Hoppa yfir valmynd
20. október 2012 Dómsmálaráðuneytið

Hvar ertu á kjörskrá?

Kjósendur geta kannað hvar þeir eru á kjörskrá í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012, með því að smella hér. Þegar slegin er inn kennitala kemur upp nafn, lögheimili og sveitarfélag. Reykvíkingar og íbúar í nokkrum stærstu sveitarfélögunum fá einnig upplýsingar um kjörstað og kjördeild.

Þjóðskrá Íslands sér um gerð kjörskrárstofna og sveitarstjórnir gera kjörskrár á grundvelli þeirra. Enginn getur neytt kosningarréttar nema nafn hans sé á kjörskrá þegar kosning fer fram. Á kjörskrárstofni við þjóðaratkvæðagreiðsluna eru allir íslenskir ríkisborgarar sem skráðir voru með lögheimili í ákveðnu sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 29. september 2012 og fæddir eru 20. október 1994 og fyrr. Ennfremur eru á kjörskrárstofni þeir íslenskir ríkisborgarar, sem lögheimili eiga erlendis en eiga kosningarrétt samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis.

Vegna atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaganna Garðabæjar og Sveitarfélagsins Álftaness, sem fram fer sama dag, koma kjörskrárupplýsingar þar að lútandi einnig fram á vefsvæðinu hjá þeim sem þar eru búsettir. Um kosningarrétt við þá atkvæðagreiðslu fer samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998 (2. gr.)

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum