Hoppa yfir valmynd
27. mars 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Reglugerð um sérfræðileyfi lífeindafræðinga undirrituð

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra undirritaði í dag reglugerð um veitingu sérfræðileyfa í lífeindafræði. Lífeindafræðingar sem uppfylla tilskilin skilyrði og fengið hafa leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra munu eftirleiðis hafa rétt til að starfa sem sérfræðingar í lífeindafræði. Um 400 lífeindafræðingar eru í dag á Íslandi. Fulltrúar Félags lífeindafræðinga sem voru viðstaddir er ráðherra undirritaði reglugerðina sögðu þetta merk tímamót í sögu stéttarinnar, en Íslendingar eru ásamt Norðmönnum fyrstir þjóða á Norðurlöndum sem veita sérfræðileyfi í lífeindafræði.

Frá því að lögum um meinatækna var breytt í maí 2005 og heiti stéttarinnar breytt úr meinatækni í lífeindafræðing hefur verið í gangi vinna við reglugerð um sérfræðileyfi í lífeindafræði í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í samstarfi við Félag lífeindafræðinga.

Til að lífeindafræðingur geti átt rétt til að öðlast sérfræðileyfi í lífeindafræði þarf viðkomandi að hafa starfsleyfi sem lífeindafræðingur hér á landi. Hann skal hafa lokið meistaraprófi (MS gráðu) eða æðri gráðu frá viðurkenndum háskóla eða ígildi þeirrar menntunar. Þá þarf hann að hafa unnið sem lífeindafræðingur að loknu prófi sem jafngildir minnst tveimur árum í fullu starfi við þá sérgrein eða á því sviði sem umsókn hans um sérfræðileyfi tekur til.

Í reglugerðinni er bráðabirgðaákvæði sem veitir ráðherra heimild í tvö ár til að veita lífeindafræðingum sérfræðileyfi sem ekki uppfylla almennu skilyrðin. Til að fá sérfræðileyfi samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu þurfa viðkomandi að hafa langa starfsreynslu við sérgreinina, hafa stundað nám í greininni við viðurkenndar stofnanir og að hafa kynnt störf sín og niðurstöður í ritrýndum læknisfræðilegum tímaritum eða með öðrum viðurkenndum hætti.

Við undirritun reglugerðar um sérfræðileyfi lífeindafræðinga
Frá undirritun reglugerðarinnar um sérfræðileyfi í lífeindafræði.

Frá vinstri: Kristín Hafsteinsdóttir formaður Félags lífeindafræðinga, Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra og Martha Á. Hjálmarsdóttir sem er í forsvari fyrir námi lífeindafræðinga. Fyrir aftan þær standa Kristín Jónsdóttir og Helga Erlendsdóttir úr Félagi lífeindafræðinga.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum