Hoppa yfir valmynd
19. júní 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Opnun Nesvalla, þjónustumiðstöðvar aldraðra í Reykjanesbæ

Góðir gestir.

Það er ánægjulegt fyrir mig að fá tækifæri til að koma hingað í dag, sjá þessa glæsilegu aðstöðu sem verið er að taka formlega í notkun og skoða myndarlega uppbyggingu þjónustu fyrir aldraða hér á Nesvöllum. Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefði svo gjarna viljað vera hér með ykkur en komst ekki og bað mig því fyrir góðar kveðjur.

Uppbyggingin á Nesvöllum er samvinnuverkefni Húsaness og Klasa í samstarfi við Reykjanesbæ og Dvalarheimili aldraðra á Suðurnesjum. Verkefnið er framsækið og að mínu mati afar spennandi þar sem saman fer margvísleg þjónusta, tómstundamöguleikar og fjölbreyttir búsetukostir fyrir fólk 55 ára og eldra jafnframt því sem áformað er að reisa hér á svæðinu nýtt hjúkrunarheimili.

Tvö atriði tel ég að ávallt verði að hafa í huga þegar byggð er upp þjónusta fyrir aldraða. Í fyrsta lagi snýst þjónusta alltaf fyrst og fremst um fólk. Þjónusta er veitt af fólki fyrir fólk. Því er ekki nóg að byggja upp glæsilega aðstöðu og fjölbreyttan húsakost ef ekki er tryggt að gott starfsfólk fáist til að sinna þjónustunni. Og þar sem þjónustan er fyrir fólk verður hún að taka mið af ólíkum, einstaklingsbundnum þörfum hvers og eins eigi hún að standa undir nafni.

Í öðru lagi eru aldraðir ekki einsleitur hópur heldur fjöldi fólks sem endurspeglar að verulegu leyti fjölbreytileika samfélagsins en á fyrst og fremst aldurinn sameiginlegan. Efnahagur aldraðra er mismunandi, félagslegar aðstæður sömuleiðis, fjölskyldustaða, áhugamál, langanir og lífsýn – allt er þetta einstaklingsbundið, háð aðstæðum, umhverfi, uppruna og uppeldi hvers og eins. Samkvæmt lögum eru aldraðir skilgreindi þeir sem eru 67 ára og eldri. Það sem helst sameinar þá er að um það leyti hætta flestir þátttöku á vinnumarkaði sem auðvitað er mjög afgerandi breyting í lífi hvers og eins. Eins fylgja ýmis heilsufarsvandamál hækkandi aldri og þörf fyrir margvíslega þjónustu og aðstoð eykst eftir því sem árin færast yfir. Það er vissulega sitthvað sem aldraðir eiga sameiginlegt en ég tel þó að við eigum ekki að einblína fyrst og fremst á þá þætti heldur eigum við ekki síður að horfa til fjölbreytileikans og styrkja möguleika fólks til að njóta sín sem einstaklingar, aldraðra sem annarra.

Ágætu gestir.

Ég er kannski komin nokkuð langt frá efninu. Við erum jú saman komin hér í dag til að gleðjast yfir því að verið er að taka formlega í notkun þjónustumiðstöðina á Nesvöllum. Hér er svo sannarlega til staðar þjónusta, veitt af fólki fyrir fólk. Góð tómstundaaðstaða, mötuneyti og dagvist og síðast en ekki síst samankomin á einum stað Félagsþjónusta Reykjanesbæjar í einstaklega fallegri og góðri aðstöðu. Hér mun einnig stór hluti félags- og tómstundastarfs aldraðra á vegum bæjarfélagsins fara fram. Ég óska ykkur öllum innilega til hamingju með þessa glæsilegu aðstöðu og er sannfærð um að hún mun gera störf þeirra sem sinna þjónustu við aldraða enn ánægjulegri og þjónustuna sjálfa betri en nokkru sinni, öldruðum til gagns og hagsbóta.

Mér er kunnugt um að lengi hefur verið sótt á um það af hálfu Reykjanesbæjar að fá að byggja nýtt hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Sömuleiðis hafa bæjaryfirvöld viljað auka aðra þjónustu, meðal annars með fjölgun dagvistarrýma fyrir aldraða með heilabilun.

Ég veit að góður dagur yrði enn betri ef ég bæri fram loforð um fjölgun hjúkrunar- og dagvistarrýma hér og nú. Það get ég þó ekki að svo komnu máli. Ég get hins vegar sagt frá því að frá áramótum hefur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu verið unnið að viðamikilli áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma um allt land, byggð á faglegu mati þar sem horft er til framboðs rýma á hverjum stað og höfð hliðsjón af þörf fyrir breytingar til að eyða fjölbýlum. Framkvæmdaáætlunin verður kynnt bráðlega en svo mikið get ég þó sagt að þar er viðurkennd þörf fyrir fjölgun hjúkrunarrýma í Reykjanesbæ og áætlunin mun taka mið af því.

Góðir gestir ég óska ykkur til hamingju með daginn og færi ykkur sömuleiðis bestu hamingjuóskir frá Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra. Megi Nesvellir verða íbúum hér til gæfu og gleði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum