Hoppa yfir valmynd
1. september 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Aðgerðir gegn misnotkun á ritalini

Heilbrigðisráðherra hefur skipað vinnuhóp til að skipuleggja aðgerðir til að draga úr ofnotkun og koma í veg fyrir misnotkun á methýlphenídati, sem birtist umfram allt í mikilli notkun á Ritalini og Ritalin Uno.

Landlæknisembættinu og Lyfjastofnun hefur verið falið að grípa strax til aðgerða til að herða eftirlit með ávísunum og takmarka afgreiðslu þessara lyfja við þann hóp sem sannanlega þarf á lyfjunum að halda.

Vinnuhópnum er ætlaður 2ja mánaða tími til að endurskipuleggja alla meðferð lyfjaflokksins, þ.m.t. endurskoðun á klínískum leiðbeiningum og aðrar þær aðgerðir sem hópurinn telur nauðsynlegar. Jafnframt er vinnuhópnum falið að tryggja að þeir sem þurfa á meðferð með þessum lyfjum að halda skaðist ekki, en það eru einkum börn og ungmenni upp að 20 eða 22ja ára aldri.

Hópinn skipa eftirtaldir:
Einar Magnússon, skrifstofustjóri á lyfjaskrifstofu heilbrigðisráðuneytisins, formaður
Geir Gunnlaugsson, landlæknir
Guðrún I. Gylfadóttir, deildarstjóri lyfjadeildar Sjúkratrygginga Íslands
Jóhann M. Lenharðsson, lyfjafræðingur Lyfjastofnunar.

Gríðarleg notkun kallar á hertar aðgerðir

Notkun methýlphenídat-lyfja hefur vaxið gríðarlega hér á landi á undanförnum árum og er nú tvöfalt til þrefalt meiri en á öðrum Norðurlöndum. Einkum hefur ávísunum til fullorðinna einstaklinga fjölgað og eru þeir nú rúmlega 40% allra sem fá lyfið. Aukning ávísana á methýlphenídat skýrist þannig nær eingöngu með aukinni ávísun til einstaklinga yfir 20 ára aldri, þrátt fyrir að framleiðendur ætli lyfin aðeins börnum frá 6 til 18 ára aldurs.

Staðfest hefur verið að einstaklingar sem koma til meðferðar hjá SÁÁ séu í síauknum mæli fíklar á methýlphenídat.  Sömu þróunar hefur orðið vart hjá fíklum sem leita til bráðamóttöku Landspítala og hefur yfirlæknir SÁÁ hvatt heilbrigðisráðuneytið til að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að þessi efni séu seld á götunum og notuð til að sprauta sig með. Misnotkunin virðist að mestu bundin við lyfin Ritalin og Ritalin Uno en síður við lyfið Concerta sem einnig inniheldur methýlphenídat og lyfið Strattera sem einnig er gefið við ADHD.

Meðal verkefna hópsins er:

  • Hert eftirlit með ávísunum lækna á methýlphenídat
  • Endurskoðun á vinnureglum um ávísanir á methýlphenídat, þar sem þröngar skorður eru settar við ávísunum til einstaklinga yfir 20 ára aldri
  • Að skoða hvort hægt sé að taka aftur upp svokölluð „gul kort“, sem áður voru forsenda þess að einstaklingar fengju ávísað amfetamínskyldum lyfjum
  • Skylt verði að tilkynna til landlæknis um einstaklinga sem taldir eru misnota methýlphenídat.

Það skal ítrekað að þessum aðgerðum er ekki ætlað að beinast gegn þeim sem á þessum lyfjum þurfa að halda – sérstaklega börnum og ungmennum. Í því skyni hefur ráðuneytið haft samráð við Geðlæknafélag Íslands og stjórn ADHD-samtakanna, sem leiddi m.a. til þess að ákveðið var að miða við 20 ára aldur. Aðgerðirnar eiga því í engu að skerða aðgengi barna og ungmenna að nauðsynlegum lyfjum, heldur beinast að mögulegri mis- og ofnotkun fullorðinna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum