Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Framsöguræða vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir

Framsöguræða heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra
vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir




Virðulegi forseti,

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir nr. 6/2002.

Í kjölfar gildistöku tilskipunar nr. 2001/37/EB var Tóbaksvarnanefnd falið að semja drög að frumvarpi vegna lögleiðingar tilskipunarinnar hér á landi. Tóbaksvarnanefnd skilaði ráðuneytinu drögum að frumvarpi í október 2001 en starfsmenn ráðuneytisins hafa unnið að endanlegri gerð í samráði við nefndina.

Í forsendum tilskipunarinnar er bent á nauðsyn þess að ryðja úr vegi viðskiptahindrunum á innra markaði sambandsins vegna mismunandi ákvæða í aðildarríkjunum um framleiðslu,kynningu og sölu á tóbaki. Þar er sagt að setja þurfi um þessi mál sameiginlegar reglur þar sem aðildarríkin geti við sérstakar aðstæður gert þær kröfur sem þau telja nauðsynlegar til að tryggja heilsuvernd.

Með tilskipuninni voru felldar úr gildi eldri tilskipanir sem einnig stefndu að samræmingu. Hin fyrri fjallaði um merkingu tóbaks, hin síðari um leyfilegt hámark tjöru sem sígarettur mega gefa frá sér. Nýja tilskipunin fjallar um hvort tveggja en tekur til mun víðara sviðs. Felur hún í sér í senn verulegar breytingar og veigamikil nýmæli.

Frumvarpið miðar að því að samræma íslensk lög og stjórnsýslufyrirmæli þessari tilskipun en sum ákvæði hennar verða útfærð nánar í reglugerðum. Í október s.l var sett reglugerð um þau ákvæði tilskipunarinnar sem þegar hafa lagastoð, en þar er um að ræða ný ákvæði um viðvaranir um skaðsemi tóbaks og aðrar upplýsingar á tóbakspökkum. Fela þau m.a. í sér að reitir fyrir viðvaranir stækka mikið frá því sem nú er krafist og skýr fyrirmæli um hönnun og útlit þessara merkinga. Krafa um viðvörunarmerkingar er nú í 6. gr. laga nr. 6/2002 en þar er heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra veitt heimild til að kveða nánar á um þær í reglugerð. Greininni er lítillega breytt í frumvarpinu til samræmingar. Fyrirhugað er að setja nýja reglugerð eftir gildistöku laga þessara, þar sem settar verða nánari reglur um mælingar og hámark skaðlegra efna í tóbaki og kveðið á um hámark, ekki aðeins á tjöru heldur einnig níkótíni og kolsýringi sem sígarettur gefa frá sér.

Í frumvarpinu er ákvæði sem lögleiðir bann við tilteknum heitum og táknum á umbúðum tóbaks sem gefa í skyn að varan sé ekki eins skaðleg og annað tóbak.

Í frumvarpinu eru nú gerðar kröfur til framleiðenda varðandi upplýsingar um innihaldsefni í tóbaki og lýsingar á vörunni. Krefja má þá eða innflytjendur um að gera ýmsar prófanir sem innlend yfirvöld kveða á um til þess að meta magn efna sem tóbak gefur frá sér og til að meta áhrif þeirra á heilsuna. Gert er skylt að krefja þessa aðila um skrá yfir öll innihaldsefni sem þeir nota við framleiðslu tóbaksvöru og því ítarlega lýst hvernig
sú skrá skuli úr garði gerð.

Í frumvarpinu er heilbrigðisyfirvöldum heimilað að krefjast upplýsinga og rannsókna samkvæmt framansögðu.

Tilskipuninni í heild og lögleiðingu hennar er ætlað að efla tóbaksvarnir í landinu.

Helstu nýmæli sem felast í frumvarpinu eru:
– Merkja skal sígarettupakka með upplýsingumumhve mikinn kolsýring hver sígaretta gefur frá sér, til viðbótar við slíkar upplýsingar um tjöru og nikótín.
– Bannað er frá og með 30. september 2003 að hafa á umbúðum tóbaks heiti, vörumerki og annars konar texta eða tákn sem gefa í skyn að varan sé ekki eins skaðleg og annað tóbak.
– Tóbaksframleiðendum og -innflytjendum er gert skylt að veita heilbrigðisyfirvöldum upplýsingar um efnainnihald tóbaks svo sem þau mæla fyrir um.
– Tóbaksframleiðendum og -innflytjendum er gert skylt að leggja fram sýnishorn af vörunni eða gera rannsóknir sem heilbrigðisyfirvöld krefja þau um og eru nauðsynlegar til að meta eiginleika og áhrif hennar.
– Tóbaksframleiðendum er gert skylt að standa straum af kostnaði við upplýsingar um efnainnihald tóbaks og rannsóknir á því.

Virðulegi forseti.

Í ræðu minni hef ég lauslega farið yfir aðdraganda þess að ég legg fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbvaksvarnir.

Ég tel mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga á þessu þingi og leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til háttvirtrar heilbrigðis- og tryggingamálanefndar og til annarrar umræðu.

_____________
Talað orð gildir




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum