Hoppa yfir valmynd
16. september 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 305/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 16. september 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 305/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20070019

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 15. júlí 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júlí 2020, um að synja umsókn hans um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki þann 15. júlí 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júlí 2020, var umsókninni synjað. Þann 15. júlí 2020 óskaði kærandi eftir endurupptöku hjá Útlendingastofnun sem og að hann vildi kæra ákvörðunina. Áframsendi Útlendingastofnun kæruna til kærunefndar útlendingamála með pósti, dags. 20. júlí sl., á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 30. júlí sl. barst greinargerð kæranda. Kærunefnd bárust tölvupóstar frá kæranda dagana 28. ágúst sl. og 1., 2., 7. og 11. september sl. ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við vinnslu umsóknarinnar hafi komið í ljós að fylgigögn hafi verið ófullnægjandi. Hafi kæranda verið sent bréf, dags. 2. október 2019, þar sem m.a. hafi verið óskað sakavottorðs frá [...], vottað á fullnægjandi vegu. Þann 18. október s.á. hafi frekari gögn borist frá kæranda en fyrrgreint sakavottorð hafi ekki verið þeirra á meðal. Hafi Útlendingastofnun ítrekað beiðni um gögn þann 21. október s.á. og þann 25. sama mánaðar hafi umboðsmaður kæranda lagt fram fyrirspurn um fyrrgreint sakavottorð og fengið leiðbeiningar þar um ásamt því að fá tveggja vikna frest til að leggja fram fullnægjandi gögn. Þann 25. nóvember s.á. hafi kærandi á ný óskað eftir frekari fresti og hafi hann verið veittur. Þann 26. nóvember hafi umsókn um atvinnuleyfi verið framsend til Vinnumálastofnunar og hafi stofnunin forsamþykkt atvinnuleyfi kæranda þann 25. febrúar sl. Þann sama dag hafi kærandi verið upplýstur um síðastnefnt og beiðni um framlagningu sakavottorðs enn á ný ítrekuð og honum verið veittur 15 daga frestur frá dagsetningu bréfsins til að leggja fram fullnægjandi gögn en að öðrum kosti myndi Útlendingastofnun taka ákvörðun í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Samkvæmt upplýsingum Íslandspósts hafi bréfið verið móttekið þann 4. mars sl. Þann 14. maí sl. hafi gagnabeiðnin verið ítrekuð og hafi kærandi svarað póstinum þann 18. maí sl. á þá vegu að hann væri enn að bíða eftir sakavottorðinu. Frekari gögn hafi hins vegar ekki borist frá kæranda.

Vísaði Útlendingastofnun til og rakti ákvæði 52. gr. laga um útlendinga og 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Þau gögn sem Útlendingastofnun hefði óskað ítrekað eftir hefðu ekki borist og væru fylgigögn umsóknar því enn ófullnægjandi og væri ákvörðunin tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Miðað við þau gögn sem kærandi hefði lagt fram og þau gögn sem hefðu ekki borist væri kærandi ekki búinn að sýna fram á að hann uppfyllti skilyrði 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga um fullnægjandi gögn með umsókn. Kærandi hefði því ekki sýnt fram á að hann uppfyllti skilyrði 62. gr. um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi óskað eftir sakavottorði frá [...] sendiráðinu í [...] þann 4. desember 2019 en að gögn vanti enn frá [...]. Þá vísar kærandi til þess að Covid-19 faraldurinn hafi gert honum erfitt fyrir að afla sakavottorðsins. Í tölvupóstum kæranda til kærunefndar vísar kærandi til þess að hann sé nú búinn að fá sakavottorðið frá innanríkisráðuneyti [...] og hafi sent það á sendiráð Íslands í Osló, Noregi. Bíði hann nú frekari leiðbeininga frá sendiráðinu auk fullnægjandi vottunar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga tekur Útlendingastofnun ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Þá skulu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun gera kröfu um til staðfestingar að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 52. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins setur ráðherra reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins, m.a. hvaða gögn og vottorð umsækjandi skuli leggja fram, hvaða kröfur skuli gerðar til framlagðra gagna, hver skuli leggja mat á gildi skjala og um undanþágu frá kröfu um gögn.

Í lögunum er gert ráð fyrir því að útlendingum sem dæmdir hafa verið til refsingar erlendis sé synjað um útgáfu dvalarleyfis. Þannig er það skilyrði þess að útlendingi sé veitt dvalarleyfi í samræmi við ákvæði VI.-IX. kafla laganna að ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að honum verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Með vísan til þessa og þeirra ákvæða XII. kafla laganna sem kveða meðal annars á um brottvísun útlendinga sem hafa afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdir þar til refsingar á síðustu fimm árum er því málefnalegt að við meðferð umsóknar um dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku sé litið til sakaferils umsækjanda í þeim ríkjum sem hann hafi dvalist í á síðastliðnum fimm árum.

Í 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært nánar reglur um fylgigögn með umsókn um dvalarleyfi. Í 1. mgr. 10. gr. segir að Útlendingastofnun geti krafist þeirra gagna sem nauðsynleg eru við vinnslu umsóknar, m.a. fæðingarvottorðs, hjúskaparstöðuvottorðs, forsjár- eða umgengnisgagna, heilbrigðisvottorðs, dánarvottorðs, og staðfestingu á dvalarstað hér landi. Þá geti stofnunin krafist ljósmynda, greinargerða, gagna um framfærslu og sakavottorðs í þeim tilvikum sem stofnunin meti það nauðsynlegt. Í 2. mgr. 10. gr. er mælt fyrir um að með umsókn um dvalarleyfi skuli umsækjandi leggja fram yfirlýsingu sína um að hann hafi hreinan sakaferil í samræmi við ákvæði útlendingalaga. Í 3. mgr. 10. gr. segir m.a. að umsækjandi afli sjálfur nauðsynlegra fylgigagna með dvalarleyfisumsókn. Þá skuli fylgigögn vera á því formi sem stofnunin geri kröfu um og staðfest með þeim hætti sem stofnunin telji nauðsynlegan. Í 5. mgr. 10. gr. er m.a. kveðið á um að Útlendingastofnun geti veitt undanþágu frá framlagningu gagna þegar lög krefjist ekki framlagningar og málefnalegar ástæður mæli með því, t.d. ef umsækjanda er ómögulegt að afla þeirra, svo sem vegna stríðsástands í heimaríki.

Við meðferð umsóknar kæranda hjá Útlendingastofnun óskaði stofnunin eftir að kærandi legði fram tilgreind gögn, þ. á m. frumrit sakavottorðs, þar sem fylgigögn með umsókn væru ófullnægjandi, líkt og rakið er í III. kafla úrskurðarins. Af gögnum málsins er ljóst að kæranda hefur gefist nægt ráðrúm til að verða við gagnabeiðni Útlendingastofnunar, en frá fyrsta bréfi stofnunarinnar til kæranda þess efnis að fyrrgreint sakavottorð vantaði, dags. 2. október 2019, liðu um níu mánuðir fram að hinni kærðu ákvörðun án þess að kærandi fullnægði skyldu sinni um að með umsókn hans væru nauðsynleg fylgigögn. Þá hefur kærandi ekki lagt fyrrgreint sakavottorð, vottað á fullnægjandi vegu, fram við meðferð málsins hjá kærunefnd. Vegna athugasemda í greinargerð áréttar kærunefnd að gagnabeiðni Útlendingastofnunar hófst um 5 mánuðum áður en Covid-19 faraldurinn skall á og hefur sú málsástæða því afar takmarkað vægi í málinu. Að öðru leyti hefur kærandi ekki lagt fram skýringar á því hvers vegna honum hafi ekki verið unnt að leggja fram sakavottorð og verður því ekki séð að málefnalegar ástæður séu til að víkja frá kröfu laga og reglugerðar um útlendinga um að slíkt vottorð liggi fyrir vegna umsóknar um dvalarleyfi. Að framangreindu virtu er ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Hilmar Magnússon                                 Gunnar Páll Baldvinsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum