Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2009 Utanríkisráðuneytið

ESB og ávinningur Íslands


Eftir Össur Skarphéðinsson

ÍSLAND stendur á krossgötum. Landið er í erfiðri kreppu og fjölmargar fjölskyldur og fyrirtæki eiga um sárt að binda. Öllum, sem hafa horft á húsnæðislánin sín stórhækka, er ljóst af beiskri reynslu að íslenska krónan dugar þeim ekki. Heimilin eru föst í skuldafjötri og borga svimandi upphæðir í vaxtaálag vegna krónunnar. Fyrirtækin nota fæturna til að greiða atkvæði gegn henni, og boða flutning úr landi um þessar mundir. Trúin á krónuna er í lágmarki og gildir einu hvort litið er heim eða utan. Við þurfum nýjan gjaldmiðil.

Stjórnmálaflokkar verða því að segja þjóðinni fyrir kosningar hvaða leið þeir vilja fara í gjaldmiðilsmálum. Þeir geta ekki notað pólitískar brellur – eða málþóf – til að skjóta sér undan þeirri ábyrgð. Stefna okkar í Samfylkingunni er skýr og afdráttarlaus: Langbesti kosturinn er að sækja sem allra fyrst um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evruna. Þetta er forgangsmál hjá jafnaðarmönnum. Rökin fyrir ESB-aðild eru margvísleg, en þau þyngstu lúta að efnahagslegum stöðugleika til framtíðar, öryggi fyrir fyrirtækin, og bættum lífskjörum fyrir Íslendinga.

ESB og efnahagslegur stöðugleiki

Vegna krónunnar hafa jafnt heimili sem íslensk fyrirtæki lengi glímt við óstöðugleika, þungbærar gengissveiflur og verðbólgu, sem hafa gert langtímaáætlanir ómögulegar og lánsfjármagn dýrt. Við bankahrunið í október tók steininn úr, þegar hrun krónunnar leiddi til óðaverðbólgu, margföldunar á skuldum þjóðarbúsins, gjaldþrotahrinu og meira atvinnuleysis en dæmi eru um hér á landi. Hinn beiski veruleiki er sá að íslenskt efnahagslíf hefur glatað trausti á alþjóðlegum mörkuðum. Við fáum ekki lengur lán á eðlilegum kjörum til að ráðast í nauðsynlega uppbyggingu. Fyrir þau lán sem fást borgum við ofurvexti. Í iðnaðarráðuneytinu þekkjum við það af eigin raun að erlendir fjárfestar fælast hagkerfi krónunnar. Við verðum líka að horfast í augu við þá nöturlegu staðreynd, að ef við tökum ekki upp nýjan gjaldmiðil er hætta á að Ísland muni missa stærstu útflutningsfyrirtækin úr landi, og með þeim þúsundir starfa.

Aðild að ESB og upptaka evru við fyrsta tækifæri er besta og hraðvirkasta leiðin til að endurnýja traustið á íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Aðrar leiðir, sem nefndar hafa verið, eins og að taka einhliða upp evru með aðstoð AGS – nýjasta skyndilausn Sjálfstæðisflokksins – hafa reynst pólitískar brellur sem standast ekki skoðun. Evrópustefna Samfylkingarinnar með upptöku evru mun hins vegar draga úr gengissveiflum í viðskiptum við útlönd, og útflutningsviðskipti munu aukast með aðild að stærra myntsvæði. Viðskiptakostnaður sem nú nemur milljörðum mun minnka. Matvælaverð mun lækka. Við þurfum líka á evrunni að halda til að fá erlenda fjárfesta með fjármagn inn í atvinnulífið til að tryggja farsæla endurreisn efnahagslífsins.

Níðþungur krónuskattur

Benedikt Jóhannesson hagfræðingur sagði í fjölmiðlum í síðustu viku að umsókn um aðild að ESB gæti lækkað vaxtabyrði um 3%. Benedikt verður varla sakaður um að ganga erinda Samfylkingarinnar en hann er þekktur fyrir tæpitungulausa hreinskilni og glögga sýn á efnahagsmál. Vaxtamunurinn sem hann bendir á er í reynd álag, einskonar skattur, sem Íslendingar greiða sem fórnarkostnað ef þeir velja krónuna áfram og hafna upptöku evrunnar. Þegar skuldastaða heimila, fyrirtækja, að ógleymdum ríkissjóði, eru skoðuð kemur í ljós hversu níðþungur þessi krónuskattur er á herðum þjóðarinnar.

Heildaryfirlit yfir skuldir íslenskra fyrirtækja liggur að sönnu ekki fyrir, en þó má áætla að þær liggi nærri 4.500 milljörðum króna. Gætu þau fjármagnað þessar skuldir á 3% lægri vöxtum við upptöku evrunnar þýddi það að vaxtabyrði fyrirtækjanna yrði 135 milljörðum króna minni á ári.

 Skuldir heimilanna voru áætlaðar 2.000 milljarðar í árslok 2008. Á evruvöxtum myndu því íslensk heimili þurfa að greiða 60 milljörðum minna á ári í vexti.

Vaxtaberandi skuldir ríkissjóðs eru nú 1.100 milljarðar króna. Yrði hægt að fjármagna þær á 3% lægri vöxtum þýddi það ríflega 30 milljarða sparnað. Það er svipuð upphæð og kostar ríkið að reka Landspítalann á ári og hægt væri að reka þrjá Háskóla Íslands fyrir sömu fjárhæð.

Fórnarkostnaðurinn sem íslensk heimili, fyrirtæki, og ríkissjóður, þurfa því sameiginlega að greiða árlega vegna krónunnar samanborið við evru nemur því 220 milljörðum króna árlega en það jafngildir um 55 prósentum af heildartekjum íslenska ríkisins á þessu ári. Er þá ógetið þess, að verðtryggingu er sjálfhætt með upptöku evrunnar.

Kjarni málsins

Í hnotskurn, þá er aðild að Evrópusambandinu og upptaka evrunnar besta kjarabótin sem hægt er að benda á fyrir íslensku þjóðina. Hún er besta leiðin til að ná efnahagslegum stöðugleika. Besta leiðin til að fá fjármagn til að endurreisa atvinnulífið. Besta kjarabótin fyrir heimilin, og líklega mikilvægasta sparnaðaraðgerðin sem hægt er að finna fyrir útgjöld ríkisins í framtíðinni. Hún felur ekki í sér töfralausn sem kippir öllu í lag á augabragði, en hún dregur úr bráðavandanum og leggur traustan grunn til lengri tíma.

Samfylkingin treystir sér til að ná samningi við Evrópusambandið sem ver hagsmuni Íslendinga, ekki síst sjávarútvegs og landbúnaðar. Hún treystir líka þjóðinni til að taka ákvörðun um slíkan samning í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Höfundur er utanríkis- og iðnaðarráðherra.


Greinin ráðherra birtist í Morgunblaðinu 21. apríl 2009 (pdf).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum