Hoppa yfir valmynd
9. maí 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Álit, að því er tekur til túlkunar á ákvæði 4. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 um orðin  „undir áhrifum vímuefna á skólatíma“

Vísað er til erindis í tölvupósti dags. 28. nóvember 2011, þar sem óskað var eftir áliti mennta- og menningarmálaráðuneytis á ákvæði 4. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1040/2011, um ábyrgð og skyldur skólasamfélagsins í grunnskólum.  Ákvæðið er svohljóðandi: „Skólastjóri getur synjað nemanda um að sækja skóla tímabundið þegar rökstuddur grunur leikur á að hann sé undir áhrifum vímuefna á skólatíma og/eða stuðlar að dreifingu slíkra efna meðal nemenda.  Heimilt er við slíkar aðstæður að höfðu samráði við foreldra að láta þar til bæra aðila meta reglulega ástand viðkomandi nemanda og meina honum að sækja skóla þar til fyrir liggur að hann sé ekki lengur undir áhrifum vímuefna.“

Spurt er hvernig túlka eigi orðin að vera  „undir áhrifum vímuefna á skólatíma“.Hvort það sé ef viðkomandi nemandi mælist með kannabisefni í þvagi eða hvort þurfi að vera augljóst af útliti hans og framkomu að hann sé undir áhrifum einhverra vímuefna.  

Í hæstaréttardómi nr. 30/2001 frá 29. mars 2001 var stúlka ákærð fyrir akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.  Stúlkan neitaði staðfastlega að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.  Hún viðurkenndi þó að hafa neytt kannabisefna um mánuði áður.  Í matsgerð dósents hjá Lyfjafræðistofnun Háskóla Íslands kom fram að í þvagi ákærðu hafi mælst sýra sem sýnir fram á að kannabisefna hafi verið neytt.  Fram kom að sýran fyndist í þvagi í töluvert langan tíma eftir kannabisneyslu og vitað væri til þess að hún fyndist í þvagi í allt að 6-8 vikur eftir neyslu.  Það að sýra þessi finnist í þvagi geti því ekki skorið úr um hvort sá sem þvagsýnið er úr, sé undir áhrifum kannabis eða ekki.  Stúlkan var því sýknuð af því að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna.

Á heimasíðu FÍF, Félags íslenskra fíkniefnalögreglumanna, er fræðsluefni um fíkniefni.  Þar kemur t.a.m. fram að niðurbrot kannabisefna í líkamanum getur tekið allt að 30 daga frá síðustu neyslu.  Sambærilegar mælingar á niðurbroti alkóhóls í líkamanum eru tveir dagar.  Sjáanleg áhrif beggja vímuefnanna eru aftur á móti mun styttri og sambærilegri í tíma.  

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að túlka beri 4. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 um tímabundna brottvikningu nemenda sem rökstuddur grunur leiki á að séu undir áhrifum vímuefna miðist við að ljóst sé af útliti eða framkomu að nemandinn sé undir áhrifum vímuefna.  Ef miða ætti við mælingu efnis í þvagi þá tekur niðurbrot kannabisefna allt að heilum mánuði og þykir það ekki vera í þágu nemenda að víkja honum úr skóla í svo langan tíma eftir að sjáanleg áhrif eru með öllu horfin.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum