Hoppa yfir valmynd
18. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frá málþingi um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks

Mannamót
Mannamót

Nálægt 200 manns sóttu málþing um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks síðastliðinn mánudag. Þingið var einnig sent út á vefnum og nú hafa upptökur frá því verið gerðar aðgengilegar á vef velferðarráðuneytisins.

Velferðarráðuneytið stóð fyrir málþinginu í samvinnu við Landssamtökin Þroskahjálp, innanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Öryrkjabandalag Íslands.

Efnt var til málþingsins til að fylgja eftir framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem byggist á bráðabirgðaákvæði í lögum um málefni fatlaðs fólks og var samþykkt sem ályktun frá Alþingi í júní árið 2011. Áætlunin samanstendur af átta köflum eða málefnasviðum sem fela í sér samtals 43 aðgerðir. Kaflarnir endurspegla ákveðnar greinar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk og aðgerðunum er ætlað að stuðla að innleiðingu einstakra greina. Á málþinginu var fjallað um fimm svið, þ.e. um ímynd og fræðslu, sjálfstætt líf, þátttöku, heilbrigði og mannréttindi. Einnig var fjallað um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í málaflokknum og rýnt í hvernig reynslan hefur verið af flutningi málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga sem átti sér stað í ársbyrjun 2011.

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherraEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, flutti opnunarávarp málþingsins og sagði meðal annars að hún teldi valdeflingu og áherslu á sjálfstætt líf með áherslu á samfélag án aðgreiningar vera einhver mikilvægustu viðfangsefnin þegar unnið væri að réttindum fatlaðs fólks.

Ráðherra sagði opnara samfélag og niðurbrot múra á ýmsum sviðum gefa tilefni til bjartsýni: „Það er svo mikilvægt að við hugsum út fyrir rammann, að við séum opin fyrir nýjungum, að við hlustum á ólík sjónarmið og síðast en ekki síst að við vinnum saman. Í sumum efnum erum við þó enn bundin af nokkuð þröngum römmum sem ég tel að við eigum að opna eða víkka til að hleypa inn ferskari vindum. Ég velti því til dæmis fyrir mér hvort sérstök lög um málefni fatlaðs fólks og sérlög um málefni aldraðra eigi rétt á sér lengur. Þau voru eflaust sprottin af nauðsyn á sínum tíma en nú má spyrja sig hvort þau séu farin að standa frekari þróun fyrir þrifum – hvort þau feli ekki í sér múra og hindranir og leiði til misréttis í samfélaginu? Ég varpa þessu fram hér til umhugsunar. Umræðan um þetta er ekki ný, en spurning hvort nú sé ekki komin ástæða til að þroska hana og færa hana lengra á veg?“

Ráðherra ræddi einnig sérstaklega um velferðartækni og nýjungar á því sviði. Hún sagðist telja að þar væru miklir möguleikar fyrir hendi til að efla og bæta þjónustu. Þarna væru tækifæri sem mikilvægt væri að skoða og nýta og því hefði hún í hyggju að hefja vinnu við að móta stefnu á þessu sviði.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum