Hoppa yfir valmynd
19. október 2001 Heilbrigðisráðuneytið

JK - Ræður: Opnun sýningarinnar ListVERKUN gegn tóbaksreyk

Opnun sýningarinnar ListVERKUN
evrópsk myndlist gegn tóbaksreykingum
Ræða Jóns Kristjánssonar
Hafnarborg 17.10.2001


Góðir gestir,
það er ánægjulegt að menn skuli hafa hugmyndaflug til að tengja saman menninguna og baráttuna gegn reykingum og einstaklega ánægjulegt fyrir mig,að fá að taka þátt í opnun sýningarinnar hér. Ég er sannfærður að verkin hér hjálpa breyskum reykingamönnum til að ná tökum á fíkn sinni.

Vífilsstaðaspítalinn sem er í næstu sveit við ykkur var reistur á örskammri stund af því mönnum þótti mannfallið af völdum berklaveikinnar óbærilegt í fámenninu. Um hríð lágu um 200 manns í valnum á ári hverju vegna berklanna. Þetta nefni hér vegna þess að þetta er um það bil sá fjöldi sem deyr árlega á Íslandi af reykingum.

Sá er auðvitað munurinn að berklana kusu menn sér ekki sjálfir, en á reykingunum bera menn ábyrgð í stórum dráttum. Ég nefni þetta hér til að benda á hversu hart samfélagið brást við berklunum, og hve miklu skiptir að ná árangri í baráttunni gegn reykingunum í dag.

Árlega deyja tólf hundruð þúsund evrópubúar vegna tóbaksnotkunar og eru það um 14 prósent dauðsfalla í álfunni og því er spáð að ef ekki verði gripið til hertra aðgerða muni þessi tala ná tveimur milljónum árið 2020.

Til að koma í veg fyrir þetta verða allir að leggja hönd á plóginn og það er í þessu sambandi sem listamennirnir leggja baráttunni lið.

ListaVERKUN sú sem hingað er komin er til þess sett fram að hvetja fólk til að leita sér aðstoðar til að hætta að reykja. Tuttugu af framsæknustu listamönnum Evrópu voru fengnir til starfa í þessu augnamiði. Hver listamannanna hefur sinn hátt á því hvernig hann tekst á við verkefnið og eins og þið sjáið vinna þeir í mismunandi hráefni, - höggmyndir, myndbönd, málverk og ljósmyndir.

Í verkunum byggja þeir til dæmis stef um þann heilsuskaða sem reykingar valda, en einnig hvernig tískuheimurinn og auglýsingar fegra ímynd reykingamannsins og hvernig auglýsingaherferðir tóbaksframleiðenda reyna að rugla fólk í ríminu.

Aðrir eru jarðbundnari og tjá sig um það hvaða bein áhrif reykingar hafa á líkamann, sumir með því að undirstrika hreinleika og fegurð heilbrigðs líkama, en aðrir með því að myndgera skaðann sem tóbakið veldur innra með okkur. Margir fjalla líka um fíknina sjálfa og hugarangrið sem hún veldur reykingamönnum og svo það sem mestu skiptir: Hvernig menn ná tökum á fíkninni.

Þeir sem sóttu þessa sýningu til meginlandsins og fengu hana hingað til Hafnarfjarðar eiga jafn mikið hrós skilið fyrir sitt framlag og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, sem kom sýningunni á koppinn, og listamennirnir sjálfir sem skópu verkin.

Hafnarborg er ein af þessum þungamiðjum listalífsins við Faxaflóa og einmitt vegna þess að safnið hefur getið sér gott orð, þá er ég þess fullviss að hingað munu sýningargestir streyma til að sjá ListVERKUN.

Þá fyrst verður listagaldurinn til að safnið eða umhverfið, verkið og hin einstaklingsbundna upplifun rennur saman í þessi óskiljanlegu áhrif, sem við verðum vonandi öll fyrir hér í dag.

Að lokum þetta: Mikið væri nú gaman að sjá grunn-og framhaldsskólanemendur streyma hingað í safnið á næstunni til að þeir megi sjá og skynja annars konar röksemdir gegn því að reykja.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum