Hoppa yfir valmynd
21. október 2008 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Breytingar á loftferðalögum til umsagnar

Til umsagnar er nú á vef samgönguráðuneytisins frumvarp til laga um breytingar á lögum um loftferðir nr. 60/1998 sem snúast meðal annars um breytingar á flugvernd og gjaldtöku vegna hennar. Ráðuneytið býður hagsmunaaðilum að gera athugasemdir eigi síðar en 30. október og óskar þær sendar á netfangið [email protected].

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum. Um nokkurt skeið hefur staðið fyrir dyrum heildarendurskoðun laga um loftferðir í samgönguráðuneytinu. Þar sem sú vinna er komin skammt á veg þótti brýnt að koma að tilteknum breytingum á lögunum ekki síst með tillit til þeirra stjórnskipulegu fyrirvara sem gerðir hafa verið vegna innleiðingar nokkurra reglugerða Evrópubandalagsins í íslenskan rétt, sbr. 9. gr. frumvarpsins. Verði frumvarpið að lögum verður unnt að aflétta þeim fyrirvörum og innleiða viðkomandi gerðir án frekari tafa. Í öðrum tilvikum þótti mikilvægt að styrkja og bæta lagastoð fyrir setningu reglugerða á tilteknum sviðum.


Fleiri sinni eftirliti

Í 1. gr. og 2. gr. frumvarpsins er lagt til að Flugmálastjórn Íslands verði heimilt að fela viðurkenndum aðilum skrásetningu og eftirlit með starfrækslu og lofthæfi loftfara af tiltekinni tegund eða flokki. Er þar leitast við að styrkja og bæta heimildir núgildandi laga til að festa frekar í sessi það fyrirkomulag sem komið hefur verið á varðandi hreyfilknúin fis með það fyrir augum að mögulegt væri að koma sama fyrirkomulagi á varðandi aðra flokka loftfara.

Aðrar breytingar lúta m.a. að því að bæta og styrkja lagastoð fyrir setningu reglugerða og innleiðingu gerða á nokkrum sviðum vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Má þar nefna heimildir til vottunar eða viðurkenningar til verklegrar og bóklegrar kennslu í 3. gr. frumvarpsins og heimildir til setningar reglugerða á sviði almannaflugs og verkflugs, sbr. 6. og 7. gr. frumvarpsins.

Þá er lagt til að lagastoð fyrir setningu reglugerðar um hámarksflugvakt verði bætt í 8. gr. frumvarpsins og ráðherra verði falið að setja reglugerð á sviði öryggis og heilbrigði sbr. 10. gr. frumvarpsins. Ákvæði laganna er lúta að flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar eru styrkt enn frekar í 11. gr. frumvarpsins og í 12. gr. og 13. gr. frumvarpsins er kveðið á um skýrari lagastoð fyrir innleiðingu gerða Evrópubandalagsins á sviði flugafgreiðslu og flugafgreiðslutíma.

Skýrari lagastoð vegna flugverndar

Umfangsmestu breytingarnar snúa að flugvernd og gjaldtöku vegna flugverndar, sjá 14. – 24. gr. frumvarpsins. Kveðið er nánar á um eftirlit Flugmálastjórnar Íslands, heimildir til leitar, gerð bakgrunnsathugana og þagnarskyldu. Ennfremur er kveðið á um skýrari lagastoð til setningar reglugerða á sviði flugverndar. Lagt er til að sá skattur sem núgildandi lög ákveða vegna flugverndar verði afnuminn og rekstraraðila flugvallar veitt heimild til gjaldtöku vegna flugverndareftirlits. Ennfremur er lagt til að komið verði á notendanefnd á flugvelli sem verði vettvangur skoðanaskipta milli notenda flugvallar og rekstraraðila um málefni flugvallarins, þ.m.t. gjaldtöku. Kveðið er á um gagnsæi gjalda í 23. gr. frumvarpsins þar sem sú skylda er lögð á rekstraraðila flugvallar að leggja árlega fram sundurliðun kostnaðar sem lögð er til grundvallar gjaldtöku.

Í 1. mgr. 24. gr. frumvarpsins er lagt til að það skilyrði sem 3. mgr. 78. gr. núgildandi laga um loftferðir áskilur er lýtur að því að beiðni hafi borist frá flugrekanda að kröfu erlends ríkis þess efnis að vopnaðir verðir séu um borð í íslensku loftfari í almenningsflugi sé fellt niður.

Sérstök breyting er gerð í 25. gr. frumvarpsins er varðar leiðréttingu á orðalagi 132. gr. núgildandi laga um leit og björgun þar sem ákvörðunarvaldið á fyrirkomulagi við leit og björgun er fært til samgönguráðherra frá Flugmálastjórn Íslands. Er breytingin gerð með hliðsjón af þeim breytingum sem orðin er á hlutverki stofnunarinnar í kjölfar breytinga á lögum um loftferðir nr. 165/2006, laga um Flugmálastjórn Íslands nr. 100/2006 og laga um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands nr. 102/2006.

Áréttuð er heimild ríkisstjórnar til samningagerðar í 26. gr. frumvarpsins og heimildin útvíkkuð frekar til samninga á sviði flugverndar.


Lagafrumvarp til breytinga á lögum um loftferðir nr. 60/1998.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira