Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 72/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 3. febrúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 72/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22010002

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik

Hinn 4. nóvember 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. júlí 2021, um að taka umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir nefnd kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hana til Ítalíu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 8. nóvember 2021. Hinn 15. nóvember 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og hinn 30. nóvember 2021 var beiðni kæranda synjað. Hinn 10. janúar 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt greinargerð.

Af greinargerð kæranda má ætla að beiðni hennar um endurupptöku málsins byggi á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda 

Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á því að meira en 10 mánuðir séu liðnir síðan hún og barn hennar hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi og að tafir á afgreiðslu málsins séu ekki á þeirra ábyrgð. Með vísan til 32. gr. c reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, skuli umsóknir þeirra því teknar til efnismeðferðar hér á landi.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hafi samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum sé þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar séu í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Af lestri ákvæðisins er ljóst að skylda til þess að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hvílir á íslenskum stjórnvöldum, sem í þessu tilviki eru Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. Fer það eftir því hvar í málsmeðferðinni málið er statt, þ.e. hvort málið sé til vinnslu hjá Útlendingastofnun eða á kærustigi hjá kærunefnd útlendingamála, hvaða stjórnvald það er sem skuli taka umrætt atriði til efnislegrar skoðunar.

Með breytingarreglugerð nr. 276/2018, dags. 15. mars 2018, var þremur ákvæðum bætt við reglugerð um útlendinga nr. 540/2017; 32. gr., 32. gr. a og 32. gr. b og fjalla þau um sérstakar ástæður og sérstök tengsl, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ákvæðin eru sett með stoð í 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og mæla fyrir um hvaða viðmið geti leitt til þess að uppi séu sérstakar ástæður eða sérstök tengsl í máli umsækjanda um alþjóðlega vernd hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna.

Með breytingarreglugerð nr. 638/2019, dags. 5. júlí 2019, var ákvæði 32. gr. c bætt við í reglugerð um útlendinga. Í ákvæðinu kemur fram að Útlendingastofnun sé heimilt, á grundvelli sérstakrar beiðni eða að eigin frumkvæði, að taka til efnismeðferðar umsókn barns sem hefur fengið vernd í öðru ríki, séu meira en 10 mánuðir liðnir frá því að umsókn barst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs. Við lestur 32. gr. c reglugerðar um útlendinga verður ekki annað ráðið en að það sé á forræði Útlendingastofnunar að taka til efnislegrar skoðunar beiðnir eða mál að eigin frumkvæði þar sem reynir á hvort taka skuli til efnislegrar meðferðar umsókn barns á grundvelli ákvæðisins.

Með breytingarreglugerð nr. 122/2020, dags. 19. febrúar 2020, var ákvæði 32. gr. d bætt við reglugerð um útlendinga. Í ákvæðinu kemur fram að heimilt sé að veita barni, sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 16 mánaða frá því að það sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, að uppfylltum öðrum skilyrðum. Af lestri ákvæðisins verður ekki annað ráðið en að heimild til þess að taka umrætt atriði til efnislegar skoðunar liggi hjá íslenskum stjórnvöldum, þ.e. Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála, en í ákvæðinu er ekki kveðið á um með afgerandi hætti að heimild þess sé bundin við tiltekið stjórnvald umfram annað.

Þegar framangreind ákvæði eru borin saman er ljóst að 32. gr. c er frábrugðin annars vegar 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og hins vegar 32. gr. d reglugerðarinnar að því leytinu til að heimild til þess að taka ákvæðið til efnislegrar skoðunar er einskorðuð við Útlendingastofnun. Mælir ákvæðið þar með fyrir um sérstaka málsmeðferð þar sem Útlendingastofnun er heimilt að eigin frumkvæði eða á grundvelli sérstakrar beiðni að taka til efnismeðferðar umsókn barns um alþjóðlega vernd að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins. Málsmeðferð Útlendingastofnunar og ákvörðun hennar vegna frumkvæðisskoðunar eða beiðni um efnismeðferð á grundvelli 32. gr. c reglugerðar um útlendinga geta síðan eftir atvikum verið kæranleg til kærunefndar útlendingamála, sbr. 7. gr. laga um útlendinga. Með ákvæðinu er tryggt, í þeim tilvikum þar sem Útlendingastofnun hefur hafnað beiðni um efnismeðferð á grundvelli 32. gr. c reglugerðar um útlendinga, að barn eigi þess kost að fá efnislega skoðun á beiðni sinni um efnismeðferð á tveimur stjórnsýslustigum.

Til viðbótar við framangreint vísar kærunefnd til þess að nefndin hefur áður tekið afstöðu til sambærilegs álitaefnis, þ.e. þegar þess hefur verið krafist að kærunefnd fresti framkvæmd ákvörðunar um hvenær útlendingur skuli yfirgefa landið, sbr. 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga. Í ákvæðinu segir að Útlendingastofnun er heimilt að fresta um hæfilegan tíma framkvæmd ákvörðunar sem felur í sér að útlendingur skuli yfirgefa landið ef það telst nauðsynlegt vegna sérstakra aðstæðna hans eða ómögulegt er að framkvæma ákvörðun að svo stöddu. Kærunefnd hefur hafnað því að taka beiðni á grundvelli ákvæðisins til efnislegrar skoðunar þar sem mælt sé fyrir um í ákvæðinu að Útlendingastofnun geti frestað framkvæmd ákvörðunar og því hafi kærunefnd ekki heimild samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði til að fresta framkvæmd. Beiðni þess efnis skal því vera beint til Útlendingastofnunar.

Samkvæmt öllu framanröktu er það því mat kærunefndar að beiðni kæranda um efnismeðferð, með vísan til 32. gr. c reglugerðar um útlendinga, skuli beint til Útlendingastofnunar. Verður beiðni kæranda um endurupptöku máls þeirra á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga og 32. gr. c reglugerðar um útlendinga vísað frá.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er vísað frá.

 

The appellant‘s request to re-examine the case is dismissed.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                 Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum