Hoppa yfir valmynd
1. mars 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Dómar uppkveðnir árið 2008

| Hæstiréttur - dómar | Héraðsdómstólar - dómar | Félagsdómur |

Á árinu 2008 voru kveðnir upp 23 dómar sem varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess. Hér að neðan er að finna upptalningu á nefndum dómum ásamt atriðisorðum og reifunum:

1
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. janúar 2008 í máli nr. E-938/2007: B gegn Þjóðleikhúsinu.
UPPSÖGN. GREIÐSLA ORLOFS.
B var sagt upp störfum með fjögurra mánaða uppsagnarfresti. B átti inni tveggja mánaða orlof við upphaf orlofsfrests og tók B orlofið á uppsagnartímanum. B krafði Þ um greiðslu orlofs, til vara laun og til þrautavara skaðabætur vegna þeirra tveggja mánaða, sem orlofið féll inn í uppsagnarfrestinn. Byggði B m.a. á því, að um réttindi og skyldur hefði farið eftir lögum um opinbera starfsmenn. Var Þ sýknaður af kröfu B.

2
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 1. febrúar 2008 í máli nr. E-241/2007: K gegn Framhaldsskólanum á Húsavík.
RÁÐNING Í STARF. KENNARARÉTTINDI. MISKABÆTUR.
K hafði verið lausráðinn kennari við F í sjö ár er hann sótti um fast starf hjá F en fékk ekki. K hafði leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari, en í starfið var ráðinn réttindalaus kennari. Taldi K að brotið hefði verið á sér og krafðist skaða- og miskabóta. K voru í hérðasdómi dæmdar bætur vegna þess að ráðinn var réttindalaus kennari. Dómi héraðsdóms var áfýjað til Hæstaréttar, sbr. dóm Hæstaréttar frá 22. janúar 2009 í máli nr. 239/2008. Taldi Hæstiréttur að leyfi K hefði veitt K forgang í starfið umfram umsækjanda sem hafði ekki slíkt leyfi. Taldi Hæstiréttur K eiga rétt á bótum vegna hugsanlegs tjóns. Ekki voru þó taldar forsendur til að ákvarða K bætur vegna fjártjóns þar sem ekki voru lögð fram gögn sem gætu skotið stoðum undir ákvörðun bóta. K var hins vegar talinn eiga rétt til miskabóta þar sem vegið hafði verið að starfsheiðri hans.

3
E-4808/2007: H gegn Landspítala - háskólasjúkrahúsi.
SKIPULAGSBREYTINGAR. NIÐURLAGNING STARFS. UPPSÖGN.
H var ein af fimm starfsmönnum sem sagt var upp störfum. Þar sem ekki var réttilega staðið að uppsögninni voru bætur vegna fjártjóns ákveðnar að álitum 300.000 kr. Ekki var fallist á miskabótakröfu H. Sjá einnig dóm Hæstaréttar frá 10. maí 2007 í máli nr. 647/2006: S gegn Landspítala-háskólasjúkrahúsi og dómareifun frá árinu 2007 mál nr. 5.

4
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. febrúar 2008 í máli nr. E-4807/2007: R gegn Landspítala - háskólasjúkrahúsi.
SKIPULAGSBREYTINGAR. NIÐURLAGNING STARFS. UPPSÖGN.
R var ein af fimm starfsmönnum sem sagt var upp störfum. Þar sem ekki var réttilega staðið að uppsögninni voru bætur vegna fjártjóns ákveðnar að álitum 900.000 kr. Ekki var fallist á miskabótakröfu R. Sjá einnig dóm Hæstaréttar frá 10. maí 2007 í máli nr. 647/2006: S gegn Landspítala-háskólasjúkrahúsi og dómareifun frá árinu 2007 mál nr. 5.

5
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. febrúar 2008 í máli nr. E-4804/2007: A gegn Landspítala - háskólasjúkrahúsi.
SKIPULAGSBREYTINGAR. NIÐURLAGNING STARFS. UPPSÖGN.
A var ein af fimm starfsmönnum sem sagt var upp störfum. Þar sem ekki var réttilega staðið að uppsögninni voru bætur vegna fjártjóns ákveðnar að álitum 400.000 kr. Ekki var fallist á miskabótakröfu A. Sjá einnig dóm Hæstaréttar frá 10. maí 2007 í máli nr. 647/2006: S gegn Landspítala-háskólasjúkrahúsi og dómareifun frá árinu 2007 mál nr. 5.

6
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. febrúar 2008 í máli nr. E-4803/2007:: K gegn íslenska ríkinu.
VEIKINDI. HLUTAVEIKINDI. ENDURGREIÐSLA OFGREIDDRA LAUNA.
K var veik að hluta og í starfi að hluta á tímabilinu 4. febrúar 2004 til 23. október 2006, þ.e.a.s. 100% veikindi frá 4. febrúar 2004 til 7. mars 2004, 50% veikindi frá 8. mars 2004 til 31. ágúst 2004, 30% veikindi frá 1. september 2004 til 31. desember 2004, 20% veikindi frá 1. janúar 2005 til 28. febrúar 2005, 20% veikindi frá 1. september 2005 og 100% veikindi frá 23. október 2006. Óskaði S eftir því við Fjársýslu ríkisins að hún reiknaði út rétt til launa í veikindum vegna K þar sem S taldi að það væri búið að ofgreiða K laun í veikindum. Fjársýsla ríkisins reiknaði út rétt K til launa í veikindum og kom þá í ljós að K kláraði 20% veikindarétt 1. júní 2006 og 80% veikindarétt átti K frá 23. október 2006 til 22. júní 2007. Í framhaldinu áttu sér stað samskipti milli S og framkvæmdastjóra SFR. Var framkvæmdastjóra SFR gerð grein fyrir því að S ætlaði að afgreiða mál K þannig að við útreikning á fjárhæð K yrði eins staðið að málum og að K hefði fullan rétt til launa í veikindum, þ.e. K hefði 18 ára starfsaldur að baki sem gefa 360 daga rétt til launa í veikindum en starfsaldur K var rétt rúm 16 ár sem gefa 273 daga rétt til launa í veikindum. Rökin fyrir þessari tilhögun voru þau að K mátti aldrei ætla að hún ætti meiri rétt til launa í veikindum en sem næmi 360 dögum. Með þessu móti taldi S að verið væri að koma til móts við K þannig að laun K yrðu einungis skert einn mánuð. Með bréfi S í janúar 2007 til K var K tilkynnt að S ætlaði að endurkrefja K um ofgreiðslu 20% veikindalauna í september, október og nóvember 2006 en falla frá endurkröfu vegna 20% veikindalauna í júní, júlí og ágúst 2006 þrátt fyrir að 20% veikindaréttur K hefði lokið þann í júní 2006. Með þessu vildi S koma til móts við K og hafði þá í huga að K gat ekki talið sig eiga lengri rétt til launa í veikindum en 360 daga, sbr. grein 12.2.1 í kjarasamnigi SFR og ríkisins. Í samræmi við bréf S í janúar 2007 til K voru laun K leiðrétt við útborgun launa fyrir janúarmánuð 2007 þann 1. febrúar 2007. Niðurstaða dómsins var sú að K hafi verið í góðri trú um að útreikningar á laununum hefðu verið réttir og því ekki hægt að kenna K um að hafa tekið við ofgreiddum launum og íslenska ríkið dæmt til að greiða K vangoldin laun.

7
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. febrúar 2008 í máli nr.E-3899/2007: L gegn
íslenska ríkinu.
LAUNAFLOKKUR. STARFSHEITI. ÚRSKURÐUR STJÓRNVALDS.
Með bréfi í júlí 2004, fór L fram á það við FÍ að misræmi milli greiddra launa til L og þeirra launa sem L bar samkvæmt ráðningarsamningi yrði leiðrétt frá og með desember 1997 og að L yrðu framvegis greidd laun í samræmi við gildandi ráðningarsamning og kjarasamning. Með bréfi í ágúst 2004 hafnaði FÍ erindinu með því að vísa í minnisblað frá starfsmannastjóra stofnunarinnar. Með bréfi í september 2004 kærði L þá ákvörðun FÍ til samgönguráðuneytisins. Samgönguráðuneytið kvað síðan upp úrskurð í málinu í nóvember 2004 þar sem fallist var á kröfu L. Starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytis gerði strax athugasemdir við úrskurð samgönguráðuneytisins og taldi að rétt hefði verið að vísa málinu frá í stað þess að taka það til efnislegrar meðferðar, eins og samgönguráðuneytið gerði. Áttu fulltrúar fjármálaráðuneytisins fund með fulltrúum samgönguráðuneytis í desember 2004 varðandi úrskurðinn og gerðu athugasemdir við meðferð stjórnsýslukærunnar af hálfu samgönguráðuneytisins. Með bréfi samgönguráðuneytisins í janúar 2005 til fjármálaráðuneytisins svaraði ráðuneytið athugasemdum fjármálaráðuneytisins. Fjármálaráðuneytið gerði athugasemdir við bréf samgönguráðuneytisins í janúar 2005 þar sem fram kom sú afstaða að samgönguráðuneytið hefði skort lagagrundvöll til þess að úrskurða í málinu á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að því bæri að afturkalla úrskurð sinn samkvæmt 2. tl. 25. gr. þeirra laga. Í framhaldi af athugasemdum fjármálaráðuneytisins tók samgönguráðuneytið málið til endurskoðunar en taldi ekki lagaskilyrði fyrir ógildingu úrskurðarins. Samgönguráðuneytið tilkynnti síðan L um að fjármálaráðuneytið hefði lýst sig ósammála úrskurðinum og benti L á að leita til almennra dómstóla. L kvartaði við umboðsmannn Alþingis, sjá álit nr. 4355/2005, yfir því að FÍ hefði ekki framfylgt úrskurði samgönguráðuneytisins. Það varð niðurstaða umboðsmanns að samgönguráðuneytinu hefði í stað þess að benda L á að leita til almennra dómstóla átt að bregðast við því erindi með því að leggja fyrir FÍ að gera nauðsynlega útreikninga á þeirri greiðslu sem L bæri í samræmi við úrskurð samgönguráðuneytisins. Þá útreikninga bar að senda Fjársýslu ríkisins (FJS) til greiðslu. Með bréfi FÍ til FJS í september 2006 fór FÍ þess á leit að FJS greiddi L launamismun samkvæmt útreikningum. Með bréfi FJS til FÍ í nóvember 2006 hafnaði FJS að greiða launamismun til L á grundvelli úrskurðar samgönguráðuneytisins. L stefndi íslenska ríkinu til greiðslu en héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að L hafi ekki átti rétt á að fá greidd laun eftir öðrum launaflokki en þeim sem honum var skipað í og var íslensk ríkið því sýknaður af kröfum L. Sjá dóm Hæstaréttar frá 6. nóvember 2008 nr. 121/2008 þar sem dómur héraðsdóms var ómerktur og málinu vísað aftur til héraðsdóms til munnlegs flutnings og dómsákvörðunar á ný. Sjá einnig dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. janúar 2009 í máli nr. E-3899/2007:þar sem íslenska ríkið var á ný sýknað af kröfum L. Þeim dómi hefur nú verið áfrýjað til Hæstaréttar.

8
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. apríl 2008 í máli nr. E-4684/2007: K gegn íslenska ríkinu.
VANGOLDIN LAUN.
K var ráðinn til starfa sem leiðbeinandi við F árið 1998 og gegndi því starfi til ágústloka 2005. K var þá með sveinspróf í trésmíði og iðnfræðingsprófi frá dönskum tækniskóla. K hóf nám árið 1999 til öflunar kennsluréttinda og lauk því námi í maí 2003. Laun K fóru eftir kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Kennarasambands Íslands frá janúar 2001. Ráðning K var tímabundin til eins skólaárs í senn, en óheimilt er að ráða leiðbeinendur ótímabundinni ráðningu til kennslustarfa. K fékk árið 2004 útgefið leyfisbréf menntamálaráðuneytisins til að kalla sig framhaldsskólakennara. Í framhaldi af því leitaði K eftir því við skólameistara F að verða fastráðinn við skólann. Því erindi hafnaði skólameistarinn og var ófáanlegur til að kvika frá þeirri afstöðu sinni. K taldi að hann hefði ekki fengið greidd laun í samræmi við gildandi kjarasamning Kennarasambands Íslands við fjármálaráðuneytið. Leitaði K liðsinnis Félags framhaldsskólakennara. Taldi K að athugun Félags framhaldsskólakennara hefði leitt í ljós að F hefði brotið rétt á K í þremur ólíkum tilvikum. F hefði fallist á einn þessara liða en hafnað hinum tveimur. Af hálfu F var þessum fullyrðingum mótmælt og á því byggt að réttilega hafi verið staðið að uppgjöri við K. K höfðaði mál til greiðslu vangoldinna launa. Taldi K að honum hefði verið raðað rangt í launaflokk samkvæmt stofnanasamningi. Krafði K greiðslu á mismun á launaflokkum þar sem K hefði ekki notið starfsaldushækkana í samræmi við kjarasamning. F taldi að K hefði ekki átt rétt á þeim starfsaldurshækkunum sem K gerði kröfu til. Dómurinn féllst ekki á röksemdir F og var íslenska ríkið dæmt til að greiða K mismun á launaflokkum í samræmi við kröfu K. Sjá einnig dóm Hæstaréttar frá 22. janúar 2009 í máli nr. 239/2008 sem varðar ráðningu í starf hjá F en K var einn umsæjenda, sbr. lið 2 hér að ofan.

9
Dómur Félagsdóms frá 30. apríl 2008 í málinu nr. 1/2008: Félag prófessora við ríkisháskóla gegn íslenska ríkinu, Félagi háskólakennara, Félagi háskólakennara á Akureyri og Kennarafélagi Kennaraháskóla Íslands.
SAMNINGSUMBOÐ. LAUN.
FP krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að FP færi með samningsumboð fyrir félagsmenn sína við gerð kjarasamninga við íslenska ríkið vegna starfa þeirra sem prófessora við ríkisháskóla. FP krafðist þess einnig að viðurkennt yrði með dómi að íslenska ríkinu væri óheimilt að halda eftir af launum prófessora við ríkisháskóla, sem eru félagsmenn í FP, gjöldum samkvæmt 2. málsgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 til Félags háskólakennara, Félags háskólakennara á Akureyri og Kennarafélags Kennaraháskóla Íslands. Í janúar 2007 tók kjararáð fyrir að skera úr um hvort ráðið skyldi ákveða laun og starfskjör prófessora. Komst kjararáð að niðurstöðu um að ákvörðun launa og starfskjara prófessora heyrði ekki undir kjararáð samkvæmt lögunum. Í framhaldi af úrskurði kjararáðs kom til skoðunar hvort Félag prófessora í Háskóla Íslands (FPHÍ) og Prófessorafélag Íslands (PÍ) væru stéttarfélög í skilningi laga nr. 94/1986. Prófessorar leituðu álits S, fyrrum prófessors við lagadeild Háskóla Íslands. Í álitsgerð S var komist að niðurstöðu um að FPHÍ uppfyllti að öllum líkindum skilyrði 3. tl. 5. gr. laganna til að eiga aðild að kjarasamningum við ríkið. Með bréfi fjármálaráðuneytisins til FP í júní 2007 var tilkynnt að ráðuneytið væri ekki sammála niðurstöðu S. Ráðuneytið teldi að ekki væri uppfyllt það skilyrði 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986 að um væri að ræða félag sem tæki til „starfsmanna sem eru í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða uppfylla skilyrði um formlega menntun sem jafna má til slíkra starfsréttinda“. Ennfremur sagði að ekki væri ljóst hvort önnur skilyrði ákvæðisins væru uppfyllt. Að beiðni FP samdi S nýja álitsgerð af þessu tilefni. Komst S að þeirri niðurstöðu að félagið uppfyllti skilyrði 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986 um að félagsmenn væru starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða menntun, sem jafna mætti til slíkra starfsréttinda. Með bréfum fjármálaráðuneytisins í ágúst 2007, til prófessora við ríkisháskóla, var tilkynnt um ákvörðun starfskjara. Skýrt var frá því að til loka kjarasamninga félaga háskólakennara á árinu 2008 skuli laun prófessora taka sömu breytingum og kveðið var á um í kjarasamninga félaga starfsmanna háskólanna. Gilti þetta um alla prófessora aðra en prófessora við Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólans á Hólum. Frá og með 1. september 2007 hóf ríkið gjaldtöku af launum prófessora til greiðslu samningsréttargjalda til hinna stefndu félaga háskólakennara. FP mótmælti þessari framkvæmd með bréfi í september 2007 og stefndi málinu til Félagsdóms. Félagsdómur vísaði til þess að prófessorar voru seldir undir ákvörðunarvald kjaranefndar um kaup sitt og starfskjör með ákvörðun löggjafarvaldsins, sbr. 6. gr. laga nr. 150/1996, er breytti lögum nr. 120/1992. Í athugasemdum með 6. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 150/1996, kom fram að samkvæmt niðurstöðu funda menntamálaráðherra með fulltrúum Háskóla Íslands þætti rétt „vegna sérstöðu starfa háskólaprófessora“ að leggja til að laun þeirra er gegndu prófessorsstöðu að aðalstarfi í skilningi starfsmannalaganna yrðu framvegis ákveðin af kjaranefnd. Félagsdómur taldi ekki ljóst hvaða sérstöðu löggjafinn hefði haft í huga, en þótti ekki óvarlegt að álykta að horft hefði verið m.a. til menntunarkrafna. Taldi dómurinn hvað sem því liði ljóst að prófessorar hefðu þarna með ákvörðun löggjafarvaldsins verið teknir út úr hópi háskólakennara hvað varðar skipan kjaramála. Stóð svo þar til kjararáð ákvað í janúar 2007 að ákvörðun launa og starfskjara prófessora heyrði ekki undir ráðið. Eins og FP vísar til tók kjararáð fram að vandséð væri „að háskólarnir og samtök prófessora geti ekki samið um samræmt heildarkerfi, sem viðhaldi núverandi kerfi eða leysi það af hólmi“. Með þessu hefur prófessorum óneitanlega verið mörkuð sérstaða af hálfu löggjafarvaldsins hvað snertir fyrirkomulag kjaramála. Að því virtu og með vísan til orðalags skilyrðis 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986 um formlega menntun sem jafna megi til lögformlegra starfsréttinda, sbr. og fyrrgreind túlkunarviðhorf, þótti Félagsdómi ekki varhugavert að telja að því skilyrði væri fullnægt í tilviki FP. Viðurkenndi Félagsdómur að FP færi með samningsumboð fyrir félagsmenn sína við gerð kjarasamninga við íslenska ríkið vegna starfa þeirra sem prófessoarar við ríkisháskóla. Jafnframt var viðurkennt að íslenska ríkinu væri óheimilt að halda eftir af launum prófessora félagsgjöldum til Félags háskólakennara, Félags háskólakennara á Akureyri og Kennarafélags Kennaraháskóla Íslands.

10
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. maí 2008 í máli nr. E-6409/2007: V gegn Landspítala - háskólasjúkrahúsi.
VEIKINDI. HLUTAVEIKINDI. ENDURGREIÐSLA OFGREIDDRA VEIKINDALAUNA.
Á árinu 2006 greindist V með alvarlegan sjúkdóm og var af þeim sökum frá vinnu. V var 100% veik frá 12. febrúar 2006 til 30. september 2006, alls 230 daga. V kom aftur til starfa í 50% starfshlutfall þann 1. október 2006 og var V óvinnufær að 50% hluta frá þeim degi. Að ósk V tók L saman veikindarétt V og tilkynnti V í júní 2007 um stöðu veikindaréttar. Kom þá í ljós að V hafði verið ofgreidd laun í veikindum frá 8. febrúar 2007. Stéttarfélag V hafði í framhaldinu samband við starfsmenn L og gerði athugasemdir við útreikning spítalans á veikindarétti V. Þegar í ljós kom að V höfðu verið ofgreidd veikindalaun frá 8. febrúar 2007 hóf L að leiðrétta ofgreidd veikindalaun V með skuldajöfnuði. Við útborgun launa fyrir júlí 2007 voru V greidd full laun í stað 50% launa. Við útborgun launa fyrir ágúst 2007 leiðrétti L ofgreidd veikindalaun L fyrir júlí 2007 og við útborgun launa fyrir september 2007 voru V greidd 50% laun í samræmi við útreiknaðan veikindarétt V. Eftir stóð hins vegar að L átti eftir að leiðrétta ofgreidd 50% veikindalaun til L frá 8. febrúar 2007 til og með júní 2007. Héraðsdómur hafnaði því að L hefði haft heimild til að skuldajafna orlofi og launum upp í ofgreidd veikindalaun. Fram kemur í dómnum að heimild L til að beita skuldajöfnuði hafi verið háð því að L gerði fullnægjandi grein fyrir endurgreiðslu sem L skuldfærði samkvæmt launaseðli án nánari skýringa. Taldi dómurinn ósannað að V hefði ekki verið í góðri trú um rétt til veikindalauna þegar V voru greidd 100% laun samkvæmt launaseðli í júlí s.á. en umræddur skuldajöfnuður var vegna þeirra. Að þessu virtu taldi dómurinn að skilyrði skuldajöfnuðar hafi ekki verið fyrir hendi.

11
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. júní 2008 í máli nr. E-8305/2007: G gegn Fasteignamati ríkisins.
SKIPULAGSBREYTINGAR. NIÐURLAGNING STARFS. UPPSÖGN.
G hóf störf hjá FMR í október 2000 og starfaði þar allt fram til þess tíma að G var sagt upp störfum vegna niðurlagningar á starfi með bréfi í nóvember 2004. Ástæða þess að starf G var lagt niður var sú að FMR taldi óhjákvæmilegt að hagræða í rekstri stofnunarinnar. Rökstuddi FMR hagræðinguna með vísan til þriggja þátta. Í fyrsta lagi til hagræðingarkröfu sem gerð var í fjárlögum 2004, í öðru lagi vegna grunnlaunahækkana sem samið var um í stofnanasamningi FMR og SFR í júlí 2004, sem FMR þurfti að mæta með hagræðingu til að útgjöld ykjust ekki og í þriðja lagi vegna hagræðingar í verkferlum og fyrirkomulagi starfseminnar á nokkrum sviðum. Féllst dómurinn á með G að FMR bæri að greiða G bætur vegna ólögmætrar uppsagnar starfssamnings þar sem FMR hafði ekki sýnt fram á að uppsögnin byggðist á lögmætum ástæðum. Sjá einnig álit Umboðsmanns Alþingis nr. 4306/2005.

12
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. júní 2008 í máli nr. E-8306/2007: Á gegn Fasteignamati ríkisins.
SKIPULAGSBREYTINGAR. NIÐURLAGNING STARFS. UPPSÖGN.
Á hóf störf hjá FMR sem fulltrúi, fyrst til reynslu í september 1990, en síðan fastráðin með ótímabundnum ráðningarsamningi frá 1. febrúar 1991 og starfaði þar allt fram til þess tíma að Á var sagt upp störfum vegna niðurlagningar á starfi með bréfi í 3. september 2004. Ástæða þess að starf Á var lagt niður var sú að FMR taldi óhjákvæmilegt að hagræða í rekstri stofnunarinnar. Rökstuddi FMR hagræðinguna með vísan til þriggja þátta. Í fyrsta lagi til hagræðingarkröfu sem gerð var í fjárlögum 2004, í öðru lagi vegna grunnlaunahækkana sem samið var um í stofnanasamningi FMR og SFR í júlí 2004 sem FMR þurfti að mæta með hagræðingu til að útgjöld ykjust ekki og í þriðja lagi vegna hagræðingar í verkferlum og fyrirkomulagi starfseminnar á nokkrum sviðum. Féllst dómurinn á með Á að FMR bæri að greiða Á bætur vegna ólögmætrar uppsagnar starfssamnings þar sem FMR hafði ekki sýnt fram á að uppsögnin byggðist á lögmætum ástæðum. Sjá einnig álit Umboðsmanns Alþingis nr. 4212/2004.

13
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. júní 2008 í máli E 8395/2007: J gegn íslenska ríkinu (Dómurinn er ekki birtur á heimasíðu dómsins)
SLYSATRYGGING. BÆTUR VEGNA LÍKAMSTJÓNS.
J var starfsmaður H er hann varð fyrir óhappi í starfi sínu sem háseti um borð í skipinu B í nóvember 2004. Bar óhappið að með þeim hætti að J rann til í hálku um borð með þeim afleiðingum að hann féll aftur fyrir sig og lenti með höfuðið í vegg. J vann sem sýrimaður á skipinu B en þegar hann hlaut áverka sína vann hann sem netamaður en hélt síðan áfram að vinna sem stýrimaður skipinu B eftir slysið. Af hálfu íslenska ríkisins var því haldið fram að meiðsl þau sem J hafi orðið fyrir hafi ekki orsakast af skyndilegum utanaðkomandi atburði. J hafi haft mikla reynslu af sjómannsstörfum og hafi því mátt vita, vegna hálku, að honum bar að gæta varúðar þegar hann fór um þilfarið. Að mati íslenska ríkisins hafi J ekki sýnt þá aðgæslu sem krefjast yrði af vönum sjómanni og yrði atvikið því að teljast óhappatilviljun ein og ekkert benti til þess að óhapp J mætti rekja til vanbúnaðar af hálfu stofnunar, gáleysislegrar háttsemi eða saknæmra mistaka af hálfu annarra skipverja eða óforsvaranlegrar vinnutilhögunar. Fram kemur í dómnum að eins og óhapp þetta bar að verði að telja, eins og hugtakið hefur verið skýrt, að um skyndilegan og utanaðkomandi atburð hafi verið að ræða sem teljist slys í skilningi skilmála slysatryggingarinnar. Var íslenska ríkinu því gert að greiða J bætur á grundvelli greinar 7.1.2.

14
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. júní 2008, í máli nr. E-4425/2007: Ó gegn íslenska ríkinu.
UPPSÖGN. EMBÆTTISMISSIR. SKAÐA- OG MISKABÆTUR.
Ó var ráðinn til starfa sem tollvörður hjá T í janúar 1984. Í október 2001 var Ó falið að hafa yfirumsjón af hálfu T með förgun birgða. Vegna þess starfs var Ó tengiliður T við S um það sem varðaði förgun áfengisbirgða og annarrar tjónavöru úr skipum. Í nóvembermánuði 2005 hafði T samband við lögregluna vegna grunsemda um að Ó, ásamt nokkrum starfsmönnum S væri viðriðinn þjófnað á áfengi sem ætti að eyða. Í nóvember 2005 hóf lögreglan eftirlit með vörumiðstöð S í Reykjavík. Ó var ásamt nokkrum starfsmönnum S handtekinn í nóvember 2005 og við leit á heimili Ó fannst 31 áfengisflaska. Í skýrslum sem teknar voru af starfsmönnum S kom fram að Ó hefði tekið þátt í brotastarfseminni og lýstu þeir þar nánar aðkomu Ó að þjófnaðinum. Jafnframt kom fram að tíðkast hefði frá árinu 2001 að taka áfengi úr förgunarbirgðum. T veitti Ó lausn frá störfum um stundarsakir og málið sent til nefndar samkvæmt 27. gr. stml. Um frekari málsatvik vísast til álitsgerðar nefndarinnar í málinu nr. 2/2006. Með áliti nefndar samkvæmt 27. gr. stml. taldi nefndin að T hefði verið rétt að veita Ó lausn frá störfum um stundarsakir í lok ágúst 2006. Með bréfi T í janúar 2007 til Ó var Ó tilkynnt að fyrirhugað væri að víkja honum úr embætti tollvarðar að fullu með vísan til 2. mgr. 29. gr. stml. og var einnig vísað til álits nefndar samkvæmt 27.gr. laganna. Með bréfi Tollvarðafélags Íslands í janúar 2007 voru gerðar athugasemdir við fyrirhugaða ákvörðun T að beiðni Ó. Með ákvörðun T í febrúar 2007 var Ó með vísan til 2. mgr. 29. gr. stml. veitt lausn frá embætti tollvarðar að fullu. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákærði Ó og fjóra aðra einstaklinga fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og var Ó sýknaður í refsimálinu. Það var mat T að skilyrði 2. mgr. 29. gr. starfsmannalaganna væri uppfyllt með vísan til þess að tollverðir fari með lögregluvald og það verði að vera hafið yfir allan vafa að slíkir starfsmenn séu þátttakendur í lögbrotum eða misfari með vald sitt. Í dómnum segir að á þessum tíma hafði ekki verið ákært í málinu eða dómur gengið. Hafði því ekki verið gengið úr skugga um að ávirðingar þær, sem á Ó voru bornar, ættu við rök að styðjast, sbr. 2. mgr. 29. gr. stml. Ávirðingar þær, sem Ó var grunaður um, en sá grunur réttlætti frávikningu Ó um stundarsakir án áminningar samkvæmt 4. mgr. 26. gr. sömu laga, hafi ekki sannast. Hefur íslenska ríkið ekki getað sýnt fram á að lagaskilyrði hafi verið til þess að víkja Ó að fullu úr embætti. Tók T, eins og með þetta mál var farið, áhættu með því að Ó fékk ekki haldið stöðunni meðan gengið var úr skugga um ávirðingarnar. Bar því að bæta Ó embættismissinn og fór um það samkvæmt 2. mgr. 32. gr. stml. Um bætur til Ó sagði í dómnum að stöðumissir Ó væri til þess fallinn að sverta æru hans og gera honum erfitt fyrir um stöðuval og varð að líta til þess við ákvörðun bóta, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Á móti kom hins vegar að í upphafi mátti ætla, eins og málið blasti við stjórnvöldum, að Ó væri að einhverju leyti flæktur í mál starfsmanna S og verklag Ó við undirbúning að förgun og eyðingu birgða, sem Ó hafði yfirumsjón með, var ekki vandaður og að sögn deildarstjóra T, hvorki í samræmi við reglur þar að lútandi, en þær reglur lágu ekki frammi í málinu, né tíðkanlegt verklag hjá T.

15
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 1. júlí í máli nr. E-7315/2007: Ó gegn íslenska ríkinu.
SLYSATRYGGING. BÆTUR VEGNA LÍKAMSTJÓNS.
Ó varð fyrir óhappi í starfi sínu sem háseti um borð í skipinu Á í október 2004. Bar óhappið að með þeim hætti að Ó féll um grandaravíra sem lágu ófrágengnir á þilfari skipsins eftir að skipt hafði verið um þá. Í fallinu bar Ó fyrir sig hendina en meiddist við það á úlnlið. Ó kom ekki aftur til vinnu hjá H eftir óhappið en Ó var frá vinnu í u.þ.b. 9 mánuði og síðar aftur í 6 mánuði. Samkvæmt grein 7.1.2 í kjarasamningi skulu bætur úr vátryggingu ákvarðast á grundvelli reglna skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, og um hana skuli að öðru leyti gilda almennir skilmálar fyrir slysatryggingu sjómanna hjá aðildarfélögum Sambands íslenskra tryggingarfélaga. Í skilmálum þessum er orðið „slys“ skilgreint á þann veg að átt sé við skyndilegan, utanaðkomandi, atburð, sem valdi meiðslum á líkama þess sem tryggður sé, og gerist sannanlega án vilja hans. Af hálfu íslenska ríkisins var því haldið fram að meiðsl þau sem Ó hafi orðið fyrir hafi ekki orsakast af skyndilegum utanaðkomandi atburði heldur hafi Ó fallið um grandaravíra sem legið hafi á þilfari skipsins. Þar sem nýbúið hafi verið að skipta um vírana hafi verið nauðsynlegt að Ó sýndi aðgæslu en Ó hafi búið yfir mikilli reynslu af sjómannsstörfum og því mátt vita að gæta bæri varúðar þegar farið væri um þilfarið. Að mati íslenska ríkisins hafði Ó ekki sýnt þá aðgæslu sem krefjast yrði af vönum sjómanni og var á því byggt að atvikið yrði ekki talið slys með vísan til kjarasamnings, framangreindra skilmála eða 172. gr. laga nr. 34/1985. Auk þess sem ekkert benti til þess að atvikið mætti rekja til vanbúnaðar af hálfu H, gáleysislegrar háttsemi eða saknæmra mistaka af hálfu annarra skipverja eða óforsvaranlegrar vinnutilhögunar annarra en Ó. Fram kemur í dómnum að eins og óhapp þetta bar að verði að telja að um skyndilegan og utanaðkomandi atburð hafi verið að ræða sem teljist slys í skilningi skilmála slysatryggingarinnar. Var íslenska ríkinu því gert að greiða Ó bætur á grundvelli greinar 7.1.2. Þar sem ekkert lá fyrir um að Ó hefði sýnt af sér slíkt vítavert gáleysi sem leiða ætti til lækkunar bóta í samræmi við 2. málslið 1. mgr. 172. gr. siglingalaganna var kröfu um það hafnað.

16
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. september 2008 í máli nr. E-734/2008: G gegn íslenska ríkinu.
HLUTA-/AUKASTARF. BAKVAKT.
G hóf störf hjá FÍ í júní 2003 sem flugumferðarstjóri. Samhliða störfum G sem flugumferðarstjóri sinnti G flugmannsstarfi á flugvél FÍ í hluta-/aukastarfi. Á flugvél FÍ er aðeins flugstjóri með hefðbundna vaktskrá en flugmenn hennar, sem allir starfa hjá FÍ við önnur störf, sinna flugmannsstarfinu í hluta-/aukastarfi. Af gögnum málsins og framburðum vitna fyrir dómi var það niðurstaða dómsins að ekki hafi verið sýnt fram á að G hafi starfað sem flugmaður hjá Flugmálastjórn eftir bakvaktakerfi, sem gerði G skylt að vera reiðubúin að sinna útköllum, og ekki heldur að G hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að um bakvaktir væri að ræða sem veitti G rétt til greiðslna fyrir bakvaktir. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfum G.

17
Dómur Hæstaréttar frá 18. september 2008 nr. 430/2007: Landspítali – háskólasjúkrahús gegn D.
STJÓRNSÝSLA. STJÓRNSÝSLUÁKVÖRÐUN. ANDMÆLARÉTTUR. MISKABÆTUR.
D sem starfaði sem hjúkrunarfræðingur á geðsviði L, krafðist þess að ógilt yrði ákvörðun sviðstjóra um að flytja hana úr starfi sem hjúkrunarfræðing á deild X á starfsstöð L við Hringbraut yfir á deild Y á Kleppi, auk þess sem hún krafðist miskabóta úr hendi L. Byggði D á því að flutningurinn hefði verið ólögmætur þar sem ákvörðunin um að flytja D úr starfi hefði verið stjórnvaldsákvörðun sem byggð hefði verið á ómálefnalegum forsendum, auk þess sem reglum stjórnsýslulaga hefði ekki verið fylgt við ákvarðanatökuna. L gaf þær ástæður fyrir flutningi D milli deilda að með honum væri hindrað að ágreiningur milli tveggja hjúkrunarfræðinga á deildinni truflaði starfsemina, en A, hjúkrunarfræðingur sem starfaði á deildinni, hafði sakað D um kynferðislega áreitni utan vinnustaðar. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að yfirmönnum D hefði verið unnt að ná tilsettu markmiði í sátt við báða starfsmennina sem í hlut áttu, en fyrir lá að A hafði verið tilbúinn að færa sig milli deilda. Þess í stað hefðu þeir tekið þá ákvörðun að flytja D í starfi, gegn vilja D í stað þess að færa A, þrátt fyrir að það hefði legið beinast við, bæði vegna samþykkis A sjálfs og að því gættu að það var A en ekki D sem neitaði samstarfi á deildinni. Var því ekki talið að málefnalegar eða faglegar ástæður hefðu réttlætt brottflutning D eins og málum var háttað. Þá taldi Hæstiréttur með vísan til þess að umrædd ákvörðun hefði vegið að æru D og mikilsverð réttindi þar með verið í húfi, auk þess sem flutningurinn hefði haft áhrif á réttarstöðu D að öðru leyti, að umrædd ákvörðun hefði verið stjórnvaldsákvörðun. Hefði L því brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en D hafði ekki verið gefinn fullnægjandi eða raunhæfur kostur á að gæta lögbundins andmælaréttar síns áður en ákvörðunin var tekin. Að öllu þessu virtu var krafa D um ógildingu ákvörðunar sviðsstjóra um að flytja hana úr starfi milli deilda L ógilt og L gert að greiða D miskabætur.

18
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. september 2008 í máli nr. E-440/2008: T gegn Ratsjárstofnun og íslenska ríkinu.
UPPSÖGN. STARFSSTÖÐ. BREYTING Á STARFI.
T starfaði sem rekstrarfulltrúi hjá R frá árinu 2002. Með fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu var tilkynnt um breytingu á starfsemi R. Í tilkynningunni kom m.a. fram að íslensk stjórnvöld myndu hinn 15. ágúst 2007 taka að fullu yfir rekstur og verkefni Ratsjárstofnunar frá Bandaríkjamönnum en stofnunin var rekin á grundvelli bandarískra reglna og starfsemin að fullu kostuð af bandarískum yfirvöldum. Í tilkynningunni kom einnig fram að samfara endurskipulagningu yrði horft til flutnings starfa frá Reykjavík en á meðan að unnið yrði að endurskipulagningu starfseminnar væri nauðsynlegt að losa um allar fjárhagsskuldbindingar R og meðal þeirra skuldbindinga væru samningar við starfsmenn stofnunarinnar. Öllum starfsmönnum var gefinn kostur á 6 mánaða uppsagnarfresti og að hann rynni út í lok mars 2008. Með bréfi R í september 2007 var T síðan sagt upp störfum með 6 mánaða fyrirvara. Fram kom í bréfi R að upphaf uppsagnarfrests miðaðist við 1. október 2007 og að honum lyki 31. mars 2008, sem yrði síðasti starfsdagur og lok starfssambands. T var síðan tilkynnt að starfsstöð R í Reykjavík yrði flutt á Keflavíkurflugvöll og starfsmenn með þann 15. október 2007. T tilkynnti R í september 2007 að T gæti ekki af persónulegum ástæðum sinnt störfum sínum utan starfsstöðvar í Reykjavík á uppsagnarfresti og myndi því ekki una flutningnum. Dómurinn tók fram að í ráðningarsamningi T við R er vinnustaður sagður „aðalskrifstofa“ en í haus ráðningarsamningsins er heimilisfang R sagt vera Síðumúli X. Fram kom í málinu að starfsstöð T hafi verið að Síðumúla X allan þann tíma sem T starfaði hjá R og í skýrslum fyrir dómi mátti skilja að starfsmenn R litu á þann vinnustað sem aðalskrifstofu. Það var niðurstaða dómsins að þær breytingar sem T var gert að þola á starfskjörum sínum með því að starfsstaður flyttist til Keflavíkurflugvallar séu meiri en svo að T þyrfti að una þeim.

19
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. október í máli nr. E-245/2008: E gegn Landspítala - háskólasjúkrahúsi.
STARF SAMHLIÐA STARFI. LAUN. DRÁTTARVEXTIR.
E var yfirlæknir með stjórnunarskyldu við augndeild á árunum 1989-2000 en fór þá í tveggja ára leyfi frá störfum hjá L. Á sama tíma og E gegndi starfi yfirlæknis hjá L rak hann eigin læknastofu frá árinu 1989 til 30. júní 2007. Þegar leyfi E frá störfum rann út í september 2002 var leyfi E frá stjórnunarskyldum framlengt en E gegndi áfram stöðu yfirlæknis við deildina. Er augnlæknir, sem sinnt hafði stjórnunarskyldum yfirlæknis á augndeildinni í leyfi E, óskaði eftir að losna undan þeim skyldum tilkynnti E að hann hygðist taka aftur við stjórnunarskyldum á augndeildinni. Þegar fyrir lá að E ætlaði að taka aftur við stjórnunarskyldum gerði L það skilyrði að E léti af sjálfstæðum stofurekstri utan L í samræmi við tillögu framkvæmdastjórnar í desember 2001 og samþykkt stjórnarnefndar L. Eftir fundarhöld milli aðila lýsti E því að lokum yfir að hann væri ekki reiðubúinn að gangast undir kröfu L að hætta stofurekstri. Var yfirlæknisstaða á augndeild auglýst laus til umsóknar en engar umsóknir bárust um stöðuna. E átti fundi með yfirmönnum L þar sem kom fram að E mætti ekki stunda sjálfstæðan stofurekstur samhliða því að gegna stjórnunarskyldum á augndeildinni. Er svo var komið samþykkti E skilyrði L og ritaði undir þrjú skjöl er fólu í sér samkomulag um starf og kjör yfirlæknis augndeildar, samkomulag vegna augndeildar og L og starf yfirlæknis deildarinnar og starfslýsingu yfirlæknis augnlækninga. E hætti síðan rekstri lækningastofu sinnar í lok júní 2007. E stefndi L og krafðist þess að L hefði verið óheimilt að banna honum að reka sjálfstæða lækningastofu, samhliða starfi yfirlæknis með stjórnunarskyldur. Fram kom í dómnum að forsendur að baki fyrrgreindrar stefnumörkunar L voru af rekstrarlegum og stjórnunarlegum toga og komu til m.a. vegna sameiningar Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur. Stefnumörkunin byggðist á þeim hagsmunum L að yfirmenn sjúkrahússins helguðu sig algerlega starfi sínu. Hún fól í sér ákveðnar breytingar á starfstilhögun og ráðningum, sem taka áttu til allra yfirmanna L, lækna jafnt sem annarra. Málefnalegur ástæður lágu því að baki fyrrgreindri stefnumörkun L og gekk hún ekki lengra en nauðsynlegt var. Þá gat E ekki sýnt fram á L hefði ekki gert sömu kröfur um bann við aukastörfum við ráðningu í sambærilegt starf og E gegndi. Dómurinn sýknað íslenska ríkið því af viðurkenningarkröfu E og af launakröfu E vegna tiltekins tímabils, en féllst á kröfu um ófyrnda dráttarvexti. Dómi þessum var áfrýjað til Hæstaréttar.

20
Dómur Hæstaréttar frá 6. nóvember 2008 nr. 121/2008: L gegn íslenska ríkinu.
LAUNAFLOKKUR. STARFSHEITI. ÚRSKURÐUR STJÓRNVALDS. HEIMVÍSUN.
L krafði íslenska ríkið um leiðréttingu á launum samkvæmt úrskurði samgönguráðuneytisins. Þar sem héraðsdómi hafði láðst að taka afstöðu til meginmálsástæðu L í niðurstöðu dómsins, sbr. f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, var ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til munnlegs flutnings og dómsálagningar að nýju. Sjá dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. febrúar 2008 í máli nr.E-3899/2007 og reifun í lið nr. 7 hér að ofan. Sjá einnig dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. janúar 2009 í máli nr. E-3899/2007þar sem íslenska ríkið var á ný sýknað af kröfum L. Þeim dómi hefur nú verið áfrýjað til Hæstaréttar.

21
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. nóvember 2008 í máli nr. E-1357/2008:  FÍN gegn íslenska ríkinu.
VINNA MEÐ HÆTTULEG EFNI. LAUNAFLOKKUR.
FÍN krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að félagsmenn þess sem starfa á veirudeild á L og vinna með hreinræktir smitefna og/eða eiturefni, þ.m.t. krabbameinsvaldandi og stökkbreytandi efni (hættuleg), eigi rétt til eins launaflokks hækkunar samkvæmt samkomulagi milli FÍN og L frá júlí 2001. Dómurinn taldi ósannað að röðun umræddra starfsmanna í launaflokka, eins og gert var af hálfu L, hafi falið í sér brot á stofnanasamningnum. Sagði dómurinn að þótt fram komi á fylgiskjali 2 að sérsök áhætta umfram það sem almennt gerðist skyldi metin 0, 1 eða 2 og að 2 ætti við þegar unnið væri að auki með hreinræktir smitefna og/eða eiturefni, þ.m.t. krabbameinsvaldandi og stökkbreytandi efni (hættuleg), varð ekki talið að með því hefði verið sýnt fram á að röðunin samkvæmt samkomulaginu og fylgiskjali 1 væri röng, enda hafði ekki verið lögð fram gögn af hálfu FÍN sem veittu fullnægjandi sönnun um það. Féllst dómurinn því á það að umræddir starfsmenn ættu ekki rétt til eins launaflokks hækkunar samkvæmt samkomulaginu og varð íslenska ríkið því sýknað af kröfu FÍN í málinu.

22
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 11. desember 2008 í máli nr. E-8589/2007: S gegn íslenska ríkinu.
SKIPUN Í NEFND. ANDMÆLARÉTTUR.
Félagsmálaráðherra skipaði S formann stjórnarnefndar um málefni fatlaðra á grundvelli 4. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra og var skipunarbréf S dagsett 17. apríl 2007. Skyldi S gegna formennsku til 16. apríl 2011. Þóknun S fyrir setu sem formaður nefndarinnar skyldi ákveðin af þóknunarnefnd. S fékk greidd laun fyrir stjórnarsetuna mánaðarlega. Ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins hafði samband við S í júní 2007 og óskaði eftir því að hann frestaði ákveðnum fundi nefndarinnar og jafnframt var S tilkynnt að nýr ráðherra væri að skoða ýmsar nefndir ráðuneytisins og skipanir í þær. S fékk símtal frá ritara ráðherra fyrir hádegi, 26. júní 2007, þar sem óskað var eftir því að S kæmi á fund ráðherra eftir hádegi þann dag. S gat ekki orðið við því og varð því ekki af fundi ráðherra með S. S fékk tölvupóst frá B, starfsmanni stjórnarnefndarinnar, 28. júní 2007 þar sem S var tjáð að verið væri að skipa nýjan formann nefndarinnar. Sama dag sendi S B og ráðuneytisstjóra tölvuskeyti þar sem segir að S hafi ekkert heyrt um að verið væri að skipa nýjan formann stjórnarnefndar og ekki hafi verið óskað eftir því að S léti af störfum fyrir stjórnarnefndina. Í tölvuskeytinu kom jafnframt fram að S léti ekki þessi vinnubrögð yfir sig ganga án eftirmála. S var síðan tjáð símleiðis 5. júlí 2007 að gefið hefði verið út skipunarbréf fyrir nýjan formann nefndarinnar. S krafði íslenska ríkið um bætur vegna fjártjóns sem S taldi sig hafa orðið vegna meintrar ólögmætrar frávikningar úr stöðu formanns. Í niðurstöðu dómsins kom fram að S fékk ekki tækifæri til að tjá sig áður en ráðherra tók þá ákvörðun að víkja S úr stjórnarnefndinni og setja annan formann í hans stað. Afstaða S til þess lá því ekki fyrir áður en ákvörðunin var tekin, og taldi dómurinn að það væri ekki útilokað að ákvörðun ráðherra hefði orðið önnur, hefði S fengið færi á að tala máli sínu, en ákvörðun ráðherra snerti fjárhagslega hagsmuni S. Það var því mat dómsins að frávikning S sem formanns stjórnarnefndar hafi verið ólögmæt. Einnig kom fram í dómnum að beiðni S um skýringar á ákvörðun ráðherra var ekki svarað og enginn eftirfarandi rökstuðningur veittur fyrir ákvörðuninni og fór það í bága við 21. gr. stjórnsýslulaga um rökstuðning fyrir stjórnvaldsákvörðun. Við ákvörðun bóta leit dómurinn til þess, að S hafði í ljósi skipunarbréfs síns, mátt treysta því að fá að gegna formennsku í nefndinni áfram, en jafnframt varð S að gera ráð fyrir að hann hafi mátt, í ljósi reynslu sinnar sem ráðuneytisstarfsmaður, gera ráð fyrir að einhverjar breytingar yrðu á skipan nefndarinnar, sem tækju á einn eða annan hátt til hans. Jafnframt var litið til þess að einungis var um nefndarstarf að ræða, trúnaðarstarf í opinbera þágu, en aðalstarf S var framkvæmdastjórastaða rekstrarfélags K.

23
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. desember 2008 í máli nr. E-2813/2008: B gegn sýslumanninum á Sauðárkróki og íslenska ríkinu.
ÁMINNING.
B var yfirlögregluþjónn við embætti sýslumannsins á S og var skipun hans ótímabundin. Um nokkurt skeið hafði borið á samstarfsörðugleikum við embætti sýslumannsins á S, meðal annars á milli B og sýslumanns. Urðu samstarfsörðugleikarnir meðal annars tilefni sérstakra úttekta af hálfu embættis ríkislögreglustjóra. Í framhaldsúttekt þess embættis var að finna ýmsar upplýsingar um starfsemi og samskipti milli manna við embættið. Í greinargerð sýslumanns kemur fram að hann hafi á liðnum árum gert margar athugasemdir við störf B, bæði munnlegar og skriflegar, sem ekki hafi borið árangur. Með bréfi sýslumanns í nóvember 2007 var B gerð grein fyrir því að fyrirhugað væri að áminna hann fyrir brot í starfi. Í bréfinu voru meint brot B í starfi tilgreind í 7 tölusettum liðum. B var veittur frestur til 30. nóvember 2007 til að koma að andmælum vegna hinnar fyrirhuguðu áminningar. Með bréfi B í nóvember 2007 gerði B athugasemdir vegna hinnar fyrirhuguðu áminningar og andmælti lið fyrir lið hinum meintu brotum. Þar hafnar B því algerlega að hafa gerst sekur um brot í starfi sem réttlætt gæti áminningu fyrir brot í starfi samkvæmt 21. gr. stml. en vísaði til þess að vægari og viðurhlutaminni úrræði væru til staðar væri talið að hann hefði að einhverju leyti orðið á í störfum sínum. B lagði áherslu á það í bréfi sínu að hann væri reiðubúinn til að leggja sitt af mörkum til að bregðast við erfiðleikum við embættið og lýsti þeirri von sinni að „á nýju ári getum við snúið bökum saman og unnið sameiginlega að því að hvetja mannskapinn til dáða, embættinu og okkur sjálfum til heilla.“ Sýslumaður brást við með í desember 2007 þar sem hann færir fram nánari útskýringar vegna fyrirhugaðrar áminningar og gaf B tækifæri til 10. desember 2007 til að koma að athugasemdum sínum. Með bréfi í desember 2007 færir B fram viðbótarathugasemdir sínar vegna málsins og skýrði þau atriði sem vikið var að í bréfi sýslumanns frá í desember 2007. Með bréfi dags. 12. desember 2007 veitt sýslumaður B síðan áminningu að teknu tilliti til athugasemda B. Í áminningarbréfi sýslumanns voru talin upp 6 aðskilin brot sem áminningin tók til. B höfðaði mál og krafðist þess að áminning sýslumanns yrði dæmt ógild en til vara að hver einstakur þáttur áminningarinnar yrði dæmdur ógildur. Dómurinn leit svo á að til þess að áminningin yrði felld úr gildi í heild sinni, af þeirri ástæðu að ekki hafi verið lögformlegar, efnislegar forsendur fyrir henni, yrði það að byggjast á því að engin hinna 6 áminningarástæðna sem taldar voru í áminningarbréfi, uppfyllti skilyrði þess að vera lögformleg ástæða áminningar. Tók dómurinn því til umfjöllunar hvern lið fyrir sig og komst að þeirri niðurstöðu að fjórar af sex áminningarástæðum hefðu uppfyllt skilyrði til að verða grundvöllur áminningar samkvæmt 21. gr. stml. og sýknaði sýslumanninn á S og íslenska ríkið af kröfum B og vísaði varakröfu B frá dómi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum