Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2020 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Gjáin, Hjálparfoss, Háifoss og Granni friðlýst

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandsssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Dagskránni 30. janúar 2020.

 

Gjáin, Hjálparfoss, Háifoss og Granni friðlýst

Í síðustu viku skrifaði ég undir friðlýsingu hluta Þjórsárdals að viðstöddu margmenni í Árnesi. Innan þess svæðis sem nú er friðlýst eru meðal annars Gjáin, Hjálparfoss og Háifoss og Granni og eru þau friðlýst sem sérstök náttúruvætti. Friðlýsingunni er ætlað að varðveita sérkenni og einkenni landslagsins, fagurfræðilegt og menningarlegt gildi þess og svæðið er reyndar hið fyrsta hér á landi sem er friðlýst sem landslagsverndarsvæði samkvæmt lögum um náttúruvernd.

Friðlýsingin er hluti af friðlýsingarátaki sem ég setti af stað vorið 2018. Friðlýsingin í Þjórsárdal er fyrsta svæðið sem friðlýst er í átakinu þar sem ágangur ferðamanna hefur verið mikill. Að mínu mati eru friðlýsingar kjörið verkfæri til þess að passa upp á að ferðamennska bitni ekki á náttúru- og menningarminjum. Þannig geti náttúruvernd og ferðaþjónusta betur farið saman.

Fjöldi ferðamanna í Þjórsárdal hefur aukist stórum á síðustu árum. Árið 2019 var svæðið komið á rauðan lista Umhverfisstofnunar yfir svæði sem eiga á hættu að tapa verndargildi sínu. Strax í fyrra á meðan friðlýsingavinnan fór fram setti ég sérstakt fjármagn í landvörslu og verkefni til að styrkja vernd svæðisins. Í síðustu viku bárust mér svo þær ánægjulegu fregnir að svæðið myndi færast af þessum rauða lista á þessu ári, vegna þessara aðgerða. Það gleður mig mikið að sjá árangur starfsins svo fljótt.

Það er mikilvægt að hugsa vel um þann þjóðararf sem felst í náttúru okkar. Ein skilvirkasta leiðin til þess er að friðlýsa svæði, þannig að skipuleggja megi umferð og heimsóknir um þau með þeim hætti að náttúran njóti vafans og komandi kynslóðir geti notið þessara gæða líkt og við. Ég er þakklátur öllum þeim sem komið hafa að þessari vinnu sem leidd hefur verið af Umhverfisstofnun í góðu samstarfi við Skeiða- og Gnúpverjahrepp, Skógræktina, Minjastofnun og forsætisráðuneytið.

Til hamingju með þennan áfanga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira