Hoppa yfir valmynd
16. október 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Skóflustunga að meðferðarkjarna Landspítalans við Hringbraut

Allir leggjast á eitt - myndLandspítali - Ljósmyndari: Þorkell Þorkelsson

Laugardaginn 13. október var tekin skóflustunga að nýjum meðferðarkjarna Landspítalans við Hringbraut. Ráðherrar ásamt forstjóra, fulltrúum félaga, hagsmunasamtaka og stofnana tóku skóflustunguna að viðstöddum fyrrverandi heilbrigðisráðherra auk fjölmargra annarra gesta. Áætlað er að meðferðarkjarninn verði tekinn í notkun árið 2024.

LYKILBYGGING
Meðferðarkjarninn verður stærsta byggingin í Landspítalaþorpinu og gegnir lykilhlutverki í starfseminni. Meðferðarkjarninn er hugsaður út frá starfsemi Landspítala sem bráða- og háskólasjúkrahúss. Meðferðarkjarninn tengist öðrum starfseiningum Landspítala með tengigöngum og tengibrúm. Meðferðarkjarninn verður á sex hæðum auk tveggja hæða kjallara. Aðalhönnuður meðferðarkjarnans er Corpus3 -hópurinn en Spital-hópurinn sér um gatna-, veitna- og lóðahönnun.

SVANDÍS: FORGANGSMÁL
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra: „Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar. Dagurinn í dag markar tímamót í heildaruppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Nýtt sjúkrahús mun gerbylta allri aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustuna í heild sinni, ekki síst fyrir sjúklinga, starfsmenn og aðstandendur.“

PÁLL: STÆRSTU TÍMAMÓTIN
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala: „Þetta eru stærstu tímamót í sögu Landspítala frá því að Landspítali reis fyrst hér við Hringbraut fyrir tilstilli íslenskra kvenna. Mér er efst í huga þakklæti fyrir elju þeirra sem barist fyrir verkefninu í áratugi og þeirra sem nú fylgja því úr hlaði. Uppbygging Landspítalaþorpsins flýgur áfram, enda nýtur verkefnið mikilvægs stuðnings stjórnvalda og Landspítali velvilja þjóðarinnar allrar. Til hamingju við öll.“

GUNNAR: MIKIÐ STOLT
Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri NLSH: „Við sem stöndum að Hringbrautarverkefninu erum stolt á þessum degi nú þegar þegar jarðvinna vegna byggingar meðferðarkjarna hefst. Áætlanir okkar eru þær að byggingu spítalans verði lokið 2024 í samræmi við fjármálaáætlun Alþingis 2019-2023.“

Meðfylgjandi myndir frá athöfninni þegar fyrsta skóflustungan að meðferðarkjarnanum var tekin, tók Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari Landspítala. Á vef Landspítalans má sjá fleiri myndir sem hann tók við þetta tækifæri.

UPPLÝSINGAVEFUR

  • Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - mynd
  • Gunnar Svavarsson - mynd
  • Páll Matthíasson - mynd
  • Skóflur framkvæmdaaðiila dagsins - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum