Hoppa yfir valmynd
10. desember 1999 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 14/1999

Álit kærunefndar jafnréttismála
í málinu nr. 14/1999:

A
gegn
sveitarstjórn Húnaþings vestra.
------------------------------
Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 10. desember 1999 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

I

Með bréfi, dags. 16. júlí 1999, óskaði A, kennari og námsráðgjafi, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í stöðu skólastjóra við skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislaga.

Erindið var kynnt sveitarstjórn með bréfi, dags. 26. júlí 1999, og óskað eftirfarandi upplýsinga:
1. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um starfið.
2. Menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var, ásamt upplýsingum um aðra sérstaka hæfileika hans umfram kæranda, sbr. 8. gr. laga nr. 28/1991. Óskað var eftir afriti af umsókn þessa umsækjanda.
3. Hvað ráðið hafi vali á umsækjendum.
4. Fjölda og kyn skólastjóra grunnskóla í Húnaþingi vestra.
5. Fjölda og kyn starfsmanna við skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði.
6. Starfslýsingar fyrir starfið, ef til væri.
7. Afstöðu sveitarstjórnar til erindis kæranda.
8. Annað það sem telja mætti til upplýsingar fyrir málið í heild.

Eftirtalin gögn liggja frammi í málinu:
1. Erindi kæranda, dags. 16. júlí 1999, ásamt fylgigögnum.
2. Svarbréf sveitarstjóra Húnaþings vestra, dags. 5. ágúst 1999, ásamt fylgigögnum.
3. Bréf kæranda, dags. 3. september 1999, ásamt fylgigögnum.
4. Bréf sveitarstjóra Húnaþings vestra, dags. 20. október 1999.
5. Bréf sveitarstjóra Húnaþings vestra, dags. 2. nóvember 1999.
6. Bréf menntamálaráðuneytisins, dags. 7. desember 1999.

Kærandi mætti á fund kærunefndar jafnréttismála 22. október 1999. Fulltrúa kærða var boðið að mæta á fund nefndarinnar en afþakkaði.

II

Starf skólastjóra skólabúðanna að Reykjum í Hrútafirði var auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu í maí 1999. Í auglýsingu kom fram að skólabúðirnar hafi verið starfræktar frá upphafi skólaárs 1988, um 2000 nemendur komi í búðirnar árlega frá um 70 skólum og að við skólabúðirnar starfi skólastjóri og þrír til fjórir kennarar. Þá er tilgreint að Húnaþing vestra sjái um rekstur skólabúðanna í samstarfi við menntamálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Umsækjendur um starfið voru B, C og D. Fræðsluráð mælti með C og var honum boðið starfið. Með bréfi, dags. 10. júní 1999, hafnaði hann starfinu og dró umsókn sína til baka. Á fundi sveitarstjórnar þann sama dag var samþykkt að auglýsa starfið að nýju. Var það gert og umsóknarfrestur framlengdur til 21. júní 1999. Umsækjendur voru sjö, sex karlar og ein kona, kærandi máls þessa. Einn dró umsókn sína til baka. Umsækjendur voru kallaðir í viðtal. Fræðsluráð fjallaði um umsóknirnar 1. júlí 1999 og var eftirfarandi bókað:

Umsóknir um starf skólastjóra Skólabúðanna Reykjum. Formaður kynnti mat sitt á umsækjendum að afloknum starfsviðtölum, sbr. síðustu fundargerð fræðsluráðs. Telur hann valið standa á milli B og A, sem bæði séu vel hæf til starfsins. A hafi meiri menntun og því frekar mælt með henni. Í sama streng taka aðrir fulltrúar í fræðsluráði.

Meirihluti sveitarstjórnar samþykkti á fundi 5. júlí 1999 að ráða B. Í fundargerð segir:

Sveitarstjóri lagði til að þrátt fyrir að fræðsluráð mæli frekar með öðrum umsækjanda, verði B ráðinn skólastjóri Skólabúðanna til reynslu til 1 árs. Samþykkt með 5 atkv. 2 sitja hjá.

Var kæranda tilkynnt þessi niðurstaða með bréfi dags. 14. júlí 1999.
Í málinu liggja fyrir upplýsingar um menntun og starfsreynslu kæranda og B. Kærandi lauk stúdentsprófi af viðskiptabraut frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 1985 og B. Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1988. Hún nam náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands veturinn 1990 til 1991 og stundaði framhaldsnám fyrir handíðakennara við Kennaraháskólann í Gautaborg á haustönn 1991. Hún hefur sótt ýmis námskeið, m.a. fyrir tilsjónarmenn hjá Félagsmálastofnun Kópavogs og landvarðanámskeið á vegum Náttúruverndarráðs. A hefur starfað sem grunnskólakennari og náms- og starfsráðgjafi frá því hún lauk námi. Hún starfar nú sem kennari og náms- og starfsráðgjafi við Hamraskóla og Klébergsskóla í Grafavogi.

B lauk stúdentsprófi árið 1987 og B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1994. Hann hefur sótt ýmis námskeið bæði hérlendis og erlendis einkum á sviði náttúrufræði. Hann hefur starfað sem kennari við skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði frá því hann lauk námi eða síðast liðin fimm ár.

Óskað var upplýsinga frá menntamálaráðuneytinu um stöðu skólabúðanna innan skólakerfisins, hlutverk menntamálaráðuneytisins varðandi þá starfsemi sem þar fer fram og hvort og þá hvaða hæfniskröfur ákvæði laga og/eða reglna geri til skólastjóra og kennara skólabúðanna. Í svari menntamálaráðuneytisins, dags. 7. desember 1999, kemur fram að skólabúðirnar að Reykjum hafi verið starfræktar á vegum ríkisins um nokkurra ára skeið áður en sveitarfélögin tóku yfir rekstur grunnskóla með lögum. Í samningi milli ríkis og sveitarfélaga um flutning grunnskóla til sveitarfélaga hafi verið tekið fram að rekstur skólabúðanna yrði áfram tryggður með framlögum úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga en ríkið léti í té húsnæði að Reykjum til áframhaldandi reksturs skólabúða. Skólabúðirnar hafi því ekki verið á ábyrgð eða verksviði menntamálaráðuneytisins síðan lög nr. 66/1995 komu að fullu til framkvæmda 1. ágúst 1996. Fram að þeim tíma hafi ráðuneytið litið svo á að skólabúðirnar að Reykjum féllu undir almenn lög um grunnskóla og að gera yrði sambærilegar kröfur til starfsmanna þeirra og ef um almennan grunnskóla væri að ræða. Ekki liggur fyrir starfslýsing fyrir starf skólastjóra skólabúðanna.

Samkvæmt upplýsingum sveitarstjóra eru grunnskólar sveitarfélagsins tveir og er kona skólastjóri í þeim stærri en karl aðstoðarskólastjóri. Í þeim minni er karl skólastjóri en kona aðstoðarskólastjóri. Fyrir liggur ákvörðun um að sameina grunnskólana og að sá karl sem gegnir annarri skólastjórastöðunni verði skólastjóri hins sameinaða skóla. Skólastjóri tónlistarskólans, leikskólastjóri og aðstoðarleikskólastjóri eru konur.

III

Kærandi leggur áherslu á að hún hafi meiri menntun en sá sem ráðinn var. Hún hafi stundað framhaldsnám í náms- og starfsráðgjöf en eigi ólokið einni námsgrein. Það nám sé eins árs nám að loknu kennaraprófi. Hún starfi engu að síður sem náms- og starfsráðgjafi. Þá hafi hún stundað framhaldsnám í hálft ár í smíðum við Kennaraháskóla í Svíðþjóð. Hún hafi einnig sótt ýmis námskeið sem muni nýtast í þessu starfi. Vissulega hafi sá sem ráðinn var tekið námskeið sem hugsanlega hafi beinni skírskotun til verkefna skólabúðanna enda hafi hann starfað þar á undanförnum árum. Þau námskeið sem hún hafi tekið, svo sem eins og landvarðanámskeið, muni að hennar mati einnig nýtast vel til þessa starfs.

Hún telur sig einnig hafa lengri og víðtækari starfsreynslu en sá sem ráðinn var. Starfsferill hennar sé átta ár við kennslu og námsráðgjöf. Á starfssviði námsráðgjafa sé að kenna námstækni og starfsfræðslu ásamt því að sinna einstökum nemendum. Hún sjái um félagsstarfið og heilsdagsskólann í Hamraskóla og Klébergsskóla þar sem hún starfi. Hún hafi unnið tvö sumur hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar og séð þar um leikjanámskeið fyrir börn. Kærandi telur sig því hafa í starfi sínu öðlast starfsreynslu sem nýtist vel við skólabúðirnar.

Kærandi segist þekkja vel til staðhátta þar sem hún sé alin upp á sveitabæ í þessari sýslu. Hún hafi gengið í skóla á Reykjum. Á æskuheimili hennar hafi verið rekið sumardvalarheimili fyrir börn. Það hafi væntanlega kynt undir áhuga hennar á starfi í skólabúðum, en slíkur áhugi hafi lengi blundað með henni. Kvaðst hún fyrir mörgum árum hafa tekið saman hugmyndir að starfi skólabúða. Þessar hugmyndir hafi hún kynnt í viðtalinu vegna starfsins og þær fengið góðar viðtökur.

Í viðtalinu hafi bæði oddviti og sveitarstjóri lýst áhuga sínum á að ráða hana. Fræðsluráð hafi metið hana hæfasta umsækjenda og mælt með henni í starfið. Rétt áður en ákvörðun um ráðningu var tekin, hafi hún rætt við sveitarstjóra og oddvita í síma. Þau hafi þá bæði tjáð henni að þrátt fyrir að þau vildu gjarnan ráða hana, væru önnur sjónarmið komin upp sem taka þyrfti tillit til. Einn umsækjenda, B, hafi verið starfandi við skólabúðirnar sem kennari um nokkurra ára skeið. Hann hafi lýst því yfir að hann myndi segja starfi sínu lausu yrði hann ekki ráðinn skólastjóri. Hið sama ætti við um eiginkonu hans sem einnig hefði starfað sem kennari við skólabúðirnar. Brotthvarf þeirra myndi þýða að ekkert af því fagfólki sem þarna hefði starfað væri eftir. Ráða yrði nýtt fólk í allar þær stöður. Svo virðist sem sveitarstjórn hafi talið það óæskilegt og því ákveðið að ganga framhjá henni og ráða B sem skólastjóra. Hún bendir á að hann hafi sótt um í bæði skiptin þegar starfið var auglýst en í hvorugt skiptið hafi hann verið fyrsti valkostur. Kærandi telur það ekki geta skipt sköpum að fráfarandi skólastjóri skólabúðanna hafi mælt með B, þar sem ljóst sé að meðmælandinn, fráfarandi skólastjóri, þekki hann en hana ekki. Á sama hátt megi ætla að sá skólastjóri sem hún starfi hjá, myndi mæla með henni. Kærandi telur ákvörðun sveitarstjórnar óviðunandi og andstæða ákvæðum jafnréttislaga.
Kærði færir þau rök fyrir ákvörðun sinni að kærandi og B hafi áþekka menntun. B hafi auk þess á starfsferli sínum sótt námskeið og aflað sér viðbótarþekkingar, einkum á sviði náttúruvísinda, sem nýtist þessu starfi mjög vel. Við val á umsækjendum verði að hafa í huga að skólabúðirnar að Reykjum séu einu skólabúðirnar á landinu fyrir utan Norrænu skólabúðirnar á Hvalfjarðarströnd. B eigi að baki fimm ára starfsreynslu sem kennari við skólabúðirnar. Hann hafi tekið þátt í sérsniðnum námskeiðum fyrir starfsfólk og forstöðufólk skólabúðanna undanfarin ár. Hann búi því yfir staðgóðri þekkingu á rekstri þeirra og nánasta umhverfi.

Fræðsluráð hafi metið þau bæði vel hæf til að gegna starfinu. Mótmælt er þeirri fullyrðingu kæranda að fræðsluráð hafi eindregið mælt með henni. Í bókun fræðsluráðs komi fram að formaður fræðsluráðs telji valið standa á milli þeirra tveggja og síðan tilgreint að kærandi hafi meiri menntun og því frekar mælt með henni. Afstaða fræðsluráðs sé hins vegar langt því frá afdráttarlaus. Við nánari skoðun á menntun og starfsferli þessara tveggja umsækjenda hafi það verið mat sveitarstjórnar að menntun og starfsferill B hentaði starfinu betur.

Þá hafi fráfarandi skólastjóri eindregið mælt með B. Hann sé eini skólastjóri skólabúða af þessu tagi á landinu og því vegi meðmæli hans þungt. Kærði bendir á að rekstur skólabúðanna eigi ekki verulega mikið skylt við rekstur grunnskóla eins og hann er skilgreindur í grunnskólalögum. Þó leitast sé við að ráða starfsfólk sem hafi erindisbréf til grunnskólakennslu, þá sé það ekki skilyrði eins og í grunnskólum. Ekki sé skylt að sækja um undanþágu frá menntamálaráðuneyti ef ráðinn er kennari sem ekki hafi erindisbréf grunnskólakennara. B hafi lýst því munnlega yfir, eftir að auglýst var að nýju, að hann myndi segja kennarastarfi sínu lausu, yrði hann ekki ráðinn skólastjóri. Það hefði þýtt algjör starfsmannaskipti í skólabúðunum ef frá er talið ræstingafólk. Eins og komi fram í bréfi þess sem boðið var starfið þegar auglýst var fyrra sinnið, þá kalli ástand eigna á algera endurnýjun þeirra mannvirkja sem tengjast skólabúðunum. Þekking á ástandi eigna og rekstri skólabúðanna sé því mikilvæg og vegna þess sé einkum varhugavert fyrir starfsemina að algjör starfsmannaskipti verði.

IV
Niðurstaða

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna afar miklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra m.a. um ráðningu starfsmanna. Atvinnurekendur skulu vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf, sbr. 5. gr. jafnréttislaga.

Samkvæmt 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Samkvæmt 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og það hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Í máli þessu er deilt um hvort sveitarstjórn Húnaþings vestra hafi við ráðningu skólastjóra skólabúðanna að Reykjum í Hrútafirði brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga. Í auglýsingu sveitarstjórnarinnar eftir skólastjóra við skólabúðirnar er tekið fram að þar starfi þrír til fjórir kennarar og að þangað komi árlega um 2000 grunnskólanemendur frá um 70 skólum. Samkvæmt upplýsingum menntamálaráðuneytisins voru skólabúðirnar reknar af menntamálaráðuneytinu fram á mitt ár 1996 er rekstur grunnskólans var færður til sveitarfélaga með lögum nr. 66/1995. Á þeim tíma hafi verið litið svo á að skólabúðirnar féllu undir lög um grunnskóla. Í því fólst að sambærilegar kröfur voru gerðar til hæfni starfsmanna skólabúðanna og gerðar höfðu verið til starfsmanna grunnskólans almennt. Skólabúðirnar fluttust með grunnskólunum frá ríki til sveitarfélaga. Ráðuneytið kveður sérstaklega hafa verið tilgreint í samningnum milli ríkis og sveitarfélaga um þann flutning, að skólabúðunum yrði tryggt rekstrarfé úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Samkvæmt ofangreindu er ljóst að í tíð ráðuneytisins var farið með skólabúðirnar að grunnskólalögum. Ekkert hefur komið fram um að því hafi átt að breyta við flutning reksturs þeirra til sveitarfélaganna. Ekki hafa verið settar sérstakar reglur um starfsemi skólabúðanna, en af framangreindu verður að álykta að sambærilegar hæfniskröfur verði gerðar til kennara og skólastjórnenda við slíkar skólabúðir og almennt eiga við í grunnskólum. Er þetta lagt til grundvallar í áliti þessu og þykir einkum eiga við í tilviki skólastjóra, sem ásamt því að sinna rekstrarþáttum stjórnar faglegu starfi.

Samkvæmt 23. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla skal við mat á hæfni umsækjenda um stöðu skólastjóra taka mið af menntun þeirra og starfsreynslu. Bæði kærandi, A, og sá sem ráðinn var, B, hafa lokið B.Ed prófi frá Kennaraháskóla Íslands. A hefur um eins og hálfs árs framhaldsnám á háskólastigi því til viðbótar. Hún hefur sótt ýmis námskeið, svo sem landvarðanámskeið, sem hafa beina skírskotun til starfs eins og þess sem fram fer í skólabúðunum. Hún á að baki átta ára starfsferil við kennslu og náms- og starfsráðgjöf. B hefur einnig sótt ýmis námskeið sem nýtast starfi skólabúðanna, einkum á sviði nátturuvísinda. Hann hefur frá því hann lauk námi fyrir fimm árum, kennt við skólabúðirnar að Reykjum. Kærandi hefur samkvæmt þessu bæði meiri menntun og lengri starfsreynslu og telst því hæfari samkvæmt almennum hæfnisviðmiðum.

Kemur þá til athugunar hvort einhverjir sérstakir hæfileikar þess sem starfið fékk, eða sérstakar aðstæður, vegi hér upp á móti meiri menntun og lengri starfsreynslu kæranda. Kærði byggir á því að B hafi í starfi sínu sem kennari við skólabúðirnar öðlast sérstaka þekkingu á þeirri starfsemi sem þar fer fram. Skólabúðirnar að Reykjum séu einu skólabúðirnar af þessu tagi á landinu og því hafi þessi starfsreynsla hans vegið þungt við mat á umsækjendum. Kærandi hefur á móti bent á að hún þekki vel til staðhátta. Hún hafi alist upp í sýslunni og gengið í skóla að Reykjum í Hrútafirði. Hún hafi á starfsferli sínum aflað sér þekkingar og reynslu sem bæði fræðsluráð, oddviti og sveitarstjóri töldu mikilvæga fyrir starfið.

Hvorugt hafði starfað sem skólastjóri. B hafði unnið í viðkomandi skólabúðum í nokkur ár, en kærandi þekkti einnig vel til staðhátta; frá sjónarhorni nemandans og ungrar manneskju í sveitinni. Vega þessir þættir hvor upp á móti öðrum, þannig að reynsla B í starfi á staðnum verður ekki talin, í þessu samhengi, til sérstakra hæfileika sem atvinnurekandi geti í skilningi jafnréttislaga byggt á við val á starfsmanni. Meðmæli fráfarandi skólastjóra skólabúðanna breyta ekki þessu áliti nefndarinnar.

Kærði hefur ennfremur rökstutt ákvörðun sína með því að B hafi lýst því yfir að hann og kona hans myndu láta af störfum, yrði hann ekki ráðinn skólastjóri og til þess að fyrir liggi að mikilla endurbóta sé þörf á þeim fasteignum sem nýttar eru til starfseminnar. Verður að lokum fjallað um þessi atriði.

Fyrir liggur að starf það sem hér um ræðir var auglýst tvisvar. Í fyrra skiptið dró sá sem boðið var starfið umsókn sína til baka. Af upplýsingum þeim sem kærði hefur lagt fram í málinu, er ljóst að B var ekki talinn hæfastur þeirra sem þá sóttu um starfið og að honum var ekki boðin staðan þegar sá afþakkaði, sem valinn hafði verið. Taldi kærði heppilegra að auglýsa starfið að nýju. Með ráðningu kæranda, og að því gefnu að B hefði látið af störfum, hefðu allar kennarastöður við skólabúðirnar verið ómannaðar. Í skólabúðunum fer fram starf til stuðnings almennri kennslu í grunnskólum. Slíkt starf tekur eðlilega einhverjum breytingum bæði með tilkomu nýs fólks og nýjum áherslum stjórnenda sem getur haft í för með sér bæði kosti og galla. Þá er nemendahópurinn í stöðugri endurnýjun. Verður ekki séð að mannaskipti hefðu við slíkar aðstæður þurft að hafa óæskilegar afleiðingar í för með sér og teljast vart vera málefnalegar ástæður fyrir því að hafna hæfum stjórnanda.

Ekkert það er komið fram í málinu sem gefur tilefni til að ætla að kærandi hefði ekki verið fær um það, sem stjórnandi skólabúðanna, að takast á við nauðsynlegar endurbætur á því húsnæði sem nýtt er til starfseminnar. Má í því sambandi nefna að kærandi er lærður smíðakennari og hefur auk þess framhaldsnám í smíði. Þeim umsækjanda sem ekki þáði starfið leist ekki á verkefnið, en ekkert hefur komið fram um að þá hafi verið gerð krafa um sérstaka þekkingu á staðháttum eins og nú er borið við. Þykir þessi ástæða ekki réttlæta að gengið var fram hjá kæranda. Þá liggur fyrir að meirihluti sveitarstjórnar samþykkti að ráða B til reynslu í eitt ár, ekki hefur annað komið fram í auglýsingum eða öðrum gögnum en að stefnt hafi verið að því að ráða skólastjóra til frambúðar.

Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar og ákvæðum jafnréttislaga, gildir sú meginregla varðandi val á umsækjendum um starf, að ráða skuli þann umsækjanda sem hæfastur telst samkvæmt málaefnalegum sjónarmiðum. Þær sérstöku ástæður ráðningaraðilans sem hér að framan hefur verið fjallað um þykja ekki uppfylla kröfur sem almennt eru gerðar til málefnalegra forsendna fyrir ákvörðun um ráðningu og geta ekki réttlætt að gengið sé fram hjá þeim umsækjanda sem telja verður hæfari samkvæmt almennum viðmiðum.

Með vísan til framangreinds, og þegar mið er tekið af meiri menntun, lengri starfsreynslu kæranda og öðru því sem að framan hefur verið rakið, verður að telja að sveitarstjórn Húnaþings vestra hafi með ákvörðun sinni um að ganga fram hjá kæranda og ráða B í starfið, brotið gegn ákvæðum 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga, sbr. 1. gr. 3. gr. og 5. gr. sömu laga.

Þeim tilmælum er beint til sveitarstjórnar að viðunandi lausn verði fundin á málinu sem kærandi getur sætt sig við.

 

Sigurður Tómas Magnússon

Gunnar Jónsson

Hjördís Hákonardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira