Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2016 Dómsmálaráðuneytið

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar má hefjast 30. apríl

Á höfuðborgarsvæðinu fer atkvæðagreiðslan í fyrstu fram á skrifstofum embættis sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að Skógarhlíð 6, Reykjavík, og Bæjarhrauni 18, Hafnarfirði, alla virka daga á skrifstofutíma milli kl. 8:30–15. Skrifstofa embættisins að Skógarhlíð 6, Reykjavík, verður einnig opin um helgar frá kl. 12–14. Lokað verður sunnudaginn 1. maí, uppstigningardag 5. maí, hvítasunnudag 15. maí og annan í hvítasunnu, 16. maí.

Frá og með 9. júní næstkomandi færist atkvæðagreiðslan á höfuðborgarsvæðinu í Perluna í Öskjuhlíð. Þar verður opið alla daga frá kl. 10–22. Lokað verður þó föstudaginn 17. júní. Á kjördag laugardaginn 25. júní næstkomandi, verður opið frá kl. 10–17 fyrir kjósendur sem eru á kjörskrá utan höfuðborgarsvæðisins.

Sjúkrahús, dvalarheimili aldraðra, stofnanir fyrir fatlað fólk og fangelsi. Kjósanda, sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða vistmaður þar, eða er heimilismaður á dvalarheimili aldraðra eða stofnun fyrir fatlað fólk, er heimilt að greiða þar atkvæði. Með sama hætti fer um fangelsi og vistmenn þar. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, á sjúkrahúsi sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar. Hún má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi þremur vikum fyrir kjördag, laugardaginn 4. júní.

Heimahús. Kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun, sbr. framangreint. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans. Slík atkvæðagreiðsla má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi þremur vikum fyrir kjördag, laugardaginn 4. júní, en ósk um atkvæðagreiðslu í heimahúsi verður að berast hlutaðeigandi sýslumanni eigi síðar en fjórum dögum fyrir kjördag, þriðjudaginn 21. júní, fyrir kl. 16.

Atkvæðagreiðsla erlendis. Utanríkisráðuneytið sér um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar erlendis. Atkvæðagreiðslan fer fram í skrifstofum sendiráða, í sendiræðisskrifstofum eða í skrifstofum kjörræðismanna samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið getur einnig ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum erlendis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira