Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 2/2015

Kærunefnd útlendingamála

Þann 23. febrúar 2015 er kveðinn upp svohljóðandi úrskurður nr. 2/2015

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15010050

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestur og kæruheimild

Þann 4. apríl 2014 barst innanríkisráðuneytinu tilkynning Útlendingastofnunar um kæru [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefnd kærandi) á ákvörðun stofnunarinnar dags. 27. mars 2014, um að fella niður rétt hennar til dvalar hér á landi.

Kærunefndin telur að í kæru felist krafa um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði heimiluð áframhaldandi dvöl hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 2. mgr. 30. gr. sömu laga.


II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með þeim hætti að kærandi var skv. Þjóðskrá Íslands fyrst skráð inn í landið þann 5. maí 2011, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga. Þann 26. mars 2013 bárust Útlendingastofnun þær upplýsingar að kærandi hefði verið á framfærslu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar síðan í júní 2011 og að hún ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Útlendingastofnun sendi kæranda bréf, dags. 24. júní 2013, þar sem kæranda var tilkynnt að til skoðunar væri hvort fella ætti niður rétt hennar til dvalar á Íslandi af framangreindum ástæðum. Útlendingastofnun felldi niður rétt kæranda til dvalar hér á landi með ákvörðun sinni, dags. 27. mars 2014.

Þann 4. apríl 2014 barst innanríkisráðuneytinu kæra í málinu. Ráðuneytið óskaði eftir gögnum máls frá Útlendingastofnun og bárust þau þann 22. maí 2014. Gögn málsins voru send kæranda þann 21. júlí 2014 og kæranda boðið að koma á framfæri frekari upplýsingum eða gögnum vegna málsins. Frekari gögn eða upplýsingar bárust ekki.

Þann 1. janúar 2015 tók kærunefnd útlendingamála til starfa sbr. 1. gr. laga nr. 64/2014. Allar kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar, sem enn biðu afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu þann 1. janúar sl. og heyra til þeirra ákvarðana sem heimilt er að kæra til kærunefndar útlendingamála, verða afgreiddar hjá kærunefndinni, sem fer nú með úrskurðarvald í samræmi við 3. gr. a og 3. gr. b laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. gr. laga nr. 64/2014.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Útlendingastofnun byggir ákvörðun sína á því að réttur kæranda til dvalar hér á landi sé fallinn niður sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga. Var það mat stofnunarinnar að dvöl kæranda samræmdist ekki tilgangi og skilyrðum útlendingalaga, né ákvæðum tilskipunar 2004/38/EB um rétt borgara sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsra flutninga og búsetu á yfirráðasvæði aðildarríkjanna.


IV. Málsástæður kæranda

Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að hún hafi frá maí 2011 starfað hjá [...]. en hún hafi fljótlega misst vinnuna þar vegna þess að fyrirtækið hafi orðið gjaldþrota. Í kjölfarið hafi kærandi þegið félagslega framfærslu og sótt um fjölda starfa. Kærandi hafi leitað til  Vinnumálastofnunar en þar sem hún hafi starfað stutt hjá fyrirtækinu hafi hún ekki fengið atvinnuleysisbætur en farið á skrá sem atvinnuleitandi. Þá hafi kærandi leitað til Reykjavíkurborgar og í hverjum mánuði hafi hún framvísað borginni gögnum um að hún hafi sótt um a.m.k. fjögur störf í þeim mánuði. Starfsmaður Reykjavíkurborgar sem hafði umsjón með atvinnuleit kæranda geti staðfest virka atvinnuleit. Vegna fjölda atvinnuumsókna hafi kærandi fengið nokkur atvinnuviðtöl og hún hafi m.a. farið í viðtal í febrúar sem hafi komið vel út og hún sé bjartsýn á að fá fljótlega starf.

Kærandi kveðst eiga uppkomna dóttur hér á landi, [...]. Hún hafi aðstoðað kæranda í atvinnuleit sinni og þær mæðgur séu nánar. Fram kemur að kærandi kunni ekki skýringu á því af hverju þessara fjölskyldutengsla sé ekki getið í þjóðskrá. Þá greinir að kærandi eigi enga ættingja í [...], hún óttist að vera neydd til að flytja aftur til [...] og búa þar ein, enda sé hún komin á þann aldur að ýmis heilsufarsvandamál séu farin að hrjá hana.

Kærandi leggur mikla áherslu á að hún hafi sterk tengsl við landið og hún óski eftir að tekið sé tillit til þess við meðferð málsins. Kærandi vilji búa áfram hér á landi með dóttur sinni og hún sé þess fullviss að hún finni fljótlega vinnu hér. Kærandi hafi alla tíð veitt réttar upplýsingar um veru sína hér og hún hafi misst vinnuna gegn vilja sínum mjög skömmu eftir að hún hóf störf þar.

Kærandi óskar eftir því að við meðferð kærunnar verði tekið tillit til þess að þrátt fyrir virka atvinnuleit hafi henni ekki tekist að fá starf, mögulega vegna aldurs, en hún er [...] ára gömul og því að nálgast starfslok og eftirlaunaaldur. Í ljósi aldurs kæranda sé það henni mikilvægt að dveljast hér á landi með dóttur sinni. Að lokum greinir að kærandi telji að það tímabil sem hún/hann hafi verið atvinnulaus, gegn vilja sínum, beri með vísan til 78. gr. reglugerðar nr. 53/2003, um útlendinga, að meta sem starfstímabil í skilningi 76. gr. reglugerðarinnar og óskar eftir því að litið verði til sjónarmiða þess ákvæðis við meðferð máls hennar.


V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið heimilt að fella niður rétt kæranda til dvalar hér á landi á grundvelli VI. kafla útlendingalaga, nr. 96/2002.

Líkt og áður segir var kærandi fyrst skráð á Íslandi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga vorið 2011. Hafði hún atvinnu um stutta stund eða um fjögurra mánaða skeið. Frá ágúst 2011 hefur kærandi þegið greiðslur frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir sem áður segir á 40. gr. útlendingalaga, sbr. 27. gr. þágildandi laga nr. 86/2008, ákvæðið er efnislega samhljóðandi núgildandi ákvæði laganna. Þar er fjallað um brottfall dvalarréttar samkvæmt ákvæðum VI. kafla útlendingalaga, í kaflanum er að finna sérreglur um útlendinga sem falla undir EES- samninginn og stofnsamning EFTA. Þar segir m.a:

 Réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þessa kafla fellur niður ef útlendingur hefur vísvitandi veitt rangar upplýsingar, ef um málamyndagerninga að hætti 3. mgr. 13. gr. er að ræða eða dvöl í öðrum tilgangi en þeim sem samræmist 1. mgr. 36. gr. Sama á við ef um aðra misnotkun er að ræða.

Réttur til dvalar hér á landi skv. a- eða b-lið 1. mgr. 36. gr. a fellur ekki niður vegna tímabundinna veikinda eða slyss eða ef um er að ræða þvingað atvinnuleysi EES- eða EFTA-borgara eftir að hann hefur starfað hér á landi lengur en eitt ár.

Útlendingastofnun tekur ákvörðun um hvort réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þessa kafla fellur niður.

Í framangreindu ákvæði er kveðið á um að Útlendingastofnun taki ákvörðun um hvort réttur útlendings til dvalar falli niður. Réttur til dvalar getur m.a. fallið niður ef ljóst er að tilgangur dvalar hér á landi samrýmist ekki ákvæðum núgildandi 36. gr. a laga um útlendinga, sem eru svohljóðandi:

EES- eða EFTA-borgari á rétt til dvalar hér á landi lengur en þrjá mánuði ef hann fullnægir einhverju af eftirgreindum skilyrðum:

a. er launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur hér á landi eða,

b. ætlar að veita eða njóta þjónustu hér á landi og fullnægir jafnframt skilyrðum c-liðar, eftir því sem við á,

c. hefur nægilegt fé sér til handa og aðstandendum sínum til að verða ekki byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar á meðan á dvöl stendur og fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir,

d. er innritaður hjá viðurkenndri námsstofnun með það að meginmarkmiði að öðlast þar menntun eða starfsþjálfun, fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir og getur sýnt fram á trygga framfærslu.

 Kærandi hefur dvalið hér á landi án atvinnu frá ágúst 2011 og frá þeim tíma þegið fjárhagslega aðstoð sveitafélags.

Þá eiga undantekningaákvæði 3. mgr. 40. gr. útlendingalaga ekki við í máli kæranda, þar sem kærandi hefur ekki starfað hér á landi lengur en eitt ár.

Samkvæmt því sem að framan greinir er réttur kæranda til dvalar hér á landi á grundvelli 1. mgr. 36. gr. a laga um útlendinga fallin niður og er hin kærða ákvörðun því staðfest.

Í kæru kemur fram að kærandi eigi dóttur sem búsett er hér á landi og kærandi byggir á því að hún hafi myndað tengsl við landið þann tíma sem hún hefur dvalist hér. Kærunefnd útlendingamála beinir því til Útlendingastofnunar að leiðbeina kæranda um hvort hún geti átt rétt til dvalar hér á landi á öðrum grundvelli, svo sem á grundvelli c-liðar 2. mgr. 35. gr. b útlendingalaga.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. mars 2014, [...]er staðfest. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að leiðbeina kæranda um mögulegan rétt til dvalar á öðrum grundvelli.

 The decision of the Directorate of Immigration, of 27 March 2014, [...], is affirmed. The Immigration and Asylum Appeals Board instructs the Directorate of Immigration to guide the complainant on other possible grounds for a residence permit.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                          Oddný Mjöll Arnardóttir

 

 


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum