Hoppa yfir valmynd
29. september 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Embætti ráðuneytisstjóra nýs velferðarráðuneytis auglýst laust til umsóknar

Auglýst er laust til umsóknar embætti ráðuneytisstjóra nýs velferðarráðuneytis.

Velferðarráðuneytið verður til við sameiningu heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins hinn 1. janúar 2011, sbr. lög nr. 121/2010, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum.

Helstu verkefni nýs velferðarráðuneytis varða almannatryggingar, barnavernd, félagslega aðstoð, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisþjónustu á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum, heilsugæslu, húsnæðismál, jafnréttismál, lyfjamál, lýðheilsumál, málefni aldraðra, fatlaðra, fjölskyldna og innflytjenda, skuldamál heimilanna og vinnumarkaðsmál. Þá heyra undir ráðuneytið stofnanir velferðarráðuneytisins og undirbúningur og gerð lagafrumvarpa og reglugerða í fyrrgreindum málaflokkum.

Gerð er krafa um háskólamenntun sem nýtist í starfi ásamt þekkingu og reynslu á verkefnasviði hins nýja velferðarráðuneytis. Áhersla er lögð á stjórnunarreynslu ásamt færni í mannlegum samskiptum. Jafnframt er gerð krafa um góða tungumálakunnáttu auk hæfni til að tjá sig í ræðu og riti. Einnig er mikilvægt að viðkomandi hafi þekkingu og reynslu á sviði opinberrar stjórnsýslu.

Skipað verður í starfið hið fyrsta og mun ráðuneytisstjórinn taka við embætti 1. janúar 2011. Fram til þess dags er nýtt ráðuneyti hefur starfsemi mun nýr ráðuneytisstjóri vinna að sameiningu ráðuneytanna með verkefnisstjórn.

Um laun og önnur starfskjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs, sbr. lög nr. 47/2006, með síðari breytingum.

Upplýsingar um starfið veita Böðvar Héðinsson, skrifstofustjóri í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, ([email protected]) og Sigurjón Ingi Haraldsson, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu ([email protected]).

Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun og starfsferil sendist á [email protected] eigi síðar en 13. október 2010.

Reykjavík, 28. september 2010.
Félags- og tryggingamálaráðuneytið
og heilbrigðisráðuneytið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum