Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Mikilvæg þróun upplýsingatækni hjá Embætti landlæknis

Laura Scheving Thorsteinsson, Sigríður Haraldsdóttir og Geir Gunnlaugsson
Laura Scheving Thorsteinsson, Sigríður Haraldsdóttir og Geir Gunnlaugsson

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra heimsótti Embætti landlæknis síðastliðinn föstudag til að kynna sér helstu verkefni sem unnið er að hjá embættinu. Ráðherra voru meðal annars kynnt verkefni við þróun og innleiðingu rafrænnar sjúkraskrár,  fjallað um ávinninginn af nýjum lyfjagagnagrunni með rauntímaupplýsingum um lyfjanotkun einstaklinga og af vistunarskrá með rauntímaupplýsingum um innlagnir og komur á sjúkrahús allt aftur til ársins 1999.

Þann 1. mars 2012 voru málefni sem tengjast rafrænni sjúkraskrá flutt frá velferðarráðuneyti til Embættis landlæknis. Rafræn sjúkraskrá er safn margvíslegra heilbrigðisupplýsinga sem tengjast greiningu og meðferð sjúklings. Rafræn sjúkraskrá getur verið staðbundin, þannig að aðgangur að upplýsingum úr henni er bundinn við einstakar stofnanir, eða samtengd þannig að unnt er að nálgast mikilvægar heilbrigðisupplýsingar um einstaka sjúklinga, óháð því hvar fyrri meðferð hefur verið veitt eða hvar viðkomandi sjúklingur sækir sér heilbrigðisþjónustu hverju sinni.

Spurt og spjallaðStefnt að samtengingu allra heilbrigðisstofnana í sumar

Eins og staðan er núna eru heilbrigðisgagnagrunnar samtengdir innan hvers heilbrigðisumdæmis og á milli heilbrigðisumdæma, nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem upplýsingar eru enn mjög dreifðar. Upplýsingar um sjúklinga inni á Landspítala eru þó aðgengilegar mörgum meðferðaraðilum utan spítalans. Nú er hins vegar unnið að því að setja upp gagnvirka samtengingu sem tryggir gagnkvæman aðgang að heilbrigðisupplýsingum milli Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnana um allt land og í sumar er stefnt að því að allar opinberar heilbrigðisstofnanir á Íslandi geti tengst samræmdri rafrænni sjúkraskrá. Í framhaldi af þessu munu einkareknar stofur og hjúkrunarheimili fá aðgang að rafrænu sjúkraskránni.

Aðgangur að lyfjaupplýsingum í rauntíma

Embætti landlæknis hefur frá árinu 2012 unnið að því að byggja upp nýjan lyfjagagnagrunn sem gerir mögulegt að veita aðgang að honum í rauntíma. Markmiðið er að læknar og almenningur fái rafrænan, öruggan aðgang að þriggja ára sögu um lyfjanotkun. Í þessu felast margvísleg tækifæri. Þetta mun auka verulega öryggi við lyfjameðferð sjúklinga og fyrirséð er að fjárhagslegur ávinningur verði umtalsverður þar sem draga mun úr sóun og fækka innlögnum og legudögum sjúklinga vegna atvika sem tengjast lyfjum. Um þrjúhundruð læknar eru komnir með rafræn skilríki sem veita þeim aðgang að grunninum og geta flett upp lyfjum sjúklinga sinna og reiknað er með að næsta haust verði opnað fyrir aðgang einstaklinga að upplýsingum um sjálfa sig í lyfjagagnagrunninum.

 

Ráðherra ásamt starfsfólki Embættis landlæknis og velferðarráðuneytisins


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum