Hoppa yfir valmynd
18. mars 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Kvennaathvarfið fær styrk til að styðja konur í öruggt húsnæði

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.  - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, hafa veitt Kvennaathvarfinu styrk til verkefnis sem felst í því að styðja konur í að komast í öruggt húsnæði. Samhliða verður þeim veitt viðeigandi ráðgjöf en unnið er út frá hugmyndafræði um „húsnæði fyrst“ (e. Housing first) þar sem markmiðið er að þolendum heimilisofbeldis sé tryggt öruggt húsnæði og stuðningur til þess að hefja nýtt og öruggara líf.. Verkefnið var ein af aðgerðatillögum aðgerðateymis gegn ofbeldi sem skipað var í maí 2020 og er eitt af viðbrögðum stjórnvalda við áhrifum Covid-19 faraldursins. Teymið er skipað þeim  Eygló Harðardóttur og Sigríði Björk Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóra.

Verkefnið byggir á tilraunaverkefni sem Washington State Coalition Against Domestic Violence setti af stað árið 2009 til fimm ára um um aðlögun „húsnæði fyrst“ hugmyndafræðinnar að þolendum heimilisofbeldis. Frá þeim tíma hefur aðferðafræðin verið nýtt hjá neyðarathvörfum út um öll Bandaríkin. Áherslan í „húsnæði fyrst“ hugmyndafræðinni er að tryggja þolendum ofbeldis sem fyrst varanlegt húsnæði, en húsnæðisöryggi er talið vera forsenda þess að þolandi geti unnið úr afleiðingum ofbeldisins og byggt upp líf án ofbeldis. Stuðningur við þolendur er áfallamiðaður og sveigjanlegur, ásamt því að byggð er upp náin og góð samvinna við aðra lykilaðila til þess að hægt sé að tryggja þolendum varanlegt húsnæði til viðbótar við þau húsnæðisúrræði sem neyðarathvarfið á sjálft. 

Í verkefninu er megináhersla lögð á að aðlaga þjónustuna að húsnæðisþörfum þeirra kvenna sem dvelja í Kvennaathvarfinu og barna þeirra. Kvennaathvarfið fær svigrúm til að bregðast við aðstæðum sem geta komið upp vegna heimsfaraldursins og sóttvarnareglna með sambærilegum hætti og gert var í vor, líkt og að leigja viðbótarhúsnæði ef nauðsyn krefur.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Það er afar ánægjulegt að þetta verkefni sé orðið að veruleika og ég er sannfærður um að þetta auðveldi þeim konum sem verða fyrir ofbeldi að byggja upp nýtt líf. Þær geti einbeitt sér að því að vinna úr afleiðingum ofbeldisins án þess að hafa áhyggjur af húsnæði fyrir sig og börn sín. Starfið sem unnið er í Kvennaathvarfinu er ótrúlega mikilvægt og við viljum greiða aðgengi þeirra kvenna sem þurfa á stuðningi og ráðgjöf að halda vegna ofbeldis.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra: „Að stíga út úr ofbeldissambandi krefst hugrekkis og óttinn við óvissa framtíð er ein af hindrunum þess að komast út úr ofbeldissambandi. Stuðningur við konur sem eru að stíga sín fyrstu skref út úr vítahring ofbeldissambands er mikilvægur liður í að yfirstíga áföll sem fylgja slíku og búa sér og sínum eðlilegt líf.“

Aðgerðarteymi gegn ofbeldi var skipað sem viðbragð stjórnvalda við áhrifum Covid-19 faraldursins en á tímum efnahagsþrenginga og áfalla er viðbúið að ofbeldi aukist og í því ljósi ákváðu stjórnvöld að grípa til markvissra aðgerða og vitundarvakningar gegn ofbeldi, einkum heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum