Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Átta íslenskir listamenn og verkefni tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs

50 verk og verkefni frá átta löndum eru tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir árið 2022. Tilkynnt verður um verðlaunahafa á verðlaunahátíð í Helsingfors í  1. nóvember í tengslum við þing Norðurlandaráðs 2022, en hægt er að fylgjast með hátíðinni í beinni útsendingu á RÚV.

„Fulltrúar Íslands til verðlauna eru fjölbreyttur hópur hæfileikafólks og verkefna. Við getum verið afar stolt af okkar fólki“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra sem verður viðstödd afhendingu verðlaunanna.

Hér eru tilnefningarnar Íslands til verðlauna Norðurlandaráðs á sviði umhverfismála, tónlistar, kvikmynda, bókmennta og barna- og unglingabókmennta.

Barna- og unglingabókaverðlaunin 2022:

Tvær bækur eru tilnefndar:

Annars vegar bókin Bál Tímans- Örlagasaga Mörðuvallarbókar í sjö hundruð ár eftir rithöfundinn Arndísi Þórarinsdóttur og Sigmund B. Þorgeirsson myndskreytti.

„Hvernig skrifar maður um eldgamalt skinnhandrit og mörg hundruð ára gamlan þjóðararf þannig að nútímabörn langi til að lesa? Arndísi Þórarinsdóttur hefur tekist það listilega vel með því að setja sig í spor Möðruvallabókar og skrifa þvæling hennar í gegnum Íslandssöguna sem háskalega spennusögu,“ segir í umfjöllun Norðurlandaráðs.

 

Hins vegar Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að eyðileggja eftir Gunnar Helgason rithöfund og Rán Flygenring myndskreytti.

„Hispurslaust en með næmu innsæi og kímni dregur Gunnar Helgason upp sannfærandi mynd af sögupersónunni Alexander Daníel Hermanni Dawidsson í Bannað að eyðileggja. Alexander upplifir heiminn á alveg einstakan hátt sem hefur bæði neikvæð og jákvæð áhrif á alla hans tilvist. En eitt er alveg skýrt frá upphafi: Við erum með Alexander í liði og í því liggur styrkur bókarinnar. Samkenndin með honum er rík og það er sárt þegar Alexander og heimurinn rekast saman,“  segir í umfjöllun Norðurlandaráðs.

 

Tilnefningar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022

Tvær bækur eru tilnefndar:

Annars vegar bókin Truflunin eftir Steinar Braga. „Skáldsagan Truflunin fjallar um lítið svæði sem er öðruvísi en umheimurinn. Það getur að mati yfirvalda ekki gengið. Þetta er framtíðarsaga og söguformið er notað til þess að brjóta þverstæður samtímans til mergjar,“ segir í umfjöllun Norðurlandaráðs.

 

Þá er bókin Aprílsólarkuldi (Eitthvað alveg sérstakt). Frásögn um ást og geðveiki og huggun eftir Elísabetu Jökulsdóttir einnig tilnefnd.  „ Í bókinni beitir Elísabet aðferðum skáldskaparins til að rannsaka hvað gerðist þegar hún seint á áttunda áratug síðustu aldar, þá um tvítugt, veiktist af geðhvörfum og upplifði vanmátt og skömm sem hún hefur notað stóran hluta ævinnar til að rannsaka og miðla í list sinni. Sagan hverfist um Védísi sem á þröskuldi fullorðinsáranna verður fyrir því áfalli að missa föður sinn, en reynist ófær um takast á við þær tilfinningar sem því fylgja,“ segir í umfjöllun Norðurlandaráðs.

Tilnefningar til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2022

Íslenska kvikmyndin Dýrið er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.
„Í kvikmyndinni Dýrið sameinast íslensk sveitarómantík og frásagnahefð þjóðsagnanna. Innan þessa ramma bætir leikstjórinn Valdimar Jóhannsson við lögum af trúarlegum táknum og notar áhrif stofuleiks (kammerspiel) til að skapa einstaka frásögn af kraftaverkum, missi og hryllingi. Eftir því sem sögunni vindur fram opnast heimur þar sem mannlegur skilningur og langanir eru gerð grunsamleg og hið venjubundna líf virðist framandi,“ segir í umfjöllun Norðurlandaráðs.



Tilnefningar til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2022

Bára Gísladóttir er tilnefnd til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2022 fyrir verkið „Víddir“ (fyrir 9 flautur) (2019-2020)
„VÍDDIR er heillandi og magnað kammerverk þar sem hljóðheimurinn og uppbygging tónlistarinnar eru mótuð á lífrænan hátt og skarta hugmyndum um áferð og víddir þar sem mismunandi efni renna saman í eitt,“ segir í umfjöllun Norðurlandaráðs.



 Sóley Stefánsdóttir er tilnefnd til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2022 fyrir verkið „Mother Melancholia“ (hljómplata) (2021).
„Platan er afar frumleg og í raun ein löng hugleiðsla um ástand heimsins, sem skiptist á að vera fallegur og hryllilegur. […]Tónlistin flæðir glæsilega í einkennandi kaflaskiptingum, þar sem tilraunakennd verk Sóleyjar blandast við melódíska og upplífgandi lagahluta. Þetta epíska og hugrakka ferðalag hefur fengið mikið lof bæði hérlendis og erlendis,“ segir í umfjöllun Norðurlandaráðs.

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2022

Votlendissjóður er tilnefndur til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2022. Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs eru veitt starfsemi eða einstaklingi á Norðurlöndum sem sett hefur fordæmi með því að samþætta virðingu fyrir umhverfinu í starfi sínu, eða með því að sýna frumkvæði á annan hátt að sértækum aðgerðum umhverfinu til góða.

Votlendissjóðurinn er sjálfseignarstofnun sem er rekin á framlögum frá samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum . Endurheimt votlendis stöðvar losun koltvísýringsígilda, eflir líffræðilega fjölbreytni, fuglalíf og bætir vatnsbúskap. Þema verðlaunanna í ár er „Náttúrumiðaðar lausnir – alhliða svar við hinum stóru umhverfisáskorunum samfélagsins.”

Votlendissjóður tryggir að endurheimt sé unnin faglega og í samræmi við viðurkenndar starfsvenjur og undir eftirliti sérfræðinga frá Landgræðslu Íslands. Í íslensku votlendi eru mikilvægar varpstöðvar margra fuglategunda og sjálfboðaliðar fylgjast með jákvæðum áhrifum endurheimtar votlendis á fugla-, plöntu- og annað dýralíf á völdum svæðum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum