Hoppa yfir valmynd
17. september 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 37/2020. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 31. ágúst 2020
í máli nr. 37/2020:
Sér-Fag ehf.
gegn
Ríkiskaupum
Framkvæmdasýslu ríkisins
Ríkiseignum
og GS Import ehf.

Lykilorð
Stöðvun samningsgerðar hafnað. Tilboð. Fylgigögn með tilboði.

Útdráttur
Hafnað var kröfu um stöðvun samningsgerðar í kjölfar útboðsins „Fjölbrautaskóli Vesturlands Málmiðnaðardeild, Vogabraut 5 - Utanhússviðgerðir“.

Með kæru 20. ágúst 2020 kærði Sér-Fag ehf. útboð Ríkiskaupa og Framkvæmdasýslu ríkisins fyrir hönd Ríkiseigna (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 21228 „Fjölbrautaskóli Vesturlands Málmiðnaðardeild, Vogabraut 5 - Utanhússviðgerðir“. Kærandi krefst þess að ákvörðun varnaraðila um að velja tilboð GS Import ehf. í hinu kærða útboði verði felld úr gildi og að „Ríkiskaupum verði gert að velja tilboð kæranda“. Jafnframt er gerð krafa um að nefndin veiti álit á skaðabótaskyldu varnaraðila og að varnaraðilum verði gert að greiða kæranda málskostnað. Varnaraðilar krefjast þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Varnaraðilinn GS Import ehf. hefur ekki látið málið til sín taka. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Í júní 2020 auglýstu varnaraðilar hið kærða útboð sem miðaði að því að gera samning um utanhússviðgerðir á Fjölbrautaskóla Vesturlands. Gerðar voru ýmsar kröfur til hæfis bjóðenda í grein 0.1.4 í útboðsgögnum, meðal annars að þeir hefðu unnið a.m.k. eitt verkefni svipaðs eðlis á síðastliðnum fimm árum og að þeir hefðu gæðastjórnunarkerfi og öryggis- og heilbrigðisáætlun. Þá var gerð krafa um að fjárhagsstaða væri trygg og bjóðendur væru ekki í vanskilum með opinber gjöld og lífeyrissjóðsgreiðslur. Í grein 0.4.2 voru talin upp ýmis gögn sem bjóðendum bar að skila með tilboðum til þess að varnaraðilar gætu lagt mat á tæknilega getu og fjárhagsstöðu. Ráðið verður af greinum 0.4.1 og 0.4.6 að fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið yrði valið á grundvelli lægsta boðins verðs. Um var að ræða rafrænt útboð og kom meðal annars fram í grein 0.4.5 að öllum tilboðum og fylgigögnum skyldi skilað í gegnum rafrænt útboðskerfi Ríkiskaupa. Fram kom í grein 0.4.6 að ef fylgigögn, sbr. grein 0.4.2, skorti eða þau sýndu ekki fram á að bjóðandi uppfyllti hæfiskröfur teldist tilboðið ógilt. Verkkaupi áskildi sér þó rétt til að láta „minni háttar vöntun eða formannmarka á fylgigögnum með tilboði ekki hafa áhrif á gildi tilboða, enda hafi vöntunin eða annmarkinn að mati verkkaupa ekki áhrif á tölulega niðurstöðu tilboðs, jafnræði bjóðenda sé ekki raskað og ógilding tilboðs fæli í sér strangari ákvörðun en nauðsynlegt væri vegna eðlis og umfangs annmarkans“. Þannig áskildi verkkaupi sér rétt til að óska eftir frekari gögnum frá bjóðendum teldi hann „skort á upplýsingum stafa af augljóstum mistökum eða misskilningi“. Fjögur tilboð bárust og við opnun þeirra 29. júní 2020 kom í ljós að tilboð kæranda var lægst að fjárhæð 58.555.300 krónur en tilboð GS Import ehf. var næst lægst að fjárhæð 62.427.098 krónur. Með bréfi 12. ágúst 2020 tilkynntu varnaraðilar að tilboð GS Import ehf. hefði verið valið þar sem þeir hefðu metið það hagstæðast fyrir kaupanda samkvæmt valforsendum útboðsgagna.

Kærandi byggir að meginstefnu til á því að tilboð hans hafi verið lægst og hafi varnaraðilum verið skylt að taka því, enda óheimilt að horfa til huglægra þátta. Engin skýring hafi verið gefin á því af hverju tilboð GS Import ehf. hefði verið valið og hefði tilkynning varnaraðila um val á tilboði verið í ósamræmi við lög, sbr. 2. mgr. 85. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Varnaraðilar vísa til þess að tilboð kæranda hafi ekki verið í samræmi við útboðsgögn, enda hafi einungis verið skilað verðtilboði og engin önnur gögn fylgt með tilboðinu. Það sé í andstöðu við skýr ákvæði útboðsgagna og hafi tilboðið verið ógilt. Mistök hafi verið gerð þar sem láðst hefði að tilkynna kæranda um ástæður fyrir höfnun tilboðsins en úr því hafi verið bætt.

Niðurstaða

Bjóðendur bera ábyrgð á tilboðum sínum og að þeim sé skilað í samræmi við kröfur útboðsgagna. Í útboðsgögnum hins kærða útboðs var gerð krafa um að bjóðendur skiluðu ýmsum gögnum með tilboðum sínum, sbr. grein 0.4.2, til þess að varnaraðilar gætu lagt mat á hæfi bjóðenda. Að virtum þeim gögnum sem nú liggja fyrir nefndinni verður að ganga út frá því að kærandi hafi ekki skilað neinum þeim fylgigögnum sem útboðsgögn áskildu og varð því ekki ráðið af tilboðinu hvort kærandi uppfyllti hæfiskröfur. Tilboð kæranda var samkvæmt þessu ekki sett fram í samræmi við kröfur útboðsgagna og var ekki samanburðarhæft við önnur tilboð. Við þessar aðstæður verður ekki talið að varnaraðila hafi verið skylt að leita nánari skýringa á efni tilboðsins samkvæmt 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup eða ákvæðum útboðsgagna. Eins og málið liggur fyrir nefndinni á þessu stigi verður því að miða við að varnaraðila hafi verið rétt að meta tilboð kæranda ógilt. Annmarkar á birtingu tilkynningar um val á tilboði og upplýsinga um ástæðu höfnunar tilboðs geta hvað sem öðru líður ekki leitt til ógildingar á ákvörðun varnaraðila. Samkvæmt þessu hefur kærandi ekki leitt að því verulegar líkur að varnaraðili hafi við val á tilboði brotið í bága við lög eða reglur um opinber innkaup sem leitt geti til ógildingar ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup. Verður því að hafna kröfu kæranda um að samningsgerð verði stöðvuð þar til leyst hefur verið endanlega úr málinu.

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, Sér-Fags ehf., um stöðvun samningsgerðar á milli varnaraðila, Ríkskaupa og Framkvæmdasýslu ríkisins, fyrir hönd Ríkiseigna, nr. 21228 „Fjölbrautaskóli Vesturlands Málmiðnaðardeild, Vogabraut 5 - Utanhússviðgerðir“

 

Reykjavík, 31. ágúst 2020

Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður Finnbogadóttir

Sandra Baldvinsdóttir






Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum