Hoppa yfir valmynd
26. mars 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Röngum ásökunum vísað á bug

Samstarfsnefnd um málefni aldraðra sem fer með stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra, lýsir ásakanir LEB (Landssambands eldri borgara) um að ekki hafi verið farið að lögum við afgreiðslu tillagna til ráðherra um úthlutanir úr sjóðnum fyrir árið 2007 algjörlega tilhæfulausar. Afgreiðsla nefndarinnar á tillögum sínum til ráðherra hafi verið í fullu samræmi við lög um málefni aldraðra og reglugerð um Framkvæmdasjóð aldraðra.

Þetta kemur fram í bókun frá fundi nefndarinnar sem haldinn var föstudaginn 22. mars. Að bókuninni standa allir nefndarmenn að undanskildum fulltrúa LEB í nefndinni. Tilefni bókunarinnar er bréf LEB til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra þar sem LEB lýsir furðu á að ráðherra skuli ætla að verja 6,6, milljónum króna úr sjóðnum í tilraunaverkefni um upplýsinga- og ráðgjafarþjónustu fyrir aldraða. Í bréfinu er því haldið fram að ekki hafi verið fjallað um framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra til þessa verkefnis í stjórn sjóðsins eins og beri að gera samkvæmt lögum og reglugerð um sjóðinn.

Samstarfsnefnd um málefni aldraðra hefur sent svar við fyrrnefndu bréfi þar sem ásökunum LEB er alfarið vísað á bug, þær séu ærumeiðandi og skýringar skorti á tilgangi að baki þeim. Þá segir enn fremur að stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra vænti þess að framkvæmdastjórn LEB leiðrétti það sem missagt hafi verið um þetta mál og leggi áherslu á að kynna þá leiðréttingu á opinberum vettvangi.

Samstarfsnefnd um málefni aldraðra er þannig skipuð:

Án tilnefningar:
Jón Helgason, formaður
Aðalsteinn Guðmundsson, læknir

Tilnefnd af Landssambandi eldri borgara:
Margrét Margeirsdóttir, formaður eldri borgara í Reykjavík

Tilnefndur af Öldrunarráði Íslands
Gísli Páll Pálsson, formaður Öldrunarráðs Íslands

Tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga:
Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði

 

(ATH. pdf skjöl opnast í nýjum glugga)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum