Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2025 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Pure North og BM Vallá hljóta Kuðunginn og nemendur Dalskóla eru Varðliðar umhverfisins

BM Vallá hlaut umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn í flokki stærri fyrirtækja. - mynd

Fyrirtækin Pure North og BM Vallá hlutu í dag Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári.  Segir í úrskurði dómnefndar að Pure North hafi með einstökum hætti markað sér sess sem leiðandi umhverfistæknifyrirtæki á Íslandi og að framtak BM Vallá veiti möguleika á stórfelldum samdrætti í losun byggingariðnaðar á Íslandi. Við sama tækifæri voru nemendur í Dalskóla útnefndir Varðliðar umhverfisins.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Á þrítugasta afhendingarári Kuðungsins er ánægjulegt að geta sagt að mikil breyting hefur orðið í umhverfismálum. Vitundarvakning hefur átt sér stað, metnaður fyrirtækja og stofnana til að gera vel hefur aukist og neytendur gera ríkari kröfur en nokkru sinni fyrr. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur ætlar Íslandi að vera í fremstu röð í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun. Mikilvægur liður í því verkefni er innleiðing hringrásarhagkerfisins. Þau fyrirtæki sem hljóta Kuðunginn að þessu sinni, tengjast þessum stóru áskorununum sem við stöndum frammi fyrir með beinum hætti og það er ánægjulegt að verða vitni að þeirri áherslu sem þau leggja á sjálfbærni, nýsköpun og ábyrgð í úrgangs- og losunarmálum. Þessi fyrirtæki sýna okkur að það er ekki bara siðferðilega rétt að reka ábyrga og metnaðarfulla umhverfisstefnu heldur er það líka skynsamleg viðskiptaákvörðun. Um leið er gleðilegt að sjá gróskuna sem á sér stað í umhverfisstarfi skóla og hvernig unga kynslóðin getur verið aflvaki breytinga og aukið vitund okkar allra um umhverfismálin.“

Pure North hlaut Kuðunginn í flokki smærri fyrirtækja.

Pure North og BM Vallá hljóta Kuðunginn

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu á Pure North sem handhafa Kuðungsins 2024 segir að fyrirtækið hafi með einstökum hætti markað sér sess sem leiðandi umhverfistæknifyrirtæki á Íslandi. Allt frá stofnun hafi fyrirtækið lagt áherslu á sjálfbærni, nýsköpun og ábyrgð í úrgangsmálum.

Pure North hafi með nýtingu jarðhita við plastendurvinnslu náð að draga úr kolefnisspori vinnslunnar um 82% miðað við sambærilega framleiðslu í Evrópu, sem gerir endurunnið plast þeirra með því umhverfisvænasta sem finnst á markaði. Þá hafi Pure North náð að loka endurvinnsluhringrásinni með því að hefja framleiðslu á vörum úr plastinu sem fyrirtækið fái inn til endurvinnslu.

Metnaðarfulla vinna Pure North við þróun úrgangslausna sé ekki síður lofsverð, líkt og hugbúnaðurinn „Úlli úrgangsþjarkur”, sem nýtir gervigreind til greina úrgangsgögn fyrirtækja og sveitarfélaga, og móttöku- og flokkunarstöðin „Auðlind” séu til vitnis um. Segir í úrskurði dómnefndar að með samþættingu Auðlindar við hugbúnaðinn Úlla hafi „Pure North skapað fyrirmyndar umgjörð fyrir skilvirka úrgangsstjórnun og hringrásarhugsun á Íslandi.“

Í rökstuðningi sínum fyrir valinu á BM Vallá bendir dómnefndin á að fyrirtækið hafi tekið stór skref í átt að sjálfbærari og vistvænni mannvirkjagerð. Vistvæna steypan sem BM Vallá þróaði undir vörumerkinu „Berglind”, geti dregið úr kolefnisspori um allt að 45%. Aðgerðir fyrirtækisins að skipta hefðbundnu sementi út fyrir vistvænna sement hafi leitt til samdráttar í kolefnislosun um 4.000 tonn af CO₂, sem samsvari árlegum útblæstri 3.450 fólksbíla.

Þá stuðli BM Vallá að hringrásarhugsun með nýtingu afgangsefna í framleiðslu og með þróun á hringrásarhúsum, sem munu geta dregið úr byggingaúrgangi um allt að 90%. BM Vallá leggi ennfremur kapp á að kynna vistvænni lausnir fyrir viðskiptavinum og að stuðla að bættri umhverfisvitund innan byggingariðnaðarins og hjá eigin starfsfólki. Byggingariðnaðurinn sé sá iðnaður sem losar hvað mest kolefni á heimsvísu og því veiti framtak BM Vallá möguleika á stórfelldum samdrætti í losun byggingariðnaðar á Íslandi.

Verðlaunagripurinn Kuðungurinn er hannaður af þeim Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Hrefnu Sigurðardóttur hjá Fléttu hönnunarstofu, en þær hafa sérhæft sig í að hanna úr endurnýttum efnivið. Við hönnun og framleiðslu Kuðungsins settu þær sér fastar skorður og nýttu til þess eingöngu endurnýttan efnivið eða afgangsefni frá annarri framleiðslu. Grunnur verðlaunagripsins er gerður úr lituðu timbri frá Sorpu sem annars færi til urðunar, og á toppnum trónir steinn sem minnir á hrafntinnu en er í raun aukaafurð frá framleiðslu steinullar hér á landi. Hráefnin koma svo saman í spíral og vísar formið þannig til kuðungsins sem verðlaunin eru kennd við.

Pure North og BM Vallá öðlast rétt til að nýta merki verðlaunanna í kynningu á starfsemi sinni.

Í dómnefnd sátu Helga Hvanndal Björnsdóttir, formaður, Reynir Smári Atlason, f.h. Samtaka atvinnulífsins, Sigmundur Halldórsson f.h. Alþýðusambands Íslands og Þuríður Helga Kristjánsdóttir, f.h. félagasamtaka á sviði umhverfisverndar.

Varðliðar umhverfisins eru 9. og 10. bekkur Dalskóla.

Nemendur Dalskóla Varðliðar umhverfisins 2025

Nemendur í 9. og 10. bekk Dalskóla köfuðu ofan í umhverfismálin á þemadögum skólans og unnu verkefni út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í gegnum sköpun, fræðslu og gervigreind sem skilaði fjölbreytilegum verkefnum með áhugaverðri nálgun á umhverfismálin. Meðal verkefna má nefna borðspil um matarsóun, marglyttulampa úr plastúrgangi þar sem kastljósinu er beint að mikilvægi hafhreinsunar, hönnunarverkefni um slæm áhrif skynditísku og mikilvægi endurnýtingar textíls, sem og myndbönd um matarsóun, sem vöktu sérstaka athygli dómnefndar. Þar tóku nemendur 10. bekkjar að sér útskýra með myndrænum hætti áhrif matarsóunar á einföldu máli fyrir yngri bekki skólans.  

Það er einróma mat valnefndar að nemendur og starfsfólk unglingadeildar Dalskóla hafi í sameiningu orðið þess verðug að hljóta viðurkenningu Varðliða umhverfisins 2025. Viðurkenninguna hljóta nemendur með fjölbreyttum verkefnum sínum og efnistökum þar sem vitundarvakning og umhverfisskilaboðum er miðlað með auðugum hætti og fjölþættri nálgun.

Rökstuðningur dómnefndar Kuðungsins

Rökstuðningur valnefndar Varðliðanna

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta