Hoppa yfir valmynd
18. október 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 12. - 18. október 2002

Fréttapistill vikunnar
12. - 18. október


Frá ársfundi TR: Gera þarf lífeyrissjóðakerfið skilvirkara og einfaldara

Fyrr en síðar þarf að endurskoða lífeyristryggingakerfið og huga að nýjum leiðum til að gera það skilvirkara og einfaldara. Þetta kom m.a. fram í ávarpi Bolla Héðinssonar, formanns tryggingaráðs á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins 11. október. Bolli sagði allar ríkisstjórnir síðustu áratuga hafa einsett sér að ráðast í endurskoðun lífeyristryggingakerfisins frá grunni. Slíkt væri hins vegar ekki áhlaupaverk og því byggjum við enn við óþarflega margbrotið og óaðgengilegt kerfi, þótt það hefði skilað lífeyristryggingum sem þjóðin gæti verið stolt af. Um endurskoðun kerfisins nefndi Bolli hugmynd um aukið hlutverk lífeyrissjóða í landinu við framkvæmd greiðslu lífeyristryggingabóta og almannatrygginga: "Vel mætti hugsa sér að lífeyrissjóðirnir tækju það að sér, hver og einn, að sjá um allar greiðslur til sjóðfélaga sinna, bæði eigin greiðslur og greiðslur almannatrygginga.  Sæju sjóðirnir þá um það í umboði ríkisins, sem fjármagnaði greiðslurnar, en lífeyristryggingaþátturinn hyrfi með öllu frá Tryggingastofnun.  Ég held enn að hér hafi lífeyrissjóðirnir hlutverki að gegna sem þeir geta sem hægast tekið við af ríkisvaldinu."
ÁVARPIÐ Í HEILD...

Ráðstefna um Íslenska heilbrigðisnetið í Salnum fimmtudaginn 14. nóvember 2002
Á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hefur undanfarin ár verið unnið að þróun heilbrigðisnets fyrir heilbrigðiskerfið, eða frá því samþykkt var stefnumótun ráðuneytisins í upplýsingamálum heilbrigðiskerfisins árið 1997. Íslenska heilbrigðisnetið, sem verður farvegur rafrænna samskipta innan heilbrigðisþjónustunnar, mun tengja saman íslenskar heilbrigðisstofnanir samkvæmt öryggis- og samskiptareglum. Fjölmörg þróunarverkefni í tengslum við netið eru í gangi núna, samkvæmt verkefnaáætlun frá árinu 2001, en gert er ráð fyrir að á næsta ári liggi fyrir helstu niðurstöður og að á árinu 2005 verði kominn vísir að mjög víðtæku heilbrigðisneti á Íslandi. Heilbrigðisnetið mun ná yfir samskipti og sendingar milli stofnana á borð við sjúkrahús og heilsugæslustöðvar og heimilislækna. Þættir heilbrigðisnetsins eru fjölmargir. Þeir lúta að innritunum og útskrift, vottorðum, lyfseðlum, endurgreiðslu lyfseðla, útgáfu reikninga, rannsóknarbeiðnum og svörum, röntgenbeiðnum og svörum, beiðnum um sérfræðiálit, tilvísunum, samræmdri slysaskráningu, starfi rannsóknaraðila, samskiptum við erlenda samstarfsaðila, myndum, úrlestri og túlkun upplýsinga, fjarlækningum, ráðgjöf og viðtölum, læknisþjónustu og upplýsingum úr sjúkraskrám. Ennfremur er gert ráð fyrir að almenningur geti haft rafræn samskipti við heilbrigðiskerfið eftir sérstökum reglum. Fimmtudaginn 14. nóvember verður haldin ráðstefna um íslenska heilbrigðisnetið í Salnum í Kópavogi frá kl. 13:00 - 17:00. Þar verður gerð grein fyrir stöðu verkefnisins, framtíðarsýn og möguleikum sem opnast til þess að bæta heilbrigðisþjónustuna ásamt þeim áhrifum sem tilkoma heilbrigðisnetsins mun hafa á störf heilbrigðisstarfsfólks.
DAGSKRÁ RÁÐSTEFNUNNAR... (Pdf.-skjal)

Rætt um þörf fyrir aukna öryggisgæslu á sjúkrahúsum
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra segist styðja áform um aukna öryggisgæslu á sjúkrastofnunum í samræmi við vaxandi þörf og er verið að skoða ýmislegt í þeim efnum á vegum ráðuneytisins og sjúkrastofnana. Málið var rætt á Alþingi í vikunni að frumkvæði Margrétar Frímannsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Gerði hún að umtalsefni hættu sem stafað getur af fíklum sem leggjast inn á sjúkrahús og geta verið sjálfum sér og öðrum hættulegir vegna fíknar sinnar í lyf sem geymd eru inni á sjúkrahúsum. Í svari ráðherra kom m.a. fram að samkvæmt upplýsingum stjórnenda Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri kostar um 10 milljónir króna á ári að setja upp og reka sex til tíu öryggismyndavélar tengdar tölvukerfi sjúkrahússins. Á Landspítala - háskólasjúkrahúsi er stefnt að fjölgun öryggismyndavéla og þar hefur raunar þegar verið gripið til aukinna öryggisráðstafana, m.a. með sérstökum öryggisdeildum sem gæta að umferð, tryggja öryggi sjúklinga og gesta og vakta öryggiskerfi. Ráðherra sagði að á fleiri stofnunum væri stefnt að aukinni öryggisgæslu og meiri takmörkunum á aðgangi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið undirbýr landskönnun á ánægju sjúklinga með heilbrigðisþjónustuna
Hvaða augum líta sjúklingar gæði þeirrar þjónustu sem þeir njóta á sjúkrahúsum? Þetta var viðfangsefni Margrétar Björnsdóttur, deildarstjóra á áætlunar- og þróunarskrifstofu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í rannsókn sem hún gerði á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH) en hún fjallaði um efnið í meistaraprófsritgerð sinni við hjúkrunardeild Háskóla Íslands sem hún varði nýlega. Tilgangur rannsóknarinnar var að þýða og forprófa stytta útgáfu af sænskum spurningalista sem metur gæði heilbrigðisþjónustu frá sjónarhóli sjúklings og jafnframt að nýta spurningalistann til að kanna þetta innan LSH. Niðurstöðurnar sýndu meðal annars að sjúklingar mátu hæst gæði þjónustunnar sem snúa að faglegri færni en aðbúnaður fékk lægsta einkunn. Þá reyndust yngri sjúklingar síður ánægðir með þjónustuna en þeir sem eldri voru. Greining og áreiðanleikapróf sýndu fullnægjandi innri áreiðanleika og réttmæti spurningalistans í íslenskri þýðingu. Niðurstöður rannsóknanna má nýta við umbótastarf og sem fyrr segir hyggst ráðuneytið nú gera landskönnun á ánægju sjúklinga með þjónustu þar sem þessum spurningalista er beitt. Nánar er sagt frá þessu á Gæðavef heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins sem opnaður var formlega í vikunni.
NÁNAR...

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
18. október 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum