Hoppa yfir valmynd
14. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Atvinnumál fatlaðra verði litin sömu augum og annarra

Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar og Eygló Harðardóttir ráðherra á ársfundinum
Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar og Eygló Harðardóttir ráðherra á ársfundinum

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagðist á ársfundi Vinnumálastofnunar vilja móta heildstæða stefnu til framtíðar um vinnumarkaðsmál þar sem meðal annars verði horft til þess hvernig atvinnulífið geti komið til móts við einstaklinga með skerta starfsgetu þannig að þeir geti líkt og aðrir fengið tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði. Ársfundurinn var haldinn síðastliðinn föstudag.

Atvinnumál fatlaðs fólks eru mér hugleikin en ég tel mikilvægt að við lítum sömu augum á vinnumál fatlaðs fólks og ófatlaðra, meðal annars með það í huga að fatlað fólk fái þannig notið þjónustu hjá Vinnumálastofnun eins og aðrir, sagði ráðherra meðal annars í ávarpi sínu á fundinum. „Það er líka mikilvægt að vinnumarkaðsstefnan veki jákvæða framtíðarsýn hjá unga fólkinu okkar og hvetji til aukinnar menntungar og betri tengingar milli þeirrar menntunar sem fólk velur sér og þarfa atvinnulífsins. Þannig tel ég okkur best í stakk búin til að tryggja viðunandi atvinnustig til framtíðar.“

Ráðherra beindi orðum sínum í upphafi ávarpsins til starfsfólks Vinnumálastofnunar og sagði að sér væri efst í huga þakklæti fyrir mikið, gott og óeigingjarnt starf þess á erfiðum tímum: „Vegur þar hvað þyngst mikið atvinnuleysi á liðnum misserum á sama tíma og fjármunir ríkisins hafa verið af skornum skammti og leitt til sparnaðarkröfu á rekstur stofnunarinnar ár eftir ár. Ég veit að sú staðreynd hefur ekki létt ykkur vinnuna nema síður sé.

Með samstilltu átaki stjórnvalda, þar með talið sveitarfélaga, og aðila vinnumarkaðarins hefur okkur tekist að snúa vörn í sókn gegn atvinnuleysinu. Að mínu mati vegur þrotlaus vinna ykkar allra hvað mest í því sambandi þar sem hvert sértæka verkefnið hefur rekið annað á undanförnum misserum. Starfsfólk Vinnumálstofnun hefur verið í broddi fylkingar þegar kemur að framkvæmd og utanumhaldi í tengslum við þessi verkefni og skiptir hver hlekkur í keðjunni þar miklu máli.“

Ráðherra ræddi meðal annars um þá reynslu og þekkingu sem byggst hefur upp hjá Vinnumálastofnun á liðnum árum og sagði mikilvægt að varðveita hana og nýta og byggja á henni til framtíðar. „Þannig getum við aukið líkurnar á því að þeir fjármunir sem við höfum úr að spila í tengslum við vinnumarkaðsaðgerðir verði nýttir eins og best verður á kosið hverju sinni.“


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum