Hoppa yfir valmynd
7. desember 2018 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að reglugerð um lögheimili og aðsetur birt í samráðsgátt

Drög að reglugerð um lögheimili og aðsetur hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda en hægt er að senda umsögn um þau til og með miðvikudagsins 19. desember nk. Markmið reglugerðarinnar að stuðla að réttri skráningu lögheimilis og aðseturs einstaklinga á hverjum tíma. Alþingi samþykkti í júní ný lög um lögheimili og aðsetur sem taka gildi 1. janúar 2019 og leysa af hólmi lög um lögheimili nr. 21/1990 og lög um tilkynningar aðsetursskipta nr. 73/1952. Reglugerð þessi á að vera hinum nýju lögum til fyllingar en í henni er að finna orðskýringar, nánar um framkvæmd eftirlits, aðsetur og dulið lögheimili svo einhver dæmi séu nefnd.

Meðal nýjunga í reglugerðinni er að hægt verður að tilkynna um breytingu á lögheimili innanlands rafrænt eða á starfstöðvum Þjóðskrár Íslands. Að auki má tilkynna flutning til landsins á starfsstöð lögreglu í viðkomandi umdæmi. Þjóðskrá Íslands ber síðan að senda tilkynningu í pósthólf þinglýsts eiganda fasteignar á Ísland.is eða senda tilkynningu í formi tölvupósts á tölvupóstfang þinglýst eiganda fasteignar á Ísland.is þegar breytingar á lögheimili verða á eign hans. Þá er heimilt að senda tilkynningu um tölvupóstinn í farsíma þinglýst eiganda í formi smáskilaboða. Þar með getur eigandi fasteignar brugðist við ef einstaklingur verður ranglega skráður með lögheimili í fasteign í hans eigu.

Einnig kemur fram í reglugerðinni að einstaklingur og fjölskylda á sama lögheimili getur óskað eftir því að fá lögheimili sitt dulið. Í því felst að lögheimili sé ekki miðlað til annarra en tiltekinna opinberra aðila. Einstaklingur sem óskar eftir því að lögheimili hans og fjölskyldu hans sé dulið þarf að sýna fram á það með staðfestingu frá lögreglustjóra að hann og fjölskylda hans sé í hættu. Beiðni um dulið lögheimili getur einnig komið frá lögreglustjóra. Í lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur er sérstaklega tilgreint að 7. grein sem fjallar um dulið lögheimili taki gildi 1. janúar 2020, eða ári síðar en aðrar greinar laganna.

Skoða drög að reglugerð um lögheimili og aðsetur í samráðsgátt

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira