Hoppa yfir valmynd
17. september 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 391/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. september 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 391/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19070003

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 3. júlí 2019 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. júní 2019, um að synja henni um endurnýjun á dvalarleyfi fyrir námsmenn.

Af greinargerð kæranda má ráða að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi hér á landi fyrir námsmenn þann 30. ágúst 2017 og var það leyfi endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 15. júlí 2019. Kærandi sótti um endurnýjun á því dvalarleyfi þann 31. maí 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. júní 2019, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 2. júlí sl., og kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 3. júlí sl. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 9. júlí sl. Samkvæmt beiðni kærunefndarinnar bárust frekari gögn frá Útlendingastofnun þann 8. og 19. ágúst 2019. Viðbótargögn og athugasemdir bárust frá kæranda þann 16. ágúst sl. Viðbótargögn bárust frá Háskóla Íslands þann 6. september sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt ákvæði 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga sé heimilt að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu ef útlendingur fullnægi áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. og geti sýnt fram á viðunandi námsárangur þar sem þess sé krafist. Heimilt væri að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um sé að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi. Vísaði stofnunin til þess að kærandi væri í námi við Háskóla Íslands sem gerði kröfu um að hún lyki 67% af fullu námi á námsárinu til þess að námsárangur teldist viðunandi. Samkvæmt námsferilsyfirliti kæranda, dags. 6. júní 2019, hafi kærandi lokið 30 ECTS-einingum af 60 fyrir námsárið 2018-2019. Samkvæmt framangreindu uppfyllti umsókn kæranda því ekki skilyrði 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga og var umsókn hennar því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hún hafi fallið í áfanga, sem væri 10 ECTS einingar, sem hafi orðið þess valdandi að hún uppfylli ekki skilyrði um námsárangur. Fyrrum kennari hennar hafi látist og nýr kennari tekið við námskeiðinu. Á milli þeirra hafi orðið misskilningur sem hafi orðið þess valdandi að hún fékk falleinkunn í áfanganum. Hafi hún boðist til þess að skila nýju lokaverkefni en kennarinn ekki samþykkt það. Hafi hún nú skráð sig í grunnnám í ensku fyrir skólaárið 2019-2020. Kærandi vísar jafnframt til þess að hún hafi stundað hér nám frá árinu 2017 og þetta sé í fyrsta skipti sem hún standist ekki kröfur um viðunandi námsárangur.

Í viðbótarathugasemdum, dags. 16. ágúst 2019, vísar kærandi til þess að hún hafi orðið fyrir [...] í júní 2018 í heimaríki. Í kjölfar þess hafi hún glímt við [...].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga er heimilt að endurnýja dvalarleyfi skv. ákvæðinu á námstíma ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur, þar sem þess er krafist. Heimilt er að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um er að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi.

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda fyrst veitt dvalarleyfi vegna náms þann 30. ágúst 2017 og var það leyfi endurnýjað nokkrum sinnum, nú síðast með gildistíma til 15. júlí 2019. Samkvæmt 2. málsl. 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga er heimilt að endurnýja dvalarleyfi skv. ákvæðinu á námstíma ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur, þar sem þess er krafist. Í bréfi Háskóla Íslands til Útlendingastofnunar, dags. 19. febrúar 2018, kemur m.a. fram að skólinn geri ekki formlega kröfur um að nemendur ljúki tilteknum einingarfjölda á hverju misseri eða hverju ári. Í ljósi þess að allar deildir háskólans geri kröfu um hámarksnámstíma í grunnnámi og nær allar í meistaranámi, sé e.t.v. eðlilegt að að miða við 67% námsframvindu sem viðunandi námsframvindu þegar sérstökum skilyrðum 3. máls. 6. mgr. ákvæðisins um 75% námsárangur við fyrstu endurnýjun, sleppir. Með bréfi kærunefndar til Háskóla Íslands, dags. 4. september 2019, óskaði nefndin eftir frekari skýringum á afstöðu skólans til skilyrða um viðunandi námsárangur. Í svarbréfi Háskóla Íslands til kærunefndar, dags. 6. september sl., er það áréttað að skólinn geri ekki formlega kröfu um að nemendur ljúki tilteknum einingarfjölda á hverju misseri eða hverju ári. Sé það ekki krafa háskólans að námsframvinda sé 67% til að teljast viðunandi námsárangur, heldur sé einungis um að ræða viðmið sem taki mið af þeim reglum sem gildi um hámarks námstíma.

Háskóli Íslands gerir því ekki almenna kröfu að námsframvinda sé 67% á hverju ári. Verður synjun á endurnýjun dvalarleyfis kæranda því ekki byggð á þeirri forsendu. Að öðru leyti er ekkert sem bendir til þess að kærandi uppfylli ekki kröfur Háskóla Íslands um námsframvindu sem leiða af reglum skólans um hámarks námstíma. Liggur því fyrir að skilyrði um viðunandi námsárangur í 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga stendur ekki í vegi fyrir endurnýjun dvalarleyfis kæranda.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var ekki tekin afstaða til þess hvort kærandi uppfylli áfram grunnskilyrði til útgáfu dvalarleyfis, sbr. 1. og 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                     Anna Tryggvadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum