Hoppa yfir valmynd
27. mars 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 27. mars 2012

Fundargerð 64. fundar, haldinn hjá velferðarráðuneytinu, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu þriðjudaginn 27. 03 2012, kl. 14.00-16.00.

Mætt: Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Brynja Dögg Guðmundsdóttir Briem, varamaður Ástu Sigrúnar Helgadóttur, umboðsmanns skuldara, Elín Rósa Finnbogadóttir, varamaður Alexöndru Þórlindsdóttur, tiln. af innanríkisráðuneyti, Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossi Íslands, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Hrefna K. Óskarsdóttir, tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Ragnheiður Bóasdóttir, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður landlæknis, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Þórhildur Þorleifsdóttir, án tiln., Guðrún Eyjólfsdóttir, tiln. af SA, Lovísa Lilliendahl, verkefnisstjóri velferðarvaktarinnar á Suðurnesjum, og Rósa G. Bergþórsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneyti.

Gestir á fundinum voru Eyjólfur Eysteinsson, Unnar Stefánsson og Sigurður Einarsson, Landsambandi eldri borgara, og Ágúst Þór Sigurðsson, velferðarráðuneyti.

1. Almannatryggingarkerfið.

Ágúst Þór Sigurðsson, frá velferðarráðuneyti, kynnti lög og reglur sem gilda um lífeyristryggingar almannatrygginga. Í umræðum um málið kom fram að það þurfi að tryggja að þeir sem hafa verið lengi á vinnumarkaði hafi einhvern ávinning af því. Í dag væri staðan sú að tekjutryggingin jafnaði út ráðstöfunartekjur þeirra sem hefðu aldrei verið á vinnumarkaði og margra sem hafa verið lengi á vinnumarkaði og greitt í lífeyrissjóð eða greitt almannatryggingagjald sem var greitt áður fyrr. Fram kom að sú lágmarksframfærsla sem almannatryggingakerfið tryggir öllum hefði hækkað um 61% frá árinu 2007 og að fátækt mældist minni nú en fyrir nokkrum árum. Hagur margra ellilífeyrisþega hefði ekki vænkast að sama skapi. Hafi verður í huga að lífeyrissjóðskerfið er ekki orðið fullburða en verður það árið 2030.

Verið er að endurskoða almannatryggingakerfið. Meðal þeirra tillagna sem hafa komið fram er að afnema allar tekjutengingar við útreikning bóta til ellilífeyrisþega. Rætt er að starfsgetumat komi í stað örorkumats. Nýtt frumvarp er í smíðum þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að lög um félagslega aðstoð verði felld inn í lög um almannatryggingar. Þar sem um viðamikið frumvarp er að ræða má gera ráð fyrir að það verði tekið upp í áföngum.Hér má sjá glærur frá fundinum: http://www.velferdarraduneyti.is/yfirfaerslan/frettir/nr/33336

2. Sjónarmið eldri borgara varðandi almannatryggingarkerfið.

Unnar Stefánsson, frá Landssambandi eldri borgara, gerði grein fyrir sjónarmiðum sambandsins varðandi almannatryggingakerfið. Í máli hans kom fram að sanngirnissjónarmið brynnu á eldri borgurum. Hann gerði grein fyrir tveimur kröfum:

Að fólk sem greitt hefði í lífeyrissjóði á sinni starfsævi njóti þess nú með hærri ráðstöfunartekjum en þeir sem aldrei hafa innt af hendi slíkar greiðslur. Þetta fólk vildi fá eitthvað fyrir sinn snúð. Eins og staðan er í dag, fengju þeir sem borgað hefðu í lífeyrissjóði í engu notið þess framlags.

Að eldri borgarar fái aðild að stjórnum lífeyrissjóðanna með einhverjum hætti.

Í umræðum kom fram að samanburðarhugsunin væri óskiljanleg. Einstaklingurinn hefði það ekki verra/betra miðað við hvernig aðrir í kringum hann hafa. Þá kom fram að greiðsla í lífeyrissjóði væru hluti af launakjörum og launþegar ættu sjóðina. Þegar að kreppir geti jöfnunarsjónarmiðið átt rétt á sér tímabundið en þegar betur árar þarf að taka tillit til þeirra sem fá greitt úr lífeyrissjóðum.

Fleira var ekki rætt.

Fundargerð ritaði Rósa G. Bergþórsdóttir í fjarveru Ingibjargar Broddadóttur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum