræstingar, sbr. grein 17.7.1 í kjarasamningi tryggja, brotið „tilgreindan kjarasamning”.

Stefnandi styður kröfuna þeim rökum að stefndi Hafnarfjarðarbær sé beinn aðili að kjarasamningi þeim er hér um ræðir og beri efndaskyldu samkvæmt þeim samningi. Hafi stefnda mátt vera ljóst að sá verulegi kostnaðarmunur, sem var á launum við ræstingu samkvæmt tilboði meðstefnda og þess, er greitt hafði verið áður fyrir þá vinnu, hlaut að stafa af verulegri breytingu á kjörum starfsmanna við ræstingar og væri „honum” því ómögulegt að efna kjarasamninginn samkvæmt efni sínu eða standa við gefin loforð þar um. Sé stefnda Hafnarfjarðarbæ ekki tækt að semja við þriðja aðila í þeim tilgangi að komast undan þeim kostnaði, sem kjarasamningurinn leiðir til, enda græfi slík heimild almennt undan skuldbindingargildi kjarasamninga.

Krafa þessi er ekki studd neinum þeim málsástæðum er lúta að broti á ákvæðum kjarasamnings eða varða ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans. Virðist á því byggt að félagsmenn stefnanda hafi orðið fyrir tjóni af völdum stefnda  Hafnarfjarðarbæjar þegar af þeirri ástæðu að gengið var til fyrrgreindra samninga við meðstefnda um ræstingavinnu. Fellur utan valdsviðs Félagsdóms, eins og það er afmarkað samkvæmt 44. gr. laga nr. 80/1938, að dæma um slíkt sakarefni.

Samkvæmt framansögðu ber að vísa málinu frá Félagsdómi og úrskurða stefnanda til að greiða stefndu hvorum um sig málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.

 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.

Stefnandi, Alþýðusamband Íslands f.h. Starfsgreinasambands Íslands vegna Verkalýðsfélagsins Hlífar, greiði stefndu, Hafnarfjarðarbæ og Samtökum atvinnulífsins vegna Sólar ehf., hvorum um sig 100.000 krónur í málskostnað.

 

Helgi I. Jónsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Valgeir Pálsson

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum