Hoppa yfir valmynd
22. júní 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 199/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 199/2022

Miðvikudaginn 22. júní 2022

A og B

v/C    gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 10. apríl 2022, kærðu A, og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. mars 2022 þar sem synjað var um breytingu á gildandi umönnunarmati vegna dóttur kærenda, C. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um umönnunarmat, dags. 17. nóvember 2021, var umönnun dóttur kærenda felld undir 5. flokk, 0% greiðslur, fyrir tímabilið 1. febrúar 2021 til 31. maí 2023. Óskað var eftir endurmati með rafrænni umsókn 12. febrúar 2022. Tryggingastofnun ríkisins synjaði beiðni um breytingu á gildandi umönnunarmati með bréfi, dags. 10. mars 2022. Kærendur fóru fram á rökstuðning fyrir ákvörðuninni og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. mars 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. apríl 2022. Með bréfi, dags. 12. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags 24. apríl 2022, barst viðbótargagn frá kærendum og var það sent Tryggingastofnun ríkisins 27. apríl 2022. Með bréfi, dags. 4. maí 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kærendum með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. maí 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kærenda

Í kæru kemur fram að síðastliðið haust hafi verið sótt um umönnunargreiðslur vegna umfangsmikils næringarvanda og fjölofnæmis dóttur kærenda (mjólk, egg, fiskur, hnetur, baunir og þar á meðal soja). Frá upphafi hafi gengið afar illa að næra stúlkuna og sé mjög sterkur grunur um að hún sé með vélindabólgu af völdum próteina í fæðu (e. eosinophilic esophagitis). Sú greining hafi hins vegar ekki fengist staðfest þar sem dóttir þeirra hafi beðið í að verða heilt ár eftir vélindaspeglun á Landspítala, þrátt fyrir að vera á forgangslista. Spegluninni hafi ítrekað verið frestað vegna Covid-19. Börn með þennan sjúkdóm nærist gjarnan illa, eigi erfitt með að kyngja vegna bólgu og þrengsla í vélinda og það standi auðveldlega í þeim. Allt þetta hafi kærendur glímt við með dóttur sína, hún hafi verið á lystaukandi lyfi í að verða ár og þurfi afskaplega mikið aðhald og langa matartíma til að nærast. Leikskólinn hafi átt í fullu fangi með að sinna hennar þörfum og foreldrarnir þurfi á hverjum degi að senda nesti með henni með tilheyrandi kostnaði og vinnu. Dóttir kærenda hafi ekki fengist til að drekka ofnæmisnæringardrykki og hafi því verið mælt með að móðir héldi áfram að vera með hana á brjósti til að reyna að fullnægja hennar næringarþörf. Til að kaupa inn matvörur handa dótturinni þurfi að fara í minnst fjórar búðir vikulega og þær vörur sem hún þoli séu velflestar langtum dýrari en hefðbundnar vörur. Kærendur þurfi stundum að birgja sig upp af ákveðnum vörum þar sem vikur eða mánuðir geta liðið, án þess að sending komi til landsins af vörum sem hún borði. Auk þess þurfi kærendur að elda allan mat frá grunni. Dóttir kærenda sé langt á eftir jafnöldrum þegar komi að því að matast og taki hver og ein máltíð 60 til 80 mínútur og sé hún þess vegna látin borða í sérherbergi í matartímum til að draga úr áreiti í leikskólanum. Enn þurfi að mauka hluta af fæðunni fyrir hana, þrátt fyrir að hún sé að verða X ára. Álagið hafi verið gríðarlegt á heimilinu og í vetur hafi verið óhjákvæmilegt að móðirin hafi minnkað vinnu úr 100% niður í 60% til að sinna þörfum dóttur sinnar.

Þegar fyrst hafi verið sótt um umönnunargreiðslur hafi D, meðhöndlandi barnameltingarlæknir, að eigin frumkvæði skrifað vottorð til Tryggingastofnunar. Niðurstaðan hafi verið 5. flokkur sem gagnist kærendum á engan hátt. Meðhöndlandi sérfræðilæknar, starfsfólk leikskólans og kærendur séu sammála um að Tryggingastofnun virðist ekki gera sér grein fyrir umfangi vandans. Ofnæmi sé ekki sama og ofnæmi og þegar barn sé með þetta umfangsmikið fæðuofnæmi þá verði daglegt líf verulega flókið og ástandið bitni á allri fjölskyldunni. Þar að auki telji meðhöndlandi sérfræðilæknar yfirgnæfandi líkur á að barnið sé með lífstíðarsjúkdóm í vélinda og þurfi að forðast einhverjar þessara fæðutegunda ævilangt, auk þess að þurfa mögulega sérhæfða meðferð sem enn hafi ekki hafist vegna tafa á speglun. Það sé því mikilvægt að kærendur fái stuðning til að sinna barninu eins vel og þau mögulega geti en það krefjist verulegrar vinnu, tíma, skipulags og mikillar aukningar á útgjöldum.

Kærendur hafi óskað eftir endurupptöku málsins hjá Tryggingastofnun en þá hafi E meðhöndlandi barnaofnæmislæknir, sent vottorð til Tryggingastofnunar. Auk þess hafi F, sérkennslustjórinn á leikskólanum, sent greinargerð til stofnunarinnar að eigin frumkvæði. Starfsfólk leikskólans hafi áhyggjur af miklum umönnunarþunga dóttur kærenda og sjái einnig þær neikvæðu afleiðingar sem álagið heima hafi á eldra systkini. Leikskólinn telji afar brýnt að fjölskyldan fái utanaðkomandi stuðning. Fyrrnefndir aðilar séu sammála um að rétt væri að dóttir kærenda færi í 4. flokk og fengi umönnunargreiðslur eftir því. Lögð sé áherslu á að það sé ekki verið að óska eftir stuðningi vegna tekjutaps móður heldur telji kærendur að skerðing á starfshlutfalli móður varpi ljósi á alvarleika málsins. Aukin útgjöld felist meðal annars í því að maturinn sem dóttir þeirra þoli sé mun dýrari en hefðbundinn matur en matarútgjöld heimilisins hafi hækkað um 54%. Kærendur hafi þar að auki þurft að kaupa auka ísskáp fyrir mat dóttur þeirra og matvinnsluvél til að mauka ofan í hana. Hver einasta máltíð krefjist mikils skipulags en það sé afar flókið mál að uppfylla næringarþörf barns með eins umfangsmikið ofnæmi og raun beri vitni.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um umönnunarmat.

Í kærðu umönnunarmati, dags. 10. mars 2022, hafi kærendum verið synjað um breytingu á gildandi mati. Í gildi sé umönnunarmat, dags. 17. nóvember 2021, þar sem samþykkt hafi verið umönnunarmat samkvæmt 5. flokki, 0% greiðslur, fyrir tímabilið 1. febrúar 2021 til 31. maí 2023. Farið sé fram á að metið verði til hærri flokks og greiðslna.

Kveðið sé á um heimild til fjárhagslegrar aðstoðar við framfærendur fatlaðra og langveikra barna í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Nánar sé fjallað um heimildir og skilyrði greiðslna í reglugerð nr. 504/1997, með síðari tíma breytingum.

Í lagaákvæðinu og í 1. gr. reglugerðarinnar sé það gert að skilyrði fyrir fjárhagslegri aðstoð frá Tryggingastofnun að barn sé haldið sjúkdómi eða andlegri eða líkamlegri hömlun og að sjúkdómur eða andleg eða líkamleg hömlun hafi í för með sér sannanleg, tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Í 5. gr. reglugerðarinnar sé skilgreining á fötlunar- og sjúkdómsstigum. Þar sé tilgreint að fara skuli fram flokkun á erfiðleikum barna út frá umönnun, gæslu og útgjöldum, annars vegar vegna barna með fötlun og þroska- og atferlisraskanir, tafla I, og hins vegar vegna barna með langvinn veikindi, tafla II.

Í greininni komi fram að aðstoð vegna barna sem þurfi reglulegar lyfjagjafir um munn, nef og húð og eftirlit sérfræðinga, til dæmis börn með astma, excem eða ofnæmi, miðist við 5. flokk í töflu II. Ekki sé um að ræða greiðslur til foreldra barna sem metin séu til 5. flokks, jafnvel þótt útgjöld framfærenda kunni að vera tilfinnanleg, en þau njóta umönnunarkorts sem lækki lyfja- og lækniskostnað.

Til 4. flokks í töflu II séu þau börn aftur á móti metin sem þurfi fyrst og fremst meðferð í heimahúsi og aðstoð vegna hjálpartækja, til dæmis börn með bæklunarsjúkdóma sem komi til aðgerða á nokkrum árum, börn með stomapoka, þvagleggi, eða sem þurfi reglulegar lyfjagjafir í sprautuformi. Til 4. flokks í töflu I séu þau börn sem séu með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna megi við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjist þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra. Greiðslur vegna 4. flokks séu að hámarki 25% af lífeyri og tengdum bótum.

Gerð hafi verið tvö umönnunarmöt vegna dóttur kærenda, annars vegar þann 17. nóvember 2021 sem hafi verið mat samkvæmt 5. flokki, 0% greiðslur, fyrir tímabilið 1. febrúar 2021 til 31. maí 2023 og hins vegar þann 10. mars 2022 þar sem synjað hafi verið um breytingu á gildandi mati. Það mat hafi nú verið kært.

Yfirfarin hafi verið þau gögn sem hafi legið til grundvallar synjun á endurmati. Í læknisvottorði E, dags. 27. janúar 2022, komi fram sjúkdómsgreiningin: Aðrar meinsvaranir við fæðu, ekki flokkaðar annars staðar T78.1. Sterkur grunur sé um að barnið sé með eosinophilic esophagitis en hafi enn ekki farið í vélinda- og magaspeglun sem hafi ítrekað frestast vegna Covid-19 ástandsins á Landspítalanum. Fram komi að erfiðlega hafi gengið að fæða barnið í leikskólanum og því hafi foreldrar gripið til þess ráðs að elda allan mat heima og senda barnið með nesti í leikskólann. Barnið hafi þyngst mun betur eftir þetta. Mikil aukavinna og kostnaður sé í tengslum við viðamikið sérfæði og hafi móðir nú minnkað við sig vinnuhlutfall í 60% starf vegna þessa. Í eldra vottorði, dags. 26. september 2021, sem hafi verið lagt til grundvallar umönnunarmati, dags. 17. nóvember 2021, komi einnig fram sjúkdómsgreiningin ofnæmi, ótilgreint T78.4.

Í umsókn foreldris, dags. 12. febrúar 2022, komi fram að móðir hafi minnkað við sig starfshlutfall vegna umönnunar barnsins og hafi því orðið fyrir miklu tekjutapi. Mikill tími fari í að útbúa sérfæði og að fá barnið til að borða. Elda þurfi allan mat frá grunni og sérfæðið sé mjög kostnaðarsamt. Foreldrar leggi jafnframt fram kvittun fyrir ísskáp sem keyptur hafi verið í ELKO þann 29. desember 2021.

Í greinargerð frá F, sérkennslustjóra á Leikskólanum G, komi fram að barnið sé á sérfæði, sé lengi að borða og hafi fengið úthlutaðan stuðning í leikskólanum sem sé útfærður á þann hátt að hún borði hádegismat í sérrými utan deildar með einum starfsmanni. Passa þurfi sérstaklega að hún komist ekki í tæri við ofnæmisvalda í umhverfi sínu á leikskólanum. Foreldrar hafi lagt mikla vinnu í kringum fæðuofnæmi barnsins og til að koma til móts við þarfir þess og séu í daglegu samstarfi við leikskólann. Með þessu þétta samstarfi sjáist meiri framfarir og árangur hjá barninu.

Í gildi hafi verið umönnunarmat, dags. 17. nóvember 2021, samkvæmt 5. flokki, 0% greiðslur, fyrir tímabilið 1. febrúar 2021 til 31. maí 2023. Í samræmi við áðurnefnda lagagrein og reglugerð hafi þótt viðeigandi að fella umönnun, gæslu og útgjöld vegna barnsins undir mat samkvæmt 5. flokki, 0% greiðslur, enda falli þar undir börn sem þurfi reglulegar lyfjagjafir um munn nef og húð, auk eftirlits sérfræðinga, til dæmis börn með astma, excem eða ofnæmi. Veitt hafi verið umönnunarkort sem gefi afslátt hjá sérfræðingum og vegna rannsókna. Álitið hafi verið að vandi barnsins yrði áfram nokkur og þörf fyrir samstarf við sérfræðinga. Þannig hafi þótt rétt að tryggja barninu umönnunarkort fyrir næstu ár.

Niðurstaða endurmats, dags. 10. mars 2022, hafi verið sú að synja um breytingu á gildandi mati þar sem framlögð gögn hafi ekki gefið tilefni til breytinga á gildandi mati. Foreldrarnir hafi þann 10. mars 2022 óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni sem hafi verið veittur með bréfi, dags. 21. mars 2022.

Bent sé á að umönnunargreiðslum sé ekki ætlað að koma til móts við tekjutap foreldra heldur sé þeim ætlað að styðja við foreldra vegna aukinnar umönnunar og kostnaðar vegna þjálfunar og meðferðar sem hljótist af vanda barnsins. Ekki hafi verið talið hægt að meta vanda barnsins svo alvarlegan að hann uppfyllti skilyrði fyrir mati samkvæmt 4. flokki.

Með kæru hafi fylgt yfirlit yfir lyfjakostnað og kostnað sem foreldrar hafi lagt út í vegna sérfæðis barns. Ekki sé um að ræða greiðslur til foreldra barna sem metin séu til 5. flokks, jafnvel þótt útgjöld framfærenda kunni að vera tilfinnanleg, en þau njóti umönnunarkorts sem lækki lyfja- og lækniskostnað. Framlögð gögn með kæru breyta ekki mati stofnunarinnar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. mars 2022 á beiðni kærenda um breytingu á gildandi umönnunarmati, dags. 17. nóvember 2021 vegna dóttur þeirra. Í gildandi mati var umönnun stúlkunnar felld undir 5. flokk, 0% greiðslur, frá 1. febrúar 2021 til 31. maí 2023.

Ákvæði um umönnunargreiðslur er að finna í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Segir í 1. mgr. þeirrar lagagreinar að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Þá sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna megi við fötlun, og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna megi við geðræna sjúkdóma.

Í 4. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Gildandi reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna er nr. 504/1997, ásamt síðari breytingum.

Í 5. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um fimm mismunandi flokka vegna langveikra barna og fimm flokka vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir. Falla alvarlegustu tilvikin í 1. flokk en þau vægustu í 5. flokk. Vegna þeirra barna sem falla í 5. flokk eru gefin út skírteini til lækkunar lyfja- og lækniskostnaðar en ekki eru greiddar sérstakar mánaðarlegar greiðslur, en það er gert vegna annarra flokka og fara þær greiðslur stighækkandi.

Í reglugerðinni er um að ræða tvenns konar flokkanir, annars vegar vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir, tafla I, og hins vegar vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna langveikra barna, tafla II.

Um seinni tegund flokkunar, þ.e. vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna langveikra barna, segir um 4. og 5. flokk:

„Fl. 4. Börn, sem þurfa fyrst og fremst meðferð í heimahúsi og aðstoð vegna hjálpartækja, t.d. börn með bæklunarsjúkdóma, sem koma til aðgerða á nokkrum árum, börn með stomapoka, þvagleggi, eða sem þurfa reglulegar lyfjagjafir í sprautuformi.

Fl. 5. Börn, sem þurfa reglulegar lyfjagjafir um munn, nef og húð og eftirlit sérfræðinga, t.d. börn með astma, excem eða ofnæmi.”

Í umsókn um umönnumarmat frá 12. febrúar 2022 er í lýsingu á sérstakri umönnun og gæslu vísað í vottorð E og greinargerðar frá sérkennslustjóra. Greint er frá aðdraganda þess að móðir hafi minnkað við sig vinnu og ástæðu þess að gera þurfi allan mat fyrir dóttur kærenda frá grunni og að hún sé ekki fullan dag í leikskólanum. Dóttir kærenda sé með mjög dræman mataráhuga og erfitt sé að næra hana og leikskólinn nái ekki að sinna því almennilega að fá hana til að borða. 

Í greinargerð um tilfinnanleg útgjöld vegna heilsuvanda og meðferðar segir í umsókn og kæru að vegna umfangsmikils næringarvanda og fjölofnæmis dóttur kærenda þurfi kærendur að kaupa sérstakan mat handa henni sem sé umtalsvert kostnaðarsamari en annar matur. Auk þess þurfi að elda allan mat frá grunni fyrir hana og þau þurfi að láta mat fylgja með henni í leikskólann. Einnig er vísað til þess að þau hafi þurft að kaupa ákveðin eldhústæki vegna þessa.

Í læknisvottorði D, dags. 26. september 2021, kemur fram að sjúkdómsgreiningar stúlkunnar séu:

„Other adverse food reactions, not elsewhere classified

Allergy, unspecified“

Í almennri heilsufars- og sjúkrasögu stúlkunnar segir:

„[…] stúlka með mikla erfiðleika við fæðuinntöku og er greind með fjölfæðuofnæmi þ.m.t. bráðaofnæmi gegn fiski og baunum. Hefur ekki getað verið í daggæslu vegna takmarkaðs mataræðis og erfiðleika við inntöku og hefur móður þurft að minnka við sig vinnu. Umstang kringum matarundirbúning er mikið og krefst ferða á marga mismunandi staði til þess að nálgast þá takmörkuðu sérfæðu sem stúlkan getur fengið.“

Um umönnunarþörf segir í vottorðinu:

„S'erfæði. Undirbúningur máltíða er flókinn og barnið ehfur takmarkað fæðuval. Barnið var sent heim úr daggæslu vegna erfiðleika við inntöku. Hún er háð brjóstagjöf um næringu.“

Um núverandi meðferð segir:

„SérfæðiLyf til þess að auka matarlystAsthmalyf“

Um sértæka daglega þjónustu vegna fatlaðs barns segir:

„NæringarráðgjafiTalmeinafræðingurOfnæmislæknirMeltingarlæknir“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð E, dags. 27. janúar 2022, og í vottorðinu er greint frá sjúkdómsgreiningunni „Other adverse food reactions, not elsewhere classified“. Um sjúkrasögu segir í vottorðinu:

„Sjá fyrra vottorð fyrir þessa stúlku með fjölofnæmi fyrir fæðu og mikinn næringarvanda. Það var að ganga afar erfiðlega varðandi mat í leikskólanum og kom stúlkan heim slöpp og dösuð. Hafði oft borðað lítið sem ekkert í leikskólanum og starfsfólk þar hafði miklar áhyggjur og virtist leikskólastarfsfólk komið alveg í þrot varðandi mat fyrir stúlkuna. […] Því var gripið til þess ráðs að foreldrar fóru að elda allan mat heima og stúlkan fær nesti með að heiman. Móðir minnkaði vinnuhlutfall sitt í 60% til að ná að sinna þessum hlutum. Nú er verið að forðast mjólk, egg, soja, hvítan fisk, jarðhnetur, herslihnetur, kasjúhnetur og í rauninni allar hnetur nema pekanhnetur. Einnig grænar baunir og kjúklingabaunir. Varðandi bleika fiskinn þá má hún fá hann en er ófáanleg til að borða hann. Hún hefur þyngst mun betur eftir að foreldrar fóru að búa til allan mat heima og láta hana fara með nesti í leikskólann. Þetta er mikil vinna fyrir þau og eining auka kostnaður. Hún er á Periactin og hverfur sú litla matarlyst sem hún hefur alveg ef það þarf að stoppa það í nokkra daga eins og t.d. í tengslum við ofnæmispróf og fl. Það er sterlkur grunur um að hún sé með eosinophilic esophagitis en hún hefur enn ekki farið í vélinda og magaspeglun sem hefur ítrekað frestast vegna Covid-19 ástandsins á LSH.“

Meðal gagna málsins liggur einnig fyrir ódagsett greinargerð F, sérkennslustjóra á leikskólanum G.

Kærendur óska eftir umönnunargreiðslum með stúlkunni. Gerð hafa verið tvö umönnunarmöt vegna stúlkunnar. Fyrra matið, dags. 17. nóvember 2021, var mat samkvæmt 5. flokki, 0% greiðslur, fyrir tímabilið 1. febrúar 2021 til 31. maí 2023 og í síðara matinu, dags. 10. mars 2022, var kærendum synjað um breytingu á gildandi mati.

Í umönnunarmati, dags. 17. nóvember 2021, segir að um sé að ræða barn sem þurfi umtalsverðan stuðning, lyfjameðferð og eftirlit sérfræðinga. Gildistími matsins var ákvarðaður frá 1. febrúar 2021 til 31. maí 2023. Í kærðu mati frá 10. mars 2022 segir að framlögð gögn gefi ekki tilefni til breytinga á gildandi umönnunarmati frá 17. nóvember 2021.

Eins og fyrr greinir falla undir 4. flokk í töflu II þau börn sem þurfa fyrst og fremst meðferð í heimahúsi og aðstoð vegna hjálpartækja, til dæmis börn með bæklunarsjúkdóma sem koma til aðgerða á nokkrum árum, börn með stomapoka, þvagleggi, eða sem þurfa reglulegar lyfjagjafir í sprautuformi. Þá falla undir 5. flokk börn, sem þurfa reglulegar lyfjagjafir um munn, nef og húð og eftirlit sérfræðinga, til dæmis börn með astma, excem eða ofnæmi. Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að almennt falli börn með ofnæmi, þar á meðal fæðuofnæmi, undir mat samkvæmt 5. flokki í töflu II. Aftur á móti liggur fyrir að dóttir kærenda er með umfangsmikið fjölofnæmi og miklir erfiðleikar hafa verið með inntöku á fæðu. Hún er auk þess ung að árum og erfiðleikar hafa verið við fæðisinntöku vegna þess, sem tekur mjög langan tíma. Sterkur grunur er um að hún sé með vélindabólgu af völdum próteina í fæðu. Úrskurðarnefndin telur því að jafna megi ástandi dóttur kærenda nú við þau tilvik sem tilgreind eru í 4. flokki í töflu II. Með hliðsjón af framangreindu og heildstæðu mati á vandamálum dóttur kærenda telur úrskurðarnefndin rétt að meta umönnun dóttur kærenda til 4. flokks, 25% greiðslur, tímabundið.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að fella úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. mars 2022, um að synja kærendum um breytingu á gildandi umönnunarmati. Umönnun dóttur kærenda er metin til 4. flokks, 25% greiðslur, vegna tímabilsins 1. mars 2022 til 31. maí 2023.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins í máli A, og B, um breytingu á umönnunarmati C, er felld úr gildi. Umönnun stúlkunnar er metin til 4. flokks, 25% greiðslur, vegna tímabilsins 1. mars 2022 til 31. maí 2023.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum