Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2010 Félagsmálaráðuneytið

Samið við RKÍ um sjálfboðastörf fyrir allt að 180 unga atvinnuleitendur

Frá undirskrift samnings um sjálfboðastörfVinnumálastofnun og Rauði kross Íslands hafa gert með sér samning um viðamikið verkefni til að tryggja sjálfboðastörf fyrir allt að 180 unga atvinnuleitendur á aldrinum 18–24 ára. Samningurinn var undirritaður í dag.

Þátttakendur fá þjálfun til að sinna hefðbundnum sjálfboðaliðaverkefnum hjá deildum Rauða krossins en einnig er gert ráð fyrir nýjum verkefnum. Samningurinn er hluti af átaki félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Vinnumálastofnunar Ungt fólk til athafna. Með samningnum hefur tekist að tryggja nær helming þeirra 400 sjálfboðastarfa sem stofna á til á þessu ári samkvæmt átakinu.

Tilgangur verkefnisins er að stuðla að virkni og starfshæfni ungra atvinnuleitenda og sporna gegn erfiðum félagslegum og heilsufarslegum afleiðingum sem oft fylgja langvarandi atvinnuleysi, auk þess að kynna fyrir fleiri þau fjölmörgu störf og verkefni sem Rauði krossinn sinnir í samfélaginu.

Í samningnum felst að Vinnumálastofnun kostar ráðningu allt að átta verkefnisstjóra hjá Rauða krossinum til að annast fræðslu fyrir sjálfboðaliðana, val á verkefnum, stuðning og eftirlit með þátttöku þeirra í verkefnum og fleira. Skilyrði er að þeir sem ráðnir verða verkefnisstjórar séu án atvinnu og tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Rauði krossinn leggur til starfsaðstöðu og stendur undir öðrum kostnaði vegna verkefnisins. Hann sér einnig til þess að þátttakendur séu slysatryggðir við sjálfboðastörfin.

Vinnumálastofnun mun annast val á einstaklingum til þátttöku í verkefninu og gera samning við hvern og einn þeirra sem felur í sér skuldbindingar um að vinna samkvæmt lögum, reglum og leiðbeiningum viðkomandi deildar Rauða krossinn. Samstarf verður milli Rauða krossins og Vinnumálastofnunar um eftirfylgd verkefnisins og mun Rauði krossinn reglulega senda stofnuninni upplýsingar um samskipti verkefnisstjóra við þátttakendur, eins og nauðsynlegt er vegna framkvæmdar laga um vinnumarkaðsaðgerðir og laga um atvinnuleysistryggingar.

Sjálfboðaliðaverkefni Vinnumálastofnunar og Rauða krossins byggist á reglugerð nr. 12/2009 sem fjallar meðal annars um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira