Hoppa yfir valmynd
6. október 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Fjárlagafrumvarp 2011 – Útgjöld ráðuneytisins dragast saman um 4,7%

 

Áætluð heildarútgjöld heilbrigðisráðuneytisins árið 2011 nema 97,6 milljörðum króna samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem lagt hefur verið fram á Alþingi.

Útgjöld heilbrigðisráðuneytisins dragast saman um 4,7% milli ára samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2011. Lækkun útgjalda felst einkum í beinum samdráttaraðgerðum sem nema tæpum 4,8 milljörðum króna. Á móti hækka útgjöldin vegna breytinga á útgjaldaskuldbindingum um tæpar 970 milljónir króna.

Stærstu útgjaldaliðir ráðuneytisins

Um 75% útgjalda heilbrigðisráðuneytisins eru rekstrargjöld og nema þau alls 73,067 milljörðum króna. Þar vegur þyngst rekstur sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, en gert er ráð fyrir að framlag til Landspítala verði tæpir 32,9 milljarðar króna eða um 45% af rekstrarframlagi ráðuneytisins. Þessi liður dregst saman um tæpa  2,7 milljarða króna eða um 3,6% sbr. töflu, en áform ríkisstjórnar gera ráð fyrir 5,1% samdrætti frá gildandi fjárlögum á þessum útgjaldalið.

Neyslu- og rekstrartilfærslur nema um 24% af heildarútgjöldum ráðuneytisins og nema tæpum 23,7 milljörðum króna. Undir þennan lið falla aðallega útgjöld til sjúkratrygginga samtals 21,9 milljarður króna að frádregnu framlagi til svokallaðra S-merktra lyfja. Það eru lyf sem aðeins er ávísað á sjúkrahúsum og skilgreinast sem rekstrargjöld þegar horft er á hagræna skiptingu útjgalda. Undir liðinn falla einnig bætur vegna slysatrygginga og svonefnd sjúklingatrygging sem veitir sjúklingum rétt til bóta sem verður vegna meðferðar eða rannsóknar á sjúkrastofnunum sem ríkið á. Áform ríkisstjórnar gera ráð fyrir 3% samdrætti útgjalda á þessum lið.

Stofnkostnaður nemur um 1% af útgjöldum ráðuneytisins og verður 849 milljónir króna á árinu 2011. Til hans teljast einkum framlög til viðhalds, tækjakaupa og nýframkvæmda á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri, ríflega 640 milljónir króna. Þá er einnig gert ráð fyrir um 126 m.kr. framlagi til lagfæringa á húsnæði nokkurra heilbrigðisstofnana. Áform ríkisstjórnar gera ráð fyrir 10% samdrætti útgjalda á þessum lið.

Tafla yfir hagræna skiptingu útgjalda

    Fjárlög 2010 m.kr.   Frumvarp 2011 m.kr.   Breyting m.kr.   Breyting % Hlut-fallsleg skipting 2011
Rekstrargjöld 75.759 73.067 -2.692 -3,6% 75%
Neyslu- og rekstrartilfærslur 25.603 23.696 -1.907 -7,4% 24%
Stofnkostnaður 1.012   849   -163   -16,1% 1%
Samtals 102.373 97.611 -4.762 -4,7% 100%

 

Hagræðingar- og sparnaðaraðgerðir

Hagræðingaraðgerðir ráðuneytisins miða einkum að því að draga verulega úr starfsemi sjúkrasviða á heilbrigðisstofnunum, en  í  samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar eru áform um að heilbrigðisþjónustan verði „tekin til endurskoðunar með heildstæðri stefnumörkun“ og endurspeglast þær áherslur í kröfum um hagræðingu í frumvarpinu. Þá kemur einnig fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar að standa eigi vörð um grunnþjónustuna, þ.e. heilsugæsluna sem setja á í öndvegi sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu og sérhæfða sjúkrahúsþjónustu sem veitt er á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Samhliða eflingu heilsugæslunnar á landsvísu er dregið verulega úr þjónustustigi sjúkrasviða heilbrigðisstofnana. Lagðar eru fram tillögur um aðgerðir sem miða að því að efla grunnþjónustuna, m.a. sjúkraflutninga, sálfélagslega þjónustu við börn og ungmenni og heimahjúkrun. Þá miða tillögurnar einnig að því að byggja upp hjúkrun í framhaldsskólum, fjölga sérnámsstöðum í heimilislækningum og opna slysa- og/eða bráðmóttöku á heilsugæslusviði heilbrigðisstofnunar Suðurlands . Að auki er stefnt að því að hefja bólusetningu ungbarna gegn lunga- og eyrnabólgu í apríl á næsta ári. Hér er um nýmæli að ræða, forvarnaraðgerð sem mun skila ávinningi til lengri tíma.

Til grundvallar tillögum um samdrátt í útgjöldum á sjúkrasviðum heilbrigðisstofnana er reynt að meta þörf fyrir fjölda sjúkrarúma á þjónustusvæði stofnunar út frá íbúafjölda , upplýsingum um meðallegu íbúa höfuðborgarsvæðis á Landspítala og úr Kragaskýrslunni svokölluðu. Þá er samræmt það framlag sem greitt er fyrir hvert sjúkrarými á  heilsugæslusjúkrahúsi með áherslu á heilsugæslu, lyflækningar og öldrunarþjónustu auk þess að taka við tilfallandi legum m.a. sjúklingum af LSH og FSA í framhaldi af legu þar. Aðferðin kemur með ólíkum hætti niður á stofnunum. Hún getur falið í sér að hvorutveggja er verið að fækka rýmum og lækka framlag á hvert rými eða eingöngu falið í sér að verið er að fækka rýmum eða lækka framlag á rými. Fram til þessa hafa greiðsluflokkarnir verið mismunandi eftir eðli starfseminnar.

Samdráttur í sjúkratryggingum er um 3% frá gildandi fjárlögum í samræmi við áform ríkisstjórnar og felst í lækkun framlags til almennra lyfja 400 m.kr. , hjálpartækja  289 m.kr. og lækniskostnaðar 100 m.kr.,  samtals 789,0 m.kr.  Útfærsla á samdrættinum liggur ekki fyrir en ljóst að hún mun takmarka rétt sjúklinga frá því sem nú er. 

Almenna hagræðingarkrafan á ráðuneyti og stjórnsýslustofnanir er um 9% í samræmi við áform ríkisstjórnar og um 7% á tiltekna þjónustusamninga sem ráðuneytið hefur gert um kaup á þjónustu.

 

Tafla yfir skiptingu útgjalda eftir málaflokkum ráðuneytisins

      Fjárlög 2010 m.kr.   Frumvarp 2011 m.kr.   Breyting m.kr.   Breyting % Hlut-fallsleg skipting 2011
Ráðuneyti o.fl. 603 555 -48 -7,9% 1%
Tryggingamál 28.961 27.468 -1.493 -5,2% 28%
Sjúkrahús og sérstæð sjúkrahúsþjónusta 38.215 37.938 -277 -0,7% 39%
Öldrunarstofnanir og endurhæfing 9.439 9.224 -215 -2,3% 9%
Heilsugæsla 7.356 7.626 270 3,7% 8%
Heilbrigðisstofnanir 14.881 11.966 -2.915 -19,6% 12%
Stjórnsýslustofnanir 1.269 1.194 -75 -5,9% 1%
Annað     1.649   1.640   -9   -0,5%   2%
102.373 97.611 -4.762 -4,7% 100%

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum