Hoppa yfir valmynd
9. desember 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 197/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 9. desember 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 197/2015

í stjórnsýslumáli nr. KNU15010091

Kæra á ákvörðunum Útlendingastofnunar

vegna [...]

og dóttur hennar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 15. desember 2014 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) og f.h. dóttur sinnar [...], fd. [...], ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 5. desember 2014, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir þeirra um hæli á Íslandi og endursenda þær til Spánar.

Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsóknir þeirra um hæli til efnislegrar meðferðar. Til vara er þess krafist, verði ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest, að Útlendingastofnun verði gert að afla sérstakrar tryggingar frá spænskum stjórnvöldum um að kæranda og dætrum hennar verði gefinn raunhæfur kostur á að sækja um hæli á Spáni að nýju og að þeim verði veitt sú vernd sem þeim ber gegn ofsóknum sem þær sæti þar í landi, auk þess sem önnur grundvallarréttindi þeirra verði tryggð við endurkomuna til Spánar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um hæli á Íslandi fyrir sig og dætur sínar þann 13. september 2014. Leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni skilaði engum niðurstöðum. Þann 18. september 2014 var beiðni um viðtöku kæranda beint til yfirvalda á Spáni, sbr. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 1. október 2014 barst svar frá spænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda og dætra hennar á grundvelli 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 5. desember 2014 að taka ekki umsókn kæranda og dætra hennar um hæli hér á landi til efnismeðferðar og að þær skyldu endursendar til Spánar. Kærandi kærði ákvarðanirnar þann 15. desember 2014 til innanríkisráðuneytisins auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa á hinum kærðu ákvörðunum á meðan mál þeirra væri til meðferðar.

Þann 1. janúar 2015 tók kærunefnd útlendingamála til starfa, sbr. 3. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, með síðari breytingum. Allar kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar, sem enn biðu afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu þann 1. janúar sl. og heyra til þeirra ákvarðana sem heimilt er að kæra til kærunefndar útlendingamála, verða afgreiddar hjá kærunefndinni, sem fer nú með úrskurðarvald í samræmi við 3. gr. a og 3. gr. b laga um útlendinga, með síðari breytingum. Þegar kærunefndin tók til starfa hafði innanríkisráðuneytið ekki úrskurðað í máli kæranda og mun kærunefndin því úrskurða í máli þessu.

Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 11. mars 2015. Greinargerð kæranda barst kærunefndinni 5. febrúar 2015. Þann 9. september kom kærandi fyrir kærunefndina og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að hælisumsókn kæranda yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hún skyldi endursend til Spánar. Lagt var til grundvallar að Spánn virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Flutningur kæranda til Spánar fæli því ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Þá var það niðurstaða Útlendingastofnunar að hagsmunum dætra kæranda væri ekki stefnt í hættu fylgi þær móður sinni til Spánar.

Varðandi andmæli kæranda tók Útlendingastofnun fram að kærandi gæti leitað til lögreglu á Spáni óttist hún tiltekna aðila og spænsk lögregluyfirvöld ættu að vera fær um að bregðast við með fullnægjandi hætti. Þá gæti hún leitað til stjórnvalda og dómstóla. Ekkert benti til annars en að á Spáni væru næg úrræði í boði fyrir dætur hennar varðandi heilbrigðis- eða sálfræðiþjónustu. Þá taldi Útlendingastofnun rétt að geta 32. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar um miðlun upplýsinga um heilsufar til endurviðtökuríkis.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi og fjölskylda hennar telji sér ekki vært á Spáni, hvort sem þau séu í hælismeðferð eða ekki, vegna ofsókna [...] glæpasamtaka á hendur eiginmanni hennar þar í landi. Dætur hennar hafi tvisvar verið stöðvaðar af einstaklingum í bíl sem hafi spurt um föður þeirra og hótað þeim. Kærandi kveðst hafa leitað til lögreglu vegna þessara atvika og í greinargerð kveður hún lögregluna ekki hafa getað hjálpað þeim og það hafi m.a. verið vegna fordóma lögreglunnar í garð [...], sem þeir álíta oft glæpamenn. Vandi fjölskyldunnar hafi verið afskrifaður sem persónulegar deilur á milli [...] glæpasamtaka og ekki tekinn alvarlega. Þá er vísað til skýrslna Amnesty International frá árinu 2011 og skýrslu nefndar um afnám kynþáttamisréttis frá 2011. Í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi aðstæður á Spáni ekki verið rannsakaðar með tilliti til þess að fjölskyldan telji sér ekki vært á Spáni óháð því hvort þau séu í hælismeðferð, og vísað er til skýrslu nefndar á vegum Evrópuráðsins um skipulagða glæpastarfsemi, spillingu og peningaþvætti frá árinu 2013. Þá telji kærandi að endursending þeirra til Spánar myndi brjóta í bága við 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, sbr. 33. gr. flóttamannasamningsins. Þeim hafi þegar verið synjað um hæli og ekki sé víst að hælisumsókn þeirra verði endurskoðuð, enda ekkert nýtt komið fram í málinu.

Þar að auki kemur fram í greinargerð kæranda að af rökstuðningi Útlendingastofnunar sé ekki að sjá að málið hafi verið skoðað ofan í kjölinn. Ástand hælisleitenda á Spáni hafi ekki verið metið út frá málsástæðum kæranda, þ.e. á einstaklingsgrundvelli. Óbreytt ákvörðun Útlendingastofnunar fæli í sér brot á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og laga um útlendinga.

Gerð er athugasemd við að ekki sé tilgreint á hvaða lagagrundvelli ákvörðunin sé byggð. Séu það alvarlegir annmarkar á ákvörðuninni og í bága við 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í greinargerðinni er jafnframt tekið fram að svo virðist vera að Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað aðstæður og málsmeðferð á Spáni og um staðlaðan texta sé að ræða í ákvörðun Útlendingastofnunar. Vísað er til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli A.C. og annarra gegn Spáni og upplýsinga úr skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um Spán frá júní 2014.

Í greinargerð kæranda kemur fram að eldri dóttir kæranda, [...], hafi liðið illa á Spáni. Í hinni kærðu ákvörðun hafi skort rökstuðning fyrir því að hvaða marki tekið hafi verið tilhlýðilegt tillit til þeirrar verndar sem börn eiga rétt á skv. ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, íslenskum lögum og öðrum reglum þjóðaréttar. Af framangreindu sé ljóst að ákvörðunin fullnægi ekki kröfum 22. gr. stjórnsýslulaga auk þess sem Útlendingastofnun hafi virt að vettugi ákvæði ýmissa laga sem kveða á um að hagsmunir barna skuli hafðir að leiðarljósi við töku ákvarðana í málum sem þau varða.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

1. Afmörkun úrlausnarefnis

Fyrir liggur í máli þessu að spænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda og dætrum hennar á grundvelli 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Eldri dóttir kæranda, [...], varð [...], og verður því úrskurðað sérstaklega í máli hennar.

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort Útlendingastofnun hafi tekið rétta ákvörðun þegar ákveðið var að taka ekki umsókn kæranda um hæli til efnismeðferðar og vísa henni til Spánar. Úrlausnarefni málsins er afmarkað við það hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd.

2. Réttarstaða barns kæranda

Svo sem fram er komið komu dætur kæranda með henni hingað til lands. Haldast úrskurðir er varða foreldra og börn þeirra í hendur í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar, þegar barn er í fylgd annars eða beggja foreldra. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir, þ.e. yngri dóttir kæranda [...], er í fylgd móður sinnar.

3. Lagarammi

Í máli þessu gilda aðallega ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum, ákvæði reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Auk þess ber að taka mið af ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla hennar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á hælisumsókn. Jafnframt ber að líta til annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga kemur fram að stjórnvöld geti, með fyrirvara um ákvæði 45. gr. laganna, synjað að taka til efnismeðferðar hælisumsókn ef krefja megi annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda (Dyflinnarmál). Þó kemur fram í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis hafi hann slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæli annars með því. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má einnig ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Við mat á því hvort beita skuli þessum ákvæðum í Dyflinnarmálum þarf einkum að kanna hvort aðstæður hælisleitenda í því ríki, sem endursenda á hælisleitanda til samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, kunni að brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sé svo er óheimilt að senda hælisleitandann þangað og skal þá taka hælisumsókn viðkomandi til efnismeðferðar hér, sbr. einnig undanþágureglu 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Eftir atvikum þarf enn fremur að skoða hvort slíkur ágalli sé á málsmeðferð þess ríkis, sem endursenda á til, að það brjóti í bága við 13. gr. mannréttindasáttmálans.

4. Aðstæður og málsmeðferð á Spáni

Samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu í málum er varða Grikkland og Ítalíu getur sú staða komið upp að óheimilt sé að endursenda hælisleitendur til einstakra ríkja vegna ástands í viðkomandi móttökuríki. Aðildarríki mannréttindasáttmálans verða að vera meðvituð um alvarlega galla við meðferð hælisumsókna eða í móttöku hælisleitenda í því aðildarríki sem endursenda skal til á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Verður því að skoða aðstæður hælisleitenda og málsmeðferð á Spáni.

Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir skýrslur um aðstæður og málsmeðferð á Spáni, sbr. m.a. Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report – Universal Periodic Review: Spain (UNHCR, júní 2014); Spain 2014 Human Rights Report (United States Department of State, 25. júní 2015); Dublin II Regulation: National Report: European network for tecnical cooperation on the application of the Dublin II Regulation - Spain (European Council on Refugees and Exiles, 20. júní 2012); Dublin II national asylum procedure in Spain (Forumréfugiés og CEAR, 2012); Amnesty International Report 2014/15 - Spain (Amnesty International, 25. febrúar 2015); Freedom in the world 2015 – Spain (Freedom House, 31. mars 2015) og EDAL Country Overview – Spain (European Database of Asylum Law, 2012).

Samkvæmt ofangreindum gögnum eru aðstæður og þjónusta við hælisleitendur góðar á meginlandi Spánar en ákveðin vandamál eru á landsvæðum Spánar í Norður-Afríku (Ceuta og Melilla). Efnahagsaðstæður og atvinnuleysi á Spáni hafa leitt til niðurskurðar í velferðarkerfi ríkisins, þar á meðal þjónustu við hælisleitendur. Málsmeðferð hælisumsókna getur verið löng og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur gert athugasemdir við að horfa þurfi meira á þörf hælisleitandans fyrir vernd við meðferð hælismála þar í landi og einnig þurfi að auka beitingu tilmæla og leiðbeininga frá Flóttamannastofnun.

Í greinargerð kæranda er vísað til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli A.C. og annarra gegn Spáni máli kæranda til stuðnings. Í dóminum komst Mannréttindadómstóllinn að þeirri niðurstöðu að spænsk stjórnvöld hefðu brotið gegn 13. gr. mannréttindasáttmálans þar sem stuttur málsmeðferðartími hafi komið í veg fyrir að kærendur í málinu gátu fært rök fyrir máli sínu, áður en þeir voru endursendir til heimalands síns. Kærunefnd leitaði til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um upplýsingar varðandi málsmeðferð á Spáni. Spurning nefndarinnar laut að því hvort að Flóttamannastofnun hefði vitneskju um svipuð tilvik og áttu sér stað í ofangreindum dómi og hvort slík tilvik væru algeng í málsmeðferð hælisumsókna hjá spænskum stjórnvöldum. Samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannastofnun eru tvær mismunandi málsmeðferðir vegna hælisumsókna á Spáni, annars vegar málsmeðferð við landamæri (e. border procedure) og hins vegar málsmeðferð innanlands (e. inland procedure). Hælisumsóknir einstaklinganna í ofangreindum dómi Mannréttindadómstólsins heyrðu undir málsmeðferð við landamæri. Hvað þá tegund málsmeðferðar varðar þá sé enn skortur á raunhæfum réttarúrræðum, þar sem kæra á ákvörðun í hælismáli frestar ekki réttaráhrifum og verndar ekki gegn endursendingu. Hins vegar fara umsóknir einstaklinga sem eru endursendir til Spánar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar alltaf í málsmeðferð innanlands. Samkvæmt ofangreindu telur kærunefnd ljóst að umsóknir kæranda og dóttur hennar munu ekki fara í málsmeðferð við landamæri á Spáni og því sé ekki hætta á að brotið verði gegn 13. gr. mannréttindasáttmálans við endursendingu þeirra, af þeim sökum.

Athugun kærunefndar á aðstæðum hælisleitenda á Spáni hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði hælisleitenda á Spáni séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda til Spánar brjóti í bága við 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, verði hún send þangað. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns á Spáni bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu hælisleitenda til Spánar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Af þeim skýrslum og gögnum sem kærunefndin hefur kynnt sér má ráða að kærandi getur leitað sér aðstoðar lögregluyfirvalda á Spáni óttist hún að á henni eða dætrum hennar verði brotið. Jafnframt ætti kæranda og dætrum hennar að standa til boða heilbrigðisþjónusta á Spáni. Fær það einnig stoð í þeim gögnum sem kærandi hefur lagt fram í málinu þar sem sjá má að hún og dætur hennar hafa notið heilbrigðisþjónustu á Spáni.

5. Sérstök tengsl við landið eða aðrar sérstakar ástæður skv. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 24. september 2014 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland fyrir utan að hún þekkti hér ein hjón. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Þá benda gögn ekki til þess að aðstæður hennar séu að öðru leyti svo sérstakar að ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga eigi við. Verður því ekki talið að ástæða sé til að taka mál kæranda til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland eða annarra sérstakra ástæðna.

6. Reglur stjórnsýsluréttar

Í greinargerð kæranda kom fram að ákvörðun Útlendingastofnunar í máli dóttur kæranda hafi ekki verið talin nægilega rökstudd hvað varðar sérstakar aðstæður stúlkunnar í tengslum við endursendingu fjölskyldunnar til Spánar.

Í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um efni rökstuðnings stjórnsýsluákvarðana. Þar segir að vísa eigi til þeirra réttarreglna sem ákvörðun byggir á, þeirra meginsjónarmiða sem ráðandi voru við mat og þeirra málsatvika sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins, þyki ástæða til. Í skýringarriti með stjórnsýslulögum (Stjórnsýslulög – skýringarrit (Páll Hreinsson, forsætisráðuneytið, 1994)) segir að þegar myndast hefur fastmótuð stjórnsýsluframkvæmd gæti stjórnvaldi verið heimilt að útbúa staðlaða greinagerð um hana en sennilega yrði þó ávallt að gera grein fyrir því í rökstuðningi hvaða meginsjónarmið hefðu verið ráðandi við mat á sérhverju máli. Í umfjöllun skýringarritsins segir ennfremur að í flestum tilvikum ætti að nægja tiltölulega stuttur rökstuðningur fyrir ákvörðunum í málum á fyrsta stjórnsýslustigi. Hefur það verið framkvæmd Útlendingastofnunar í málum þar sem börn eru í fylgd með foreldrum að fjalla ekki efnislega um aðstæður barnsins heldur vísa í rökstuðning með ákvörðun foreldra þeirra. Telja verður þá framkvæmd uppfylla viðmið 22. gr. stjórnsýslulaga og verður því ekki fallist á það með kæranda að ákvörðun Útlendingastofnunar í máli dóttur kæranda standist ekki kröfur stjórnsýslulaga um rökstuðning stjórnvaldsákvörðunar. Ennfremur er ekki fallist á að Útlendingastofnun hafi virt að vettugi ákvæði laga og alþjóðasáttmála er kveða á um að hagsmunir barna skuli hafðir að leiðarljósi við töku ákvarðana í málum er þau varðar.

Í greinargerð kæranda er því einnig haldið fram að Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað mál kæranda nægilega og þar með brotið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. mgr. 50. gr. laga um útlendinga. Byggt er á því að rannsókn á aðstæðum á Spáni hafi verið ábótavant og um staðlaðan texta í ákvörðun Útlendingastofnunar sé að ræða. Aðstæður á Spáni hafi ekki verið rannsakaðar með tilliti til þess að fjölskyldan telur sér ekki vært á Spáni óháð því hvort þau séu í hælismeðferð. Þá sé ekki að sjá af rökstuðningi ákvörðunarinnar að málið hafi verið skoðað ofan í kjölinn og út frá málsástæðum kæranda, þ.e. á einstaklingsgrundvelli.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal Útlendingastofnun sjá til þess, að málið sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á. Að auki ef deilt er um málsatvik sem hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins ber stjórnvöldum að leggja áherslu á að rannsaka þann þátt þess.

Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir öll gögn varðandi mál kæranda og telur ekki að slíkur ágalli sé á rannsókn og málsmeðferð Útlendingastofnunar við úrlausn málsins þannig að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar af ofangreindum ástæðum. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er sérstaklega fjallað um þær hótanir sem kærandi kveður þær mæðgur hafa orðið fyrir og fjallað er um að kærandi eigi að geta leitað til lögreglu eða annarra yfirvalda á Spáni óttist hún hótanir tiltekinna aðila. Þá fjallar Útlendingastofnun einnig um andleg veikindi dóttur kæranda og um úrræði á Spáni varðandi heilbrigðis- og sálfræðiþjónustu. Kærunefndin telur því ljóst að Útlendingastofnun hafi við meðferð málsins tekið tillit til málsástæðna og aðstæðna kæranda og fjölskyldu hennar.

Í skýringarriti með stjórnsýslulögunum (Stjórnsýslulög – skýringarrit (Páll Hreinsson, forsætisráðuneytið, 1994)) kemur fram, eins og áður greindi, að í málum á fyrra stjórnsýslustigi ætti tiltölulega stuttur rökstuðningur að nægja til þess að uppfylla skilyrði 22. gr. stjórnsýslulaga. Það er mat kærunefndar að þrátt fyrir stuttan rökstuðning í ákvörðun Útlendingastofnunar fullnægi hann skilyrðum 22. gr. stjórnsýslulaga. Það að um staðlaðan texta sé að ræða sé ekki eitt og sér brot gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga né 22. gr. laganna um rökstuðning stjórnvaldsákvörðunar. Kærunefndin telur þó að það væru vandaðri stjórnsýsluhættir ef Útlendingastofnun gerði grein fyrir því á hvaða upplýsingum og gögnum er byggt á í niðurstöðu um aðstæður hælisleitenda á Spáni. Engu að síður er það mat kærunefndar að slíkur skortur á tilvísun til gagna leiði ekki til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Með vísan til ofangreindrar niðurstöðu kærunefndar um aðstæður á Spáni er ljóst að sá ágalli á ákvörðun Útlendingastofnunar hafi ekki leitt til rangrar efnislegrar niðurstöðu og sé því ekki slíkur að ógilda beri ákvörðunina af þeirri ástæðu.

Kærandi telur alvarlegan annmarka vera á ákvörðun Útlendingastofnunar þar sem ekki hafi verið tilgreint á hvaða lagagrundvelli ákvörðunin er byggð, en skv. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skal í rökstuðningi vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á.

Kærunefndin gerir athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi ekki í rökstuðningi ákvörðunar sinnar vísað til þess lagaákvæðis sem ákvörðunin byggir á. Kærunefndin hefur farið yfir ákvörðun Útlendingastofnunar og er það mat kærunefndar að þessu sinni að sá ágalli sé ekki slíkur að ógilda beri ákvörðunina af þessari ástæðu. Ekki verður séð að skortur á lagatilvísun hafi haft áhrif á efnislega niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar. Kærunefndin telur ljóst að í máli kæranda byggir ákvörðun Útlendingastofnunar á d-lið 1. mgr. 46. gr. a útlendingalaga. Kærandi naut aðstoðar löglærðs talsmanns við meðferð máls hennar hjá Útlendingastofnun, sem og við meðferð kærumáls hennar. Kærunefndin telur að af innihaldi greinargerðar kæranda megi sjá að talsmanni hennar hafi verið ljóst hvaða ákvæði Útlendingastofnun beitti. Kærandi átti einnig þess kost að óska eftir frekari rökstuðningi á ákvörðun Útlendingastofnunar, sbr. 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga, teldu hún eða löglærður talsmaður hennar þess þörf.

7. Varakrafa kæranda

Til vara krefst kærandi þess, verði ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest, að Útlendingastofnun verði gert að afla sérstakrar tryggingar frá spænskum stjórnvöldum um að kærendum verði gefinn raunhæfur kostur á að sækja um hæli á Spáni að nýju og að þeim verði veitt sú vernd sem þeim ber gegn ofsóknum sem þær sæti þar í landi, auk þess sem önnur grundvallarréttindi þeirra verði tryggð við endurkomuna til Spánar. Kærunefnd útlendingamála telur kröfu kæranda fyrir utan valdsvið nefndarinnar, sbr. 3. gr. a sbr. 30. gr. laga um útlendinga. Varakröfu kæranda er því vísað frá.

8. Samantekt

Í máli þessu hafa spænsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og dóttur hennar og umsóknum þeirra um hæli á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er fallist á að Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja um efnismeðferð á umsókn kæranda um hæli hér á landi og ákveða að senda kæranda og dóttur hennar til Spánar með vísan til d-liðar 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga.

Líkt og að ofan greinir var dóttir kæranda í fylgd með henni hingað til lands. Hefur mál kæranda og dóttur hennar verið skoðað í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ekkert við meðferð málsins hefur gefið tilefni til þess að ætla að brotið verði gegn ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eða íslenskrar löggjafar um börn verði kærandi og dóttir hennar send aftur til heimalands síns.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála að staðfesta beri ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda og dóttur hennar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration in the case of the applicant and her daughter is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Pétur Dam Leifsson Vigdís Þóra Sigfúsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum