Hoppa yfir valmynd
19. júlí 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 327/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 19. júlí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 327/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18050027

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

Þann 10. maí 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […]og vera ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. apríl 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Þýskalands. Þann 24. apríl 2018 var ákvörðun Útlendingastofnunar birt fyrir kæranda.

Fyrrgreind ákvörðun Útlendingastofnunar er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Í ákvæði 7. gr. kemur fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar sé heimilt að kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Ákvörðun Útlendingastofnunar var birt fyrir kæranda þann 24. apríl 2018 og fram kemur á birtingarvottorði, sem fylgdi með ákvörðuninni, að kærandi hafi tekið sér lögbundinn 15 daga kærufrest til að ákvarða kæru. Kærandi kærði ákvörðunina þann 10. maí 2018. Ljóst er að kærufresturinn, sem var til 9. maí 2018, var liðinn þegar kæran barst.

Þann 25. júní 2018 var kæranda veittur frestur til 27. júní 2018 til að gera grein fyrir því hvers vegna kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 26. júní 2018 barst kærunefnd tölvupóstur frá talsmanni kæranda. Í tölvupóstinum vísar talsmaður til þess að um kærufresti hjá kærunefnd útlendingamála gildi reglur stjórnsýsluréttar en í 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga komi fram að þar sem kveðið sé á um fresti í lögum teljist sá dagur, sem fresturinn sé talinn frá, ekki með í frestinum. Þar sem ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið birt þriðjudaginn 24. apríl 2018 hafi kærufresturinn byrjað að líða þann 25. apríl s.á. Þar sem uppstigningardagur hafi verið þann 10. maí 2018 hafi kæran átt að berast í síðasta lagi 11. maí s.á., sbr. 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga, en í ákvæðinu komi fram að ef lokadagur frests sé almennur frídagur lengist fresturinn til næsta opnunardags þar á eftir. Þann 26. júní 2018 sendi kærunefnd tölvupóst til talsmanns kæranda þar sem staðfest var að kærufresturinn sé reiknaður frá og með 25. apríl s.á. og að 15 daga kærufrestur kæranda hafi því runnið út þann 9. maí s.á. Þann 28. júní 2018 bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir í málinu þar sem fram kom að talsmaður kæranda hafi staðið í þeirri trú að lögbundnir frídagar, m.a. 1. maí og uppstigningardagur, lengdu frestinn sem þeim næmi. Þá var vísað til þess að ekki verði ráðið af birtingarvottorðinu hvenær umrædd birting hafi farið fram en annmarka á vottorði beri að meta kæranda í hag og stjórnvöld skuli hafa sjónarmið um meðalhóf að leiðarljósi við ákvarðanatökur, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um réttaráhrif þess þegar kæra berst æðra stjórnvaldi að liðnum kærufresti. Þar segir í 1. mgr.:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.“

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er því að finna tvær undantekningarreglur frá þeirri meginreglu laganna að kærumáli skuli vísað frá æðra stjórnvaldi ef kæra berst að liðnum kærufresti. Í athugasemdum við einstakar greinar í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um ákvæðið að í fyrsta lagi sé gerð undantekning þegar afsakanlegt er að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Hér getur t.a.m. fallið undir ef stjórnvald lætur hjá líða að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. laganna eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Í öðru lagi má taka mál til meðferðar ef veigamiklar ástæður mæla með því. Við mat á því hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar skal m.a. litið til hagsmuna aðila máls og hvort mál hafi fordæmisgildi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar, sem birt var kæranda og talsmanni hans þann 24. apríl 2018, er að finna leiðbeiningar um kæruleið og kærufresti. Mátti því kæranda og talsmanni hans vera ljóst hvaða reglur giltu um kæru til æðra stjórnvalds. Ekki verður séð að þær upplýsingar sem kæranda voru veittar í ákvörðun Útlendingastofnunar varðandi kæru til kærunefndar útlendingamála hafi verið ófullnægjandi eða að leiðbeiningarskyldu hafi ekki verið gætt. Varðandi annmarka á birtingarvottorði þá fékk kærunefnd það staðfest með tölvupósti frá starfsmanni Útlendingastofnunar, dags. 21. júní 2018, að ákvörðun í máli kæranda hafi verið birt fyrir honum þann 24. apríl sl. Er það mat kærunefndar að ritvilla á birtingarvottorði leiði ekki til þess að kæran verði tekin til meðferðar enda bendir ekkert í málinu til þess að kærandi hafi verið í vafa um það hvenær birting hafi farið fram. Að lokum ber að nefna að frídagar sem eru innan frests eru taldir með þegar frestur er reiknaður, sbr. 2. málsl. 2 mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga.

Eins og áður hefur komið fram var ákvörðun Útlendingastofnunar birt kæranda þann 24. apríl 2018 og var 15 daga kærufrestur skv. 7. gr. laga um útlendinga því til 9. maí 2018. Kæra kæranda barst kærunefnd hins vegar ekki fyrr en 10. maí sl., eða degi eftir að kærufresturinn leið. Kærunefnd telur að þær athugasemdir sem færðar hafa verið fram leiði ekki til þess að afsakanlegt geti talist að kæra hafi ekki borist kærunefnd fyrr.

Kærandi hefur áður sótt um alþjóðlega vernd hér á landi en var synjað um efnismeðferð umsóknar sinnar. Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður ráðið að mál kæranda sé sambærilegt mörgum málum sem komið hafa til skoðunar kærunefndar útlendingamála og varða synjun á efnismeðferð umsóknar þegar heimilt er að krefja Þýskaland um viðtöku umsækjenda, sbr. c-liður 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Eftir að hafa farið yfir gögn málsins er það niðurstaða kærunefndar að hvorki séu fyrir hendi almanna- né einkahagsmunir sem taldir verða svo veigamiklir að þeir mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Í ljósi alls ofangreinds er það mat kærunefndar að þær ástæður sem kærandi ber fyrir sig teljist ekki veigamiklar í skilningi 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, eða að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist innan þess tímaramma sem lögin áskilja.

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að vísa beri kæru þessari frá nefndinni.

 

Úrskurðarorð

 

Kæru kæranda á ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað frá kærunefnd útlendingamála.

 

 

The Immigration and Asylum Appeals Board dismisses the applicants appeal of the decision of the Directorate of Immigration.

 

 

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir

                                                                                             

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum