Hoppa yfir valmynd
14. desember 2001 Heilbrigðisráðuneytið

JK - Ræður: Ársfundur FSA 2001

Ávarp Jóns Kristjánssonar
heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
á ársfundi FSA
10. desember 2001



Ágætu ársfundargestir.

Ég vil byrja á því að óska þeim hópi starfsmanna til hamingju, sem fékk viðurkenningu hér áðan fyrir 25 ára starf við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Hollir og góðir starfsmenn eru mesti auður hvers fyrirtækis, án þeirra verður ekki til samfelld þjónusta, reynsla og þekking. Árangurinn af þeirri mikilvægu starfsemi sem hér fer fram ræðst fyrst og síðast af því starfsfólki sem hér starfar.

Mig langar líka, sem heilbrigðisráðherra, að þakka þeim mörgu starfsmönnum sem hafa látið af störfum hjá FSA fyrir aldurs sakir. Trúmennska þeirra og hollusta, þjónusta þeirra við sjúklinga og aðra þá sem hingað leita, er grunnurinn sem við stöndum á og vegvísir okkar til framtíðar.
- - - - - -

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefur um langt árabil verið einn af burðarásunum í íslensku heilbrigðiskerfi. Hér hefur verið unnið þróttmikið starf sem einkennst hefur af framsýni, metnaði og velvilja í garð íbúa þess svæðis sem sjúkrahúsið þjónar. Stjórnendur hér og heilbrigðisyfirvöld, hafa lagt metnað sinn í að framfylgja 1. grein laga um heilbrigðisþjónustu, þar sem segir að landsmenn eigi rétt á bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita.

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er eina sérgreinasjúkrahúsið utan höfuðborgarsvæðisins og veitir afar fjölþætta þjónustu. Sjúkrahúsið er ekki aðeins mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu íbúa á norður og austurhluta landsins, heldur er það mjög mikilvæg stofnun í byggðalegu tilliti.

Nýverið skoðaði ég upplýsingar um það hvaðan af landinu sjúklingar koma á Landspítala háskólasjúkrahús. Þar vakti athygli mína að lang fæstir komu af norðurlandi, þ.e. af upptökusvæði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Slíkar upplýsingar styrkja það sem við líklega flest vissum fyrir, að viðhorf íbúa þessa landsvæðis til FSA er jákvætt, íbúarnir bera traust til þeirrar starfsemi sem hér fer fram og þess starfsfólks sem hér vinnur. Það þarf ekki að sækja annað. Þannig verður FSA ein af styrkustu stoðum þessa svæðis og landsins alls, því styrkurinn er ekki bara til mótvægis við höfuðborgarsvæðið heldur einn þátturinn í þeirri pólitísku stefnumörkun að byggja upp heilbrigðisþjónustuna þar sem fólk þarf á henni að halda.

Ég nefni þetta hér, ekki til að ala á samkeppni milli þessara tveggja sjúkrahúsa, heldur til að minna á mikilvægi beggja þessara stofnana. Styrkur þeirra liggur í samvinnu en ekki samkeppni. Mér er kunnugt um að vilji er til þess hjá stjórnendum þessara tveggja stóru sjúkrahúsa að auka þessa samvinnu og fagna ég því.

Mér er líka kunnugt um þá fyrirætlan forseta læknadeildar Háskóla Íslands að vinna að samstarfssamningi við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, varðandi kennslu læknanema. Samkvæmt upplýsingum deildarforseta er vilji til þess að koma á fót kennarastöðum við FSA. Þannig myndi Fjórðungssjúkrahúsið styrkjast í sessi sem háskólasjúkrahús. Langt og gott samstarf þess við Háskólann á Akureyri er til mikillar fyrirmyndar og hefur lyft Grettistaki, einkum í málefnum hjúkrunar á svæðinu.

Ég vil líka lýsa ánægju minni með það góða samstarfs sem FSA hefur átt við sjúkrahús hér í nágrannabyggðum, bæði til austurs og vesturs. Samkomulag og samningar um þjónustu sérfræðinga, samstarf um aðgerðir og endurhæfingu, kennslu- og fræðslumál og fleira, hafa styrkt þessar stofnanir allar og gert þeim kleift að hafa á sínum snærum sérfræðinga í fremstu röð hér á landi.

- - - - -

Ég nefndi hér áðan þann metnað stjórnenda sjúkrahússins að veita bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Síðari hluti þessarar grunngreinar í heilbrigðislögum okkar vísar ekki síst til þess fjármagns sem á hverjum tíma er úr að spila. Ég veit að stjórnendur hér hafa áhyggjur af þeirri þjónustu sem hér er veitt og af fjárhagsstöðu sjúkrahússins, að óbreyttu. Ég hef lagt áherslu á að grunn-heilbrigðisþjónusta líði ekki í þeim efnahagsaðstæðum sem uppi eru um þessar mundir. Ég hef þvert á móti lagt til aukin framlög á ýmsum sviðum. Þar við ég nefna framlag til átaks í liðskiptaaðgerðum sem samið var um við FSA á síðustu mánuðum þessa árs; ég nefni 80 milljón króna framlags sem ætlað er til slíks átaks á næsta ári og FSA mun án efa taka þátt í að hrinda í framkvæmd; og ég nefni framlög til sjúkraflugs frá Akureyri sem er mikið öryggismál fyrir íbúa á norðurhluta landsins. Ég vona að með þessum viðbótum, góðri samvinnu, og jafn góðri stjórnun og hér hefur verið viðhöfð um árabil, takist Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri að halda uppi jafn metnaðarfullu og góðu starfi, hér eftir sem hingað til.

- - -

Margir mikilvægir áfangar hafa náðst á liðnum árum í uppbyggingu hér á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Ný glæsileg álma hefur risið við sjúkrahúsið, sú sem við erum stödd í í dag, en sem því miður hefur ekki komist að fullu í notkun. Endurhæfingarlaug hefur verið tekin í notkun í Kristnesi; skurðstofurnar og gjörgæsludeildin hér eru eins og best gerist; barnadeildin hefur flutt í þessa nýju álmu og með því skapast hin bestu skilyrði til að sinna sjúkum börnum og fjölskyldum þeirra; hér á eftir verður formlega opnaður tengigangur milli aðalbyggingar og Sels, sem mun bæta alla aðstöðu fyrir starfsmenn, bæta þjónustu og auka öryggi þeirra öldruðu einstaklinga sem dvelja í Seli. Allir þessir áfangar hafa náðst fram, ekki hvað síst vegna metnaðar heimamanna og vil ég þakka það.

Ég vil að lokum þakka stjórnendum og starfsfólki Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri fyrir þeirra góða starf, þakka gott samstarf þann tíma sem ég hef gengt starfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og óska stofnuninni, starfsfólki hennar og ekki síst þeim sem hingað þurfa að leita eftir þjónustu, allra heilla.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum