Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

Bókakynning um ungmenni og stjórnmál í Afríku

Ljósmynd: Magharebia. - mynd

Næstkomandi fimmtudag, 3. maí klukkan 15:00, stendur Norræna Afríkustofnunin (Nordiska Afrika Institutet) ásamt fræðimönnum frá Háskóla Íslands og háskólanum í Helsinki fyrir viðburði í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins í tilefni af útgáfu bókarinnar: What Politics?: Youth and Political Engagement in Africa. Einn af þremur ritstjórum bókarinnar, Elina Oinas, mun kynna bókina og höfundar ræða rannsóknir og kafla sína í bókinni, þær Þóra Björnsdóttir og Jónína Einarsdóttir, og Henri Onodera.

Bókin byggir á átján dæmisögum frá 14 Afríkuríkjum sem eiga það sameiginlegt að fjalla um þá reynslu að vera ungmenni í Afríku samtímans. Í kynningu frá Norrænu Afríkustofnuninni segir: „Ungir tónlistarmenn í Túnis mótmæla friðsamlega vonsviknir yfir ólokinni byltingu. Konur í Kwazulu-Natal háskólanum í Suður-Afríku grípa til aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi. Veggjakrot í Addis Ababa háskólanum í Eþíópíu með athugasemdum um kynhneigð sem pólitískt deilumál. Þær eru margvíslegar birtingarmyndir tjáningar um pólítíska þátttöku ungmenna í Afríku samtímans. Verið velkomin á rannsóknarfyrirlestur þar sem við ræðum þessi mál.“

Í nýrri grein á vef Norrænu Afríkustofnunarinnar (NAI) segir í fyrirsögn um þessa nýju bók að margir ungir Afríkubúar hafi snúið baki við hefðbundnum stjórnmálum. Tilfinningin sé sú að þeir hafi verið yfirgefnir af pólitískri elítu sem sýni því lítinn skilning að ungmenni skorti tækifæri í lífinu. Í leit sinni að nýjum leiðum til áhrifa mæti ungmennin oft harkalegum viðbrögðum.

Meðalaldur íbúa Afríku er aðeins 19 ár, sá lægsti í öllum heimsálfum. Með örfáum undantekningum er hlutfall ungs fólks í 55 ríkjum Afríku mjög hátt miðað við aðrir þjóðir í heiminum. Haft er eftir Elina Oinas, einum þriggja ritstjóra bókarinnar, að hátt hlutfall ungs fólks leiði til þess að það kemst á fullorðinsár síðar en aðrar kynslóðir, mörg ungmenni þurfi meðal annars vegna skorts á atvinnutækifærum að búa heima hjá foreldrum lengur en þau vilja.

Fyrirlesturinn hefst eins og áður kemur fram kl. 15:00 á fimmtudaginn í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins. María Erla Marelsdóttir skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins flytur ávarpsorð í upphafi.

Viðburðurinn er öllum opinn.

  • Bókakynning um ungmenni og stjórnmál í Afríku  - mynd úr myndasafni númer 1
  • Bókakynning um ungmenni og stjórnmál í Afríku  - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur
10. Aukinn jöfnuður

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum