Hoppa yfir valmynd
4. júní 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 156/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 156/2021

Föstudaginn 4. júní 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. mars 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. janúar 2021, um að staðfesta fyrri ákvörðun stofnunarinnar frá 24. júlí 2020 um 61% bótarétt.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 15. maí 2020. Með ákvörðun, dags. 24. júlí 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og bótaréttur metinn 61%. Með tölvupósti, dags. 21. nóvember 2020, óskaði kærandi eftir því að umsókn hans um greiðslu atvinnuleysisbóta yrði tekin til endurskoðunar. Með tölvupósti, dags 1. desember 2020, var kæranda greint frá því að bótaréttur hans hefði verið reiknaður út frá starfshlutfalli kæranda á ávinnslutímabilinu. Kærandi greindi Vinnumálastofnun frá því með tölvupósti 1. desember 2020 að hann hafi verið 50% eigandi í B en félagið hafi átt við rekstrarvanda að stríða. Kærandi hafi verið í 100% starfshlutfalli en ekki greitt sér laun í réttu hlutfalli við framlagða vinnu og óskaði kærandi eftir leiðréttingu í samræmi við það. Með ákvörðun, dags. 20. janúar 2021, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun stofnunarinnar frá 24. júlí 2020 um 61% bótarétt hefði verið staðfest.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 18. mars 2021. Með bréfi, dags. 24. mars 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 29. apríl 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. apríl 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa frá upphafi aðeins fengið greiddar 61% atvinnuleysisbætur og því hafi hann óskað eftir endurupptöku stofnunarinnar á fyrri ákvörðun þar sem hún hafi hugsanlega verið tekin á röngum forsendum. Ákvörðun endurupptöku, dags. 20. janúar 2021, hafi staðfest fyrri ákvörðun frá 24. júlí 2020. Kæranda sýnist sú ákvörðun hafa verið tekin á röngum forsendum þar sem því sé haldið fram að hann hafi hvorki verið eigandi né setið í stjórn B. frá stofnun félagsins árið 2010 þar til hann hafi hætt störfum hjá félaginu. Þetta sé ekki rétt, sbr. tilkynning um úrsögn kæranda úr stjórn félagsins frá 22. janúar 2019. Kærandi hafi selt 50% eignarhlut sinn í félaginu á sama tíma til meðeiganda síns. Kærandi velti því einnig fyrir sér hversu lengi sé hægt að bjóða einstaklingi upp á 61% bótahlutfall sem valdi honum mjög miklum erfiðleikum.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að það hafi verið mat stofnunarinnar, við endurumfjöllun á umsókn kæranda, að hann hafi ekki lagt fram nægileg gögn til staðfestingar á því að hann hefði verið eigandi B. og því hafi bótaréttur kæranda ekki verið reiknaður á þeim forsendum. Bótaréttur kæranda hafi verið reiknaður út frá þeirri forsendu að hann væri launamaður í skilningi a-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006.

Kærandi telji að ákvörðun Vinnumálastofnunar um bótarétt hafi verið byggð á röngum forsendum þar sem útreikningur á bótarétti kæranda hafi ekki tekið mið af því að hann hafi verið eigandi B og setið í stjórn félagsins. Með kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála hafi kærandi lagt fram frekari gögn og í kjölfarið hafi verið farið yfir mál kæranda að nýju. Vinnumálastofnun þyki nú ljóst að kærandi hafi verið raunverulegur eigandi B á ávinnslutímabilinu. Stofnunin telji því að ranglega hafi verið staðið að ákvörðun um bótarétt kæranda. Aftur á móti liggi fyrir að ef Vinnumálastofnun reikni bótarétt kæranda út frá þeim forsendum að hann hafi verið eigandi rekstrar muni bótaréttur kæranda koma til með að lækka verulega, eða úr 61% í 29%, með vísan til 19. gr. laga nr. 54/2006. Að mati Vinnumálastofnunar hafi verið ranglega staðið að ákvörðun um bótarétt kæranda og að reikna beri bótarétt hans út frá þeirri forsendu að hann hafi verið eigandi B.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. janúar 2021, um að staðfesta fyrri ákvörðun stofnunarinnar frá 24. júlí 2020 um 61% bótarétt kæranda. Sú ákvörðun var tekin á þeirri forsendu að kærandi hefði verið launamaður í skilningi a-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála lagði kærandi fram ný gögn vegna tiltekins einkahlutafélags. Vinnumálastofnun hefur vísað til þess að þær upplýsingar leiði til þess að ranglega hafi verið staðið að ákvörðun um bótarétt kæranda. Með vísan til þess er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Vinnumálastofnun beri að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar og er hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.   

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. janúar 2021, í máli A, er felld úr gildi og send til nýrrar meðferðar Vinnumálastofnunar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum