Hoppa yfir valmynd
29. október 2010 Innviðaráðuneytið

Samgöngur í Eyjafirði ræddar hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar efndi á miðvikudag til fundar þar sem rætt var um samgöngumál í Eyjafirði og nágrenni í víðu samhengi. Í lok fundar voru afhentir styrkir til nokkurra verkefna frá vaxtarsamningi Eyjafjarðar.

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar - fundað um samgöngumál
Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar - fundað um samgöngumál

Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flutti ávarp á fundinum en auk hans töluðu þeir Jón Þorvaldur Heiðarsson, frá Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri, sem ræddi almenningssamgöngur í Eyjafirði, Ásgeir Ívarsson, frá verkfræðistofunni Mannviti, sem fjallaði um tækifæri Eyjafjarðar sem tengjast nýjum orkugjöfum og Hjalti Páll Þórarinsson greindi frá verkefnum og framtíðarhorfum varðandi vaxtarsamning Eyjafjarðar.

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar - fundað um samgöngumálÍ ávarpi sínu rifjaði Ögmundur Jónasson upp í byrjun að samgöngur snertu öll svið þjóðfélagsins og að margs konar samfélagsleg markmið kæmu fram í stefnu samgönguáætlunar sem snerust meðal annars um að byggja upp samgöngukerfi á hagkvæman hátt og leggja með því grunn að búsetu og velferð. Hann sagði samgönguframkvæmdir gjöbreyta aðstöðu byggðarlaga og minntist á Héðinsfjarðargöngin í því sambandi. Sagði hann forvitnilegt að fylgjast með niðurstöðum rannsóknar Háskólans á Akureyri á áhrifum ganganna. Einnig minntist ráðherra á strandsiglingar og nýlega skýrslu sem benti til þess að þær gætu verið hagkvæmar. Sagði hann næsta skref að kanna hug fyrirtækja á þessu sviði til að kanna til hlýtar hvort unnt væri að taka þær upp að einhverju leyti á ný.

Meðal verkefna sem vaxtarsamningur Eyjafjarðar styður á þessu ári er ráðning verkefnisstjóra vegna átaks í kynningu og markaðssetningu á millilandaflugi til Akureyrar 2011 sem Markaðsskrifstofa Norðurlands hefur frumkvæði að. Hjalti Páll Þórarinsson greindi frá helstu verkefnum og framtíðarhorfum varðandi vaxtarsamning Eyjafjarðar og afhenti hann nokkra styrki, meðal annars vegna framangreinds verkefnis. Ásbjörn Björgvinsson tók við styrknum hjá Hjalta Páli.

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar - fundað um samgöngumálVaxtarsamningurinn leggur til helming kostnaðar og viðkomandi verkefni mótframlag en markmið vaxtarsamningsins sem verið hefur við lýði frá 2004 er að efla nýsköpun í atvinnulífi á starfssvæði atvinnuþróunarfélagsins og auka hagvöxt með því að ýta undir samstarf fyrirtækja, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum