Hoppa yfir valmynd
20. júní 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ákvörðun tekin um móttöku flóttafólks

Sendinefnd skipuð fulltrúum flóttamannanefndar og Útlendingastofnunar fór til Íraks fyrir skömmu og heimsótti flóttamannabúðirnar í Al Waleed. Nefndin ræddi þar við fjölskyldur sem fyrirhugað er að bjóða hæli hér á landi en Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafði áður fjallað um aðstæður þessara einstaklinga og veitt þeim stöðu flóttamanna.

Á fundi flóttamannanefndar 13. júní síðastliðinn gerði sendinefndin grein fyrir ferð sinni til Al Waleed og lagði fyrir nefndina tillögur sínar um hvaða einstaklingum skuli boðið hæli hér á landi. Flóttamannanefnd samþykkti tillögur nefndarinnar og hafa þær nú verið staðfestar af félags- og tryggingamálaráðherra og utanríkisráðherra. Samkvæmt því verður átta fjölskyldum boðið hæli hér á landi, samtals 29 manns. Þetta eru tíu konur, flestar einstæðar mæður, og 19 börn. Mögulegt er að ein þessara fjölskyldna, kona með þrjú börn, sjái sér ekki fært að taka boði um hæli hér á landi en það skýrist á næstunni.

Í sendinefndinni voru Ingibjörg Broddadóttir, fulltrúi félags- og tryggingamálaráðuneytisins, Haukur Guðmundsson, fulltrúi Útlendingastofnunar, og Atli Viðar Thorsteinsen, fulltrúi Rauða kross Íslands. Að sögn þeirra hefur ekkert verið ofsagt um skelfilegar aðstæður í flóttamannabúðunum í Al Waleed eins og glöggt má sjá af meðfylgjandi myndum sem þau tóku í búðunum.

Al Waleed flóttamannabúðirnar1

Al Waleed flóttamannabúðirnar2

Al Waleed flóttamannabúðirnar3

Al Waleed flóttamannabúðirnar4



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum