Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2016 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðuneytið felur Flóttamannastofnun SÞ að ráðstafa 300 milljónum

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, mun ráðstafa 300 milljónum króna af þeim hálfa milljarði sem utanríkisráðuneytinu var falið að úthluta árið 2016 til aðstoðar við flóttamenn frá Sýrlandi á vettvangi af sérstökum framlögum Íslands til málefna flóttamanna frá Sýrlandi. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna ráðstafar 50 milljónum, Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) 50 milljónum, borgarasamtök á Íslandi 50 milljónum og lagt er til að 25 milljónum króna verði varið til verkefnis UN Women í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Óráðstafað er öðrum 25 milljónum.

Ráðherranefnd ríkisstjórnarinnar um málefni flóttafólks og innflytjenda lagði fram tillögur sem samþykktar voru í ríkisstjórn sl. haust og síðar í fjárlögum á Alþingi um að verja allt að einum milljarði króna af fjárlögum ársins 2016 til að bregðast við vaxandi vanda í málefnum flóttamanna í kjölfar átakanna í Sýrlandi. Var utanríkisráðuneytinu falið að ráðstafa hálfum milljarði af þessu framlagi til stuðnings við verkefni alþjóðastofnana og félagasamtaka á vettvangi.

Framlagið til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) verður nýtt til að styðja við flóttamenn innan landamæra Sýrlands en einnig til stuðnings við flóttamenn sem hafast við í helstu nágrannaríkjum Sýrlands. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) nýtir framlagið til neyðarverkefna innan Sýrlands þar sem mikið skortur hefur verið á aðstoð og Palestínuflóttamannaaðstoðin mun ráðstafa framlaginu frá Íslandi til verkefna í Sýrlandi, Jórdaníu og Líbanon.

Þegar hefur verið auglýst eftir styrkumsóknum vegna framlagsins til íslenskra borgarasamtaka.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum