Hoppa yfir valmynd
4. október 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 28. sept. - 4. okt. 2002

Fréttapistill vikunnar
28. september - 4. október



Skipaður starfshópur sem gera á tillögur um úrræði fyrir alvarlega geðsjúka einstaklinga

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu um skipan starfshóps sem hafa á það hlutverk m.a. að gera tillögur um úrræði fyrir alvarlega sjúka einstaklinga. Tillagan var svona: "Lagt er til að sett verði á laggirnar þriggja manna nefnd, skipuð fulltrúum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis, sem hafi það hlutverk að fara yfir möguleg úrræði fyrir alvarlega geðsjúka einstaklinga, gera tillögur um úrræði í hverju og einu tilviki og grípa til viðeigandi aðgerða til að tryggja að þau úrræði nái fram að ganga." Í nefndinni eru Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, sem jafnframt er formaður, Stefán Eiríksson skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti og Þór G. Þórarinsson skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneyti.

TR sýknuð af öllum kröfum í dómi sem varðar skerðingu bóta vegna tekna maka
Héraðsdómur hefur sýknað TR (Tryggingastofnun ríkisins) af öllum kröfum konu sem höfðaði mál gegn TR vegna skerðingar bóta sem hún taldi óréttmæta. Niðurstaða Héraðsdóms felur í sér að lög sem Alþingi setti í kjölfar svokallaðs öryrkjadóms Hæstaréttar stangast ekki á við hæstaréttardóminn, eins og Öryrkjabandalag Íslands hélt fram. Samkvæmt umræddum öryrkjadómi sem féll í Hæstarétti árið 2000 var TR óheimilt að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap vegna tekna maka á þann hátt sem gert var. Sérstakur starfshópur sem settur var á laggirnar í kjölfar dómsins komst að þeirri niðiurstöðu að í dóminum fælist ekki að óheimilt væri að láta tekjur maka hafa áhrif á tekjutryggingu örorkulífeyrisþega svo framarlega sem réttur þeirra til lágmarkslífeyris væri tryggður. Voru í kjölfarið sett lög á Alþingi þar sem viðmiðum um lágmarkslífeyri var breytt. Einnig var ákveðið að örorkulífeyrisþegar fengju greiddar bætur samkvæmt lögunum fjögur ár aftur í tímann en þó ekki lengur vegna fyrningarlaga. Konan sem höfðaði málið gegn TR naut örorkulífeyris en fékk ekki tekjutryggingu vegna ákvæða laga um að tekjur maka skertu þá tryggingu. Hún krafðist greiðsna fyrir árin 1994 - 1996 og fullrar tekjutryggingar árin 1999 - 2000 en óumdeilt var að hún hefði fengið fulla tekjutryggingu allt þetta tímabil ef tekna maka hennar hefði ekki notið við. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að kröfur um tekjutryggingu fyrir árin 1994 - 1996 væru fyrndar. Vegna kröfu um fulla tekjutryggingu vísar héraðsdómur m.a. til þess að í dómi Hæstaréttar segi að það geti átt við málefnaleg rök að styðjast að gera nokkurn greinarmun á greiðslum úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi er í sambúð eða ekki. Héraðsdómur taldi að í dómi Hæstaréttar hefði hvergi hafa verið tekið fram að skerðing tekjutryggingar öryrkja í hjúskap vegna tekna maka stangaðist á við stjórnarskrá. Héraðsdómur féllst ekki á að stefnandi hefði sýnt fram á að lögin sem sett voru árið 2001 í kjölfar hæstaréttardómsins tryggðu ekki öryrkja í hjúskap fullnægjandi rétt til að taka þátt í framfærslu fjölskyldu sinnar. Þá hefði heldur ekki verið sýnt fram á að bráðabirgðaákvæði í lögunum mismunaði kynjunum, hvorki beint eða óbeint. Í janúar 2001 sendi lögmaður Öryrkjabandalags Íslands TR bréf þar sem fram kom að litið væri svo á að fyrirhugaðar greiðslur til örorkulífeyrisþega vegna hæstaréttardómsins væru ekki í samræmi við niðurstöður hans. Var því lýst yfir af hálfu bandalagsins fyrir hönd allra þeirra sem það rak fyrra málið fyrir, að greiðslum væri veitt viðtaka með þeim fyrirvara að þeir teldu greiðslurnar í ósamræmi við hæstaréttardóminn. TR svaraði bréfinu svo að stofnunin gæti ekki fallist á að Öryrkjabandalagið kæmi fram fyrir hönd allra þeirra einstaklinga sem hagsmuna ættu að gæta, en stofnunin myndi hlíta niðurstöðu í dómsmáli sem einstaklingur kynni að höfða í tilefni af dóminum.

Fjórða norræna ráðstefnan um fjarlækningar
Dagana 30. september til 2. október sl. var Fjórða norræna ráðstefnan um fjarlækningar haldin í Tromsö í Noregi. Rástefnan er haldin á tveggja ára fresti og voru þátttakendur núna um 400 víðs vegar að úr heiminum eða frá 28 löndum. Þessi ráðstefna skar sig að ýmsu leyti úr fyrri ráðstefnum vegna þess að nú er hagnýting upplýsingatækninnar komin lengra á Norðurlöndum en fyrir nokkrum árum. Flest landanna eru að byggja upp víðtæk heilbrigðisnet fyrir rafræn samskipti og sendingar innan heilbrigðisþjónustunnar. Á mörgum sviðum eru fjarlækningar ekki lengur tilraunastarfsemi heldur hluti af þeirri þjónustu sem veitt er á hverjum stað. Jafnframt er áherslan í vaxandi mæli á þjónustu við notendur. Hin barnslega gleði tæknimannsins hefur vikið fyrir öryggi og vellíðan sjúklingsins. Á fyrsta degi ráðstefnunnar gerðu fulltrúar heilbrigðisráðuneyta á Norðurlöndum grein fyrir stefnu ráðuneytanna í upplýsingmálum og fjarlækningum innan heilbrigðiskerfisins. Af hálfu Íslands gerði Ingimar Einarsson, skrifstofustjóri áætlana- og þróunarskrifstofu, grein fyrir stöðu mála hér á landi í einum inngangsfyrirlestra ráðstefnunnar. Meginstarf ráðstefnunnar fór síðan fram á sérstökum málþingum sem haldin voru samhliða. Þar var m.a. fjallað um heilbrigðisnet og nýja þjónustu, samskipti notenda við heilbrigðisþjónustuna um Internetið, fjarnám heilbrigðisstétta, fjarlækningar á sviði bráðalækinga, hagnýtingu fjarlækninga, öryggismál, "sýndarveruleika" í fjarlækningum, fjarlækningar á hafi úti og þjónustu við sjúklinga í heimahúsum. Þorgeir Pálsson, sviðsstjóri og verkefnisstjóri heilbrigðisnets, og læknarnir Sigurður Ásgeir Kristinsson og Margrét Valdimarsdóttir við Landspítala - Háskólasjúkrahús fluttu fyrirlestra og stjórnuðu fundum á ráðstefnunni. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á netslóðinni: www.nortelemed.com Þar verða fljótlega birtir útdrættir úr öllum erindum sem haldin voru á ráðstefnunni.

Evrópvika gegn krabbameini 7. - 13. október 2002
Evrópusamtök krabbameinsfélaga hafa sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í tilefni Evrópuviku gegn krabbameini:
,,Við styðjum réttindi krabbameinssjúklinga vegna þess að krabbamein er meðal algengustu orsaka sjúkdóma og dauða í Evrópu. - Vegna þess að krabbamein er sjúkdómur sem snertir konur og karla á öllum aldri, baráttan við það er langvinn og hefur í för með sér mikla röskun á lífi þeirra fjölskyldna sem í hlut eiga. - Vegna þess að krabbameini fylgir ótti og hann hindrar samskipti og miðlun upplýsinga. - Vegna þess að afleiðingar krabbameins, fjárhagslegar jafnt sem félagslegar, geta reynst fólki þungbærar. - Vegna þess að með nýjustu framförum á sviði greiningar og meðferðar kunna að opnast möguleikar til að koma í veg fyrir sum krabbamein eða greina þau á frumstigi, til að stuðla að því að sjúklingar með krabbamein lifi mun lengur og til að nýta erfðafræðilega þekkingu í lækningaskyni. - Vegna þess að það er vilji sjúklinga að fá að taka virkan þátt í samstarfinu. Við styðjum réttindi sjúklinga; til þess að gripið verði til árangursríkra aðgerða með hraði, - til þess að bæta úr brýnni þörf, - til þess að flýta fyrir árangri í þágu allra þjóða Evrópu."
MEIRA...

Launagjöld við LSH 4,7% umfram áætlun og rekstrargjöld 6,5% umfram áætlun
Rekstraruppgjör Landspítala - háskólasjúkrahúss eftir fyrstu átta mánuði ársins sýnir 685 milljónir kr. umfram fjárheimildir sem er 4,4% frávik frá heimildum sjúkrahússins. Til viðbótar nemur kostnaður við S-merkt lyf 200 m.kr. umfram fjárveitingar. Þetta kemur fram í greinargerð framkvæmdastjóra fjárreiðna sjúkrahússins með Stjórnunarupplýsingum ágúst 2002. Launagjöld nema rúmum 67% af heildarútgjöldum sjúkrahússins. Ein meginástæða launakostnaðar umfram áætlun er aukin þátttaka starfsmanna í séreignarsjóðum sem skyldar sjúkrahúsið til að greiða mótframlag. Á heilu ári greiðir LSH um 150 milljónir króna sem mótframlag í séreignarsjóði. Helstu skýringar þess að rekstrarkostnaður er umfram áætlun er mikil hækkun á verðlagi og gengi á síðasta ári, umfram forsendur fjárlaga. Í öðru lagi veldur aukin starfsemi, sérstaklega á skurðstofum spítalans hækkun rekstrarkostnaðar. Biðlistar eftir þjónustu sjúkrahússins eru birtir í stjórnunarupplýsingum LSH að þessu sinni. Í greinargerð framkvæmdastjóra kemur fram að umtalsverð fjölgun hefur orðið á skurðaðgerðum við sjúkrahúsið á þessu ári, gagngert til að stytta biðlista eftir aðgerðum. Mjög hagkvæmt sé að nýta vel afkastagetu skurðstofa og skurðdeilda þar sem fastur kostnaður er verulegur og þegar greiddur.   Þá kemur fram að Í samráði við heilbrigðisyfirvöld verði áfram unnið samkvæmt þeirri stefnu að fjölga skurðaðgerðum um a.m.k. 10% í ár en endurskoðun mun fara fram í lok árs þegar fjárlög ársins liggja fyrir. 
NÁNAR...

Barnshafandi konur varaðar við áfengisneyslu og annarri vímuefnanotkun
Landlæknir hvetur barnshafandi konur til að neyta hvorki áfengis né annarra vímuefna í bæklingnum Vímuefni og meðganga sem kominn er út. Tilgangur með útgáfu bæklingsins er að vekja verðandi foreldra til umhugsunar um skaðsemi áfengis- og vímuefnaneyslu á fóstur og nýbura. Vitað er að svokölluð hófdrykkja barnshafandi kvenna getur valdið fósturskaða og að hættan eykst í takt við aukna neyslu. Fóstrið er í hættu alla meðgönguna en hugsanlegur skaði er mismunandi eftir því á hvaða þroskastigi heili fóstursins er. Líffæri fóstursins eru ekki nægilega þroskuð til að brjóta áfengi niður og það verður því fyrir meiri áhrifum en móðirin. Bæklingurinn er gefinn út af Áfengis- og vímuvarnaráði í samvinnu við Landlæknisembættið og Miðstöð mæðraverndar. Sólveig Jónsdóttir, sérfræðingur í klínískri taugasálfræði barna, veitti ráðgjöf. Í tengslum við útkomu bæklingsins mun Miðstöð mæðraverndar í vetur standa fyrir fræðslu um vímuefni og meðgöngu fyrir fagfólk. Verðandi foreldrum verður afhentur bæklingurinn við fyrstu skoðun á meðgöngu.
NÁNAR...

Heilbrigðisáætlun til ársins 2010 á dagskrá hjúkrunarþings Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í nóvember
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga efnir til hjúkrunarþings þann 15. nóvember n.k., kl. 9:00-17:00, í Rúgbrauðsgerðinni Borgatúni 6, Reykjavík. Á þinginu verður fjallað um Heilbrigðisáætlun til ársins 2010, hlutverk hjúkrunarfræðinga í áætluninni og á hvern hátt hjúkrunarfræðingar geti stuðlað sem best að því að markmiðum áætlunarinnar verði náð. Fjallað verður sérstaklega um forgangsverkefni heilbrigðisáætlunar sem eru áfengis-, vímuefna- og tóbaksvarnir, börn og ungmenni, eldri borgarar, geðheilbrigði, hjarta og heilavernd, krabbameinsvarnir og slysavarnir.
NÁNAR...

Fjárheimildir vegna heilbrigðis- og tryggingamála hækka um tæpa 3 milljarða króna samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga
Frumvarp til fjáraukalaga var lagt fram á Alþingi í dag, en fjáraukalög eru í raun viðauki við fjárlög síðasta árs. Í frumvarpinu er lagt til að fjárheimildir vegna heilbrigðis- og tryggingamála verði hækkaðar um tæplega 3 milljarða króna, mest vegna hallareksturs sjúkrastofnana og sjúkratrygginga. Gert er ráð fyrir að þar af fari 1.200 milljónir króna til Landspítala - háskólasjúkrahúss.
FJÁRAUKALÖG 2002... (skjalið er væntanlegt á heimasíðu Alþingis - hægt er að fá tilkynningu þegar það er tilbúið)
FJÁRLÖG 2003...




Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
4. október 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum