Hoppa yfir valmynd
26. september 2006 Utanríkisráðuneytið

Ávarp utanríkisráðherra á allsherjarþingi S.þ.

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, flytur ávarps á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna
Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, flytur ávarp á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 062

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra flutti í dag ræðu á 61. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. Á þessu allsherjarþingi er sérstök áhersla lögð á alþjóðlegt samstarf í þróunarmálum.

Í máli ráðherra kom fram að íslensk stjórnvöld öxluðu ábyrgð með auknum framlögum til þróunarsamvinnu. Utanríkisráðherra lagði jafnframt áherslu á stöðu kvenna og barna og tilgreindi aukin framlög íslenskra stjórnvalda til þróunarsjóðs S.þ. fyrir konur, UNIFEM, og auknu framlagi stjórnvalda, fyrirtækja og einstaklinga til þróunarsjóðs S.þ. fyrir börn, UNICEF.

Utanríkisráðherra lagði einnig áherslu á umhverfismál og endurnýjanlega orku. Ísland hefði sérstöðu hvað varðar jarðhita og gæti miðlað þekkingu sinni. Málefni hafsins hefðu einnig afgerandi áhrif á afkomu þróunarríkja í ljósi þess að 95% þeirra sem byggðu afkomu sína á fiskveiðum væru í þróunarríkjunum. Mengun hafsins og óábyrgar fiskveiðar væru því áhyggjuefni. Utanríkisráðherra greindi frá framlagi Íslands til aukinnar framþróunar og ábyrgðar á þessum sviðum, sem fælist meðal annars í þjálfun sérfræðinga frá þróunarríkjunum í háskólum S.þ. á Íslandi á sviði jarðhita og sjávarútvegs. Þá lagði utanríkisráðherra áherslu á að mannréttindi væru algild og ekki umsemjanleg.

Utanríkisráðherra þakkaði Kofi Annan, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega fyrir framlag hans til alþjóðasamfélagsins, en hann lætur af störfum um næstu áramót og í lok ræðu sinnar minnti utanríkisráðherra á framboð Íslands til setu í öryggisráði S.þ. árin 2009 og 2010.

Þá opnaði utanríkisráðherra nýja heimasíðu sem sett hefur verið upp til kynningar á framboði Íslands til sætis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Vefslóð síðunnar er www.iceland.org/securitycouncil.

Í gær sat utanríkisráðherra morgunverðarfund smærri ríkja og átti tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Gvatemala, Íraks, Maldíveyja og Makedóníu, auk varautanríkisráðherra Víetnam. Á fundunum var framboð Íslands til öryggisráðs S.þ. meðal annars til umfjöllunar. Í dag undirritar utanríkisráðherra yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands við Svartfjallaland, sem er nýjasta aðildarríki S.þ., en Ísland var fyrst ríkja til að viðurkenna fullveldi Svartfjallalands.

Ávarp ráðherra fylgir hjálagt á ensku.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum