Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun ríkisskattstjóra, yfirskattanefndar og tollstjóra.

[…]
[…]
[…]

Reykjavík 11. nóvember 2015
Tilv.: FJR14120006/16.2.5

Efni: Úrskurður ráðuneytisins vegna kæru […] á ákvörðun ríkisskattstjóra, yfirskattanefndar og tollstjóra.

Þann 1. desember 2014 barst ráðuneytinu kæra [A] vegna úrskurðar ríkisskattstjóra dags. 29. ágúst 2013 um lækkun innskatts kæranda á tímabilinu janúar 2011 til og með desember 2012 samtals um 2.443.190 kr. auk 10% álags samtals kr. 244.319. Kæran varðar afgreiðslu ríkisskattstjóra, yfirskattanefndar og tollstjóra í málinu.

Málavextir eru þeir að þann 29. ágúst 2013 úrskurðaði ríkisskattstjóri um lækkun á innskatti félagsins fyrir rekstrarárin 2011 og 2012 og beitingu 10% álags þar sem skilyrði innskattsfrádráttar á grundvelli sölureikninga þriggja aðila hefðu ekki verið uppfyllt skv. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, eins og því ákvæði var breytt með 6. gr. laga nr. 163/2010. Með úrskurði yfirskattanefndar, frá 2. apríl 2014, var ákvörðun ríkisskattstjóra staðfest. Kærandi kvartaði þá til Umboðsmanns Alþingis þann 23. maí 2014, sem skilaði áliti sínu þann 11. nóvember 2014. Í kvörtun kæranda til Umboðsmanns kom fram sú skoðun kæranda að engin gögn hafi legið fyrir sem sýni að virðisaukaskattsnúmer [K] hafi í reynd verið lokað á árunum 2011 og 2012 eins og byggt hafi verið á í úrskurði yfirskattanefndar, en ekki voru gerðar athugasemdir við niðurstöðu yfirskattanefndar hvað viðskipti félagsins við tvo aðra nafngreinda aðila varðaði. Í niðurstöðu Umboðsmanns um þetta atriði segir hann að hann telji ekki forsendur til að draga í efa að virðisaukaskattsnúmer [K] hafi í reynd verið lokað á því tímabili sem á reyndi í úrskurði yfirskattanefndar. Hann hafi því ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að skilyrðum innskattsfrádráttar samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hafi ekki verið fullnægt að því er varðaði virðisaukaskatt sem [K] innheimti á framangreindu tímabili. Þau gögn sem yfirskattanefnd hafi látið Umboðsmanni í té úr gagnagrunni ríkisskattstjóra gefi ekki tilefni til að ætla að sambærilegt misræmi hafi verið fyrir hendi varðandi skráningu [K] á árunum 2011 og 2012. Í upplýsingunum komi fram upplýsingar um hvenær skráningu hafi verið breytt og þá frá hvaða tímamarki. Um það leiki því ekki vafi á hvaða tímamarki aðili hafi í reynd verið skráður á virðisaukaskattsskrá. Umboðsmaður kom samhliða þeim ábendingum á framfæri við ríkisskattstjóra og yfirskattanefnd að ítarlegri upplýsingar komi fram á heimasíðu ríkisskattstjóra um hvenær virðisaukaskattsnúmer aðila hafi verið opnuð eða lokuð. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins er unnið að þeim breytingum hjá embætti ríkisskattstjóra.

Í kæru[A] til fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur fram að kærandi gruni að skattstjóri hafi eytt dagsetningum út af vef sínum. Þannig hafi virðisaukaskattsnúmeri [K] verið opnað og lokað á víxl aftur í tímann. Skatturinn hafi ekki getað sýnt fram á að virðisaukaskattsnúmer [K] hafi verið lokað á þeim tíma sem um ræddi, þ.e. rekstrarárin 2011 og 2012. Þá kvartar kærandi yfir að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að greiða kröfuna áður en dráttarvextir voru lagðir á hana.

Umsögn tollstjóra:
Umsögn tollstjóra barst ráðuneytinu þann 12. janúar 2015 og laut að innheimtu og myndun dráttarvaxta. Um það sjónarmið kæranda, sem fram kemur í stjórnsýslukæru, að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að greiða kröfuna áður en dráttarvextir voru lagðir á, segir tollstjóri að dráttarvextirnir hafi myndast vegna réttilega álagðra krafna og ekki séu lagaheimildir til staðar sem heimili niðurfellingu þeirra eða aðra ívilnun. Ljóst sé í málinu að kærandi nýtti sér innskatt til frádráttar við uppgjör virðisaukaskatts, sem ekki var lagaheimild fyrir, vegna tímabila í virðisaukaskatti rekstrarárin 2011 og 2012. Kröfurnar hefðu gjaldfallið í skilningi 1. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þegar þær voru ekki greiddar innan mánaðar frá gjalddegi þeirra og beri því dráttarvexti frá þeim tíma og til greiðsludags.

Umsögn ríkisskattstjóra:
Umsögn ríkisskattstjóra barst ráðuneytinu þann 26. maí 2015 og bendir hann þar á að úrskurðir yfirskattanefndar séu fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi, sbr. ákvæði 1. mgr. 15. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Af gefnu tilefni segir ríkisskattstjóri sjá sig þó tilknúinn að árétta að hann hafi ekki eytt upplýsingum af vef sínum varðandi skráningu aðila á virðisaukaskattsskrá. Treysta megi því upplýsingum um skráningu aðila á vefnum. Umboðsmaður Alþingis hafi metið það sem svo í bréfi sínu til kæranda dags. 23. maí 2014 að virðisaukaskattsnúmer [K] hafi í reynd verið lokað á því tímabili sem um ræðir, þ.e. frá 30. júní 2009 til 7. febrúar 2013. Skilyrðum innskattsfrádráttar samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hafi því ekki verið fullnægt varðandi virðisaukaskatt sem [K] innheimti af kæranda á framangreindu tímamarki. Í framhaldi af ábendingu Umboðsmanns Alþingis, sbr. bréf hans til ríkisskattstjóra dags. 11. nóvember 2014, sé nú unnið að breytingum á vefsíðunni sem felast í því að upplýsingar komi einnig fram um þær breytingar sem kunna að hafa orðið á skráningu aðila og hvenær þær hafi verið gerðar. Framangreind ábending Umboðsmanns Alþingis breyti þó engu um þá staðreynd að fullsannað sé að virðisaukaskattsnúmer [K] hafi verið lokað á því tímabili sem á reyndi í úrskurði yfirskattanefndar. Túlka megi þó ákvæði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 á þann veg að aðili sem synjað hefur verið um innskatt á grundvelli þess geti sótt um endurupptöku slíkrar ákvörðunar ef seljandi vöru eða þjónustu í þeim tilvikum öðlast skráningu á virðisaukaskattskrá afturvirkt til útgáfudags reiknings eða fyrr.

Forsendur og niðurstaða:
Með lögum nr. 163/2010, um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, var lögfest breyting á 1. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt. Þannig varð það að skilyrði innskattsfrádráttar að seljandi vöru og þjónustu væri skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti ættu sér stað. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 163/2010 segir um þessa breytingu: „Með þessu ákvæði er lagt til að heimild til færslu innskatts sé háð því skilyrði að viðsemjandi skattaðilans sé á virðisaukaskattsskrá þegar viðskipti eiga sér stað. Upp hafa komið mörg tilvik þar sem skattaðili hefur talið virðisaukaskatt til innskatts án þess að viðsemjandi hans hafi verið með opið virðisaukaskattsnúmer eða jafnvel aldrei skráður á virðisaukaskattsskrá en þrátt fyrir það gefið út reikning með virðisaukaskatti og ekki staðið skil á honum í ríkissjóð. Með ákvæðinu er stefnt að því að koma í veg fyrir slík tilfelli og fyrirbyggja tekjutap ríkissjóðs af þessum sökum. Á upplýsingavef ríkisskattstjóra er með einfaldri uppflettingu hægt að fá upplýsingar um það hverjir hafa virðisaukaskattsnúmer. Hægt er að leita bæði eftir kennitölu og virðisaukaskattsnúmeri og birtast upplýsingar um það hvenær viðkomandi virðisaukaskattsnúmer var opnað og hafi því verið lokað koma fram upplýsingar hvenær það var gert.“

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, eru úrskurðir nefndarinnar fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi. Kvörtun kæranda til ráðuneytisins er því aðallega svarað að því er varðar innheimtu skattkröfunnar og dráttarvexti. Hins vegar skoðaði ráðuneytið einnig hvernig upplýsingagjöf um virðisaukaskattsnúmer á síðu ríkisskattstjóra er háttað.

Á fundi ráðuneytisins með forsvarsmanni og umboðsmanni[A] þann 5. október 2015 komu aðilar að frekari skýringum á framfæri og sýndu m.a. útprentaðar skjámyndir af vef Ríkisskattstjóra. Af samtali við starfsmann ríkisskattstjóra fékk svo ráðuneytið þær upplýsingar að treysta megi uppflettingu á virðisaukaskattskrá hverju sinni. Miðað sé við framkvæmdadagsetningu, þ.e. þá dagsetningu sem virðisaukaskattsnúmeri sé lokað. Ef reikningur sé dagsettur fyrir framkvæmdadagsetningu sé unnt að innskatta hann, jafnvel þótt það tilheyri virðisaukaskattstímabili þar sem númer hafi verið lokað. Númer [K] hafi verið opnað fyrir mistök þann 15.2.2013 og þegar þau mistök uppgötvuðust hafi númerinu verið lokað. Það tímabil varðar þó ekki mál kæranda.

Lög eru ótvíræð um að við þær aðstæður að aðili hefur verið felldur af grunnskrá virðisaukaskatts á þeim tíma sem hann selur öðrum virðisaukaskattskylda þjónustu sé frádráttur virðisaukaskatts vegna viðskiptanna óheimill, sbr. m.a. úrskurð yfirskattanefndar í máli nr. 70/2014 og í máli kæranda nr. 71/2014. Af ítrekaðri skoðun málsins af hálfu yfirskattanefndar, Umboðsmanns Alþingis og nú ráðuneytisins að dæma þykir ljóst að á þeim tíma sem kærandi keypti þjónustu af [K] hafi virðisaukaskattsnúmer hans verið lokað. Síðari atvik, að númer hans var opnað fyrir mistök, breyta þeirri staðreynd ekki. Ráðuneytið telur að vinna embættis ríkisskattstjóra í samræmi við tillögu Umboðsmanns Alþingis, við að bæta upplýsingagjöf um hvenær virðisaukaskattsnúmer hafi verið opin eða lokuð sé til þess fallin að bæta gagnsæi og verði til bóta.

Hvað dráttarvaxtaþátt málsins og innheimtu varðar eru ekki lagaheimildir til staðar sem heimila niðurfellingu þeirra eða aðra ívilnun. Sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal greiða dráttarvexti af því sem ógreitt er ef virðisaukaskattur er ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga.

Að þessu virtu er kröfu kæranda um niðurfellingu dráttarvaxta því hafnað.

Úrskurðarorð:
Ákvörðun tollstjóra um höfnun á niðurfellingu dráttarvaxta er staðfest.



Fyrir hönd ráðherra





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum