Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2018 Félagsmálaráðuneytið

Endurskoðun á skipan dómara í Félagsdóm

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur ákveðið að skipa nefnd til að endurskoða skipan dómara í Félagsdóm, m.a. varðandi val á þeim og hæfniskröfur, í kjölfar athugasemda GRECO. Ráðherra kynnti ákvörðun sína á fundi ríkisstjórnar í morgun.

Ísland hefur verið aðili að GRECO, samtökum ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, frá árinu 1999. Samtökin hafa eftirlit með því hvort og hvernig aðildarríkin fylgja tilmælum Evrópuráðsins um aðgerðir á þessu sviði og gera reglulega úttektir í því skyni.

Í úttekt GRECO kemur fram að þótt núverandi forseti Félagsdóms sé héraðsdómari séu engar kröfur gerðar hvað það varðar í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. GRECO bendir einnig á að engar sérstakar reglur gildi um skipan þessara dómara og að stöður þeirra séu ekki auglýstar.

Úrskurðir og dómar Félagsdóms eru endanlegir og verður ekki áfrýjað. Með vísan til þess er það álit GRECO að eðlilegt væri að gera þá lágmarkskröfu að dómendur tilnefndir af Hæstarétti færu í gegnum ráðningarferli sem tryggði sjálfstæði, óhlutdrægni og gagnsæi. Jafnfram bæri að auglýsa stöður þeirra líkt og þegar dómarar eru almennt skipaðir í stöður hér á landi.

Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur er gerð krafa um að þeir dómarar sem Hæstiréttur skipar hafi lokið embættisprófi í lögfræði. Engar sérstakar hæfniskröfur eru gerðar í lögum til hinna dómaranna sem skipa félagsdóm, aðrar en að þeir séu íslenskir ríkisborgarar, fjár síns ráðandi og með óflekkað mannorð.

Lög um stéttarfélög og vinnudeilur eru frá árinu 1938 og hafa litlar breytingar orðið á kaflanum um Félagsdóm frá því að lögin tóku gildi. Fyrir liggur að strangari hæfniskröfur eru gerðar til dómenda í sérdómstólum um ágreining milli aðila vinnumarkaðarins hjá öðrum Norðurlandaþjóðum.

Í ljósi þessa og til að bregðast við athugasemdum GRECO hefur félags- og jafnréttisráðherra ákveðið að skipa nefnd með fulltúum aðila vinnumarkaðarins og velferðarráðuneytisins til að endurskoða gildandi fyrirkomulag og gera tillögu að breytingum á skipan dómara í Félagsdóm. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira