Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Vöktun fyrirhuguð á heimtum barna til heimilistannlækna

Bætt tannheilsa
Bætt tannheilsa

Embætti landlæknis mun koma á fót rafrænni vöktun á heimtum barna til heimilistannlækna og safna rauntímaupplýsingum um tannheilsu þeirra. Ríkisendurskoðun telur nauðsynlegt að ráðast í rannsókn á tannheilsu íslenskra barna. Einnig þurfi að efla skráningu barna hjá heimilistannlæknum.

Ríkisendurskoðun skilaði nýlega skýrslu til Alþingis um átaksverkefni um endurgjaldslausar tannlækningar fyrir börn tekjulágra forráðamanna sem velferðarráðuneytið réðist í árið 2011 til að mæta vanda barna með slæma tannheilsu. Í skýrslunni kemur fram að fyrirfram hafi verið talin mjög brýn þörf fyrir þessa þjónustu. Þátttaka hafi hins vegar verið mun minni en vænst var, þrátt fyrir að verkefnið hafi verið vel kynnt. Þá hafi töluverður hluti barna ekki nýtt sér þjónustuna þegar til kom, þrátt fyrir að sótt hefði verið um hana og hún samþykkt. Í skýrslunni er vísað til þess að samkvæmt mati tannlæknadeildar Háskóla Íslands hafi ábati þeirra barna sem tóku þátt í verkefninu verið mikill, því tannheilsa fjórðungs þeirra var bágborin. Öll börn fengu skoðun, hreinsun, viðgerðir og fræðslu um tannhirðu. Átaksverkefnið verður ekki endurtekið þar sem samningar náðust um tannlækningar barna um mitt ár 2013.

Rannsaka þarf tannheilsu barna

Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið til að láta rannsaka tannheilsu barna á Íslandi og afla þannig gagna um tannheilbrigði þeirra, meðal annars til að geta síðar metið árangur af þeirri nýjung sem felst í innleiðingu heimilistannlæknakerfis samkvæmt samningi um tannlækningar barna og til samanburðar við aðrar þjóðir. Landsrannsókn á tannheilsu barna á Íslandi var síðast gerð árið 2005.

Rafræn vöktun og rauntímaupplýsingar

Velferðarráðuneytið bindur vonir við að með samningi um tannlækningar barna yngri en 18 ára sem tók gildi í maí 2013 sé komin leið til þess að fá jafnt og þétt upplýsingar um tannheilsu barna í gegnum skráningu heimilistannlækna. Embætti landlæknis vinnur að verkefni sem felur í sér að safna og vinna upplýsingar um tannheilbrigðisþjónustu og tannheilsu með rafrænni vöktun á heimtum barna til heimilistannlækna og söfnun rauntímaupplýsinga um tannheilsu barna.

Skráning barns hjá heimilistannlækni forsenda fyrir endurgreiðslu

Samkvæmt samningnum um tannlækningar barna frá í fyrra þurfa börn að vera skráð hjá heimilistannlækni til þess að eiga rétt á endurgreiðslum sjúkratrygginga. Að því gefnu greiða sjúkratryggingar að fullu kostnað vegna þeirra barna og ungmenna sem falla undir samninginn, að undanskildu 2.500 kr. árlegu komugjaldi.

Í mars síðastliðnum voru um 64% barna í þeim aldurshópi sem fellur undir tannlæknasamninginn skráð með heimilistannlækni. Ríkisendurskoðun beinir þeirri ábendingu til velferðarráðuneytisins að skoða hvernig ýta megi undir skráningu barna hjá heimilistannlæknum til að ná fram markmiðum samningsins. Í skýrslu stofnunarinnar er ráðuneytið hvatt til að skoða hvort setja þurfi ákvæði í lög eða reglur um skyldur og hlutverk heimilistannlækna. Þetta hefur þegar verið gert með reglugerð nr. 331/2014 sem tók gildi í byrjun apríl.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira