Hoppa yfir valmynd
24. október 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands

Í byrjun næsta árs verða lágmarksbætur lífeyrisþega 203.000 krónur og hafa þá hækkað um 61% frá árinu 2007. Þá hafa útgjöld almannatrygginga sem hlutfall af tekjum ríkissjóðs farið úr 9,5% árið 2006 í 13,1% árið 2012 miðað við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands síðastliðinn laugardag.

Velferðarráðherra kom víða við í ávarpi sínu. Hann sagði mikilvægt mál hafa verið lögfest á Alþingi nú í haust þegar samþykkt voru lög sem koma í veg fyrir gagnkvæmar skerðingar örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum og örorkulífeyris frá almannatryggingum. „Með lagabreytingunni er eytt þeirri víxlverkun sem verið hefur um árabil í samspili þessara tveggja meginstoða almannatryggingakerfisins og örorkulífeyrisþegar munu nú sjálfir njóta að fullu þeirra hækkana sem verða á greiðslum almannatrygginga eða örorkulífeyri lífeyrissjóðanna.“

„Í þrengingum okkar frá hruni hafa stjórnvöld alltaf lagt áherslu á að útfærslur aðhaldsaðgerða og niðurskurðar útgjalda hins opinbera bitni sem allra minnst á hag heimilanna og velferðarþjónustu, einkum í félags- og heilbrigðismálum, og að félagslegt öryggi allra sé tryggt. Grunnþjónustan hefur verið varin eins og kostur er og þau verkefni sem samstaða er um að ríkið sinni í þágu samfélagsins.

Það hefur líka sýnt sig að aðgerðir stjórnvalda í skattamálum og þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu hafa dregið úr álögum á þá tekjulægstu en fært skattbyrðina í auknum mæli á herðar þeim sem hærri tekjur hafa.“

Ráðherra ræddi einnig um endurskoðun almannatryggingakerfisins, stefnumótun í húsnæðismálum og fyrirhugaða upptöku húsnæðisbóta í stað vaxtabóta og húsaleigubóta. Þá talaði hann um frumvarp til breytinga á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði sem verður lagt fram á Alþingi á næstunni:

„Ég er sannfærður um að fólk muni fljótt sjá að þetta kerfi er bæði einfaldara og réttlátara en það sem við búum við núna, af því að það mismunar ekki sjúklingum eftir því hvers eðlis veikindi þeirra eru og af því að það er byggt upp til þess að draga úr kostnaði hjá þeim sem mest þurfa á lyfjum að halda vegna veikinda sinna. Sambærilegar breytingar tel ég nauðsynlegt að gera varðandi greiðsluþátttöku fólks fyrir þjónustu í heilbrigðiskerfinu öllu, einfaldlega af því að gildandi kerfi styður ekki nógu vel við bakið á þeim sem helst þurfa á því að halda.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum