Hoppa yfir valmynd
23. október 2008 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ýmsar tillögur um breytingar á ökunámi og starfsemi ökuskóla

Starfshópur sem samgönguráðherra skipaði í febrúar 2008 til að fjalla um málefni ökunáms og ökukennslu hefur skilað niðurstöðum. Leggur hann til ýmsar breytingar á fyrirkomulagi ökunáms og framkvæmd ökuprófa, tilhögun ökukennaranáms og starfsemi ökuskóla.

Umferðarslaufur
Umferðarslaufur

Í stýrihópinn voru skipuð: Árni Albertsson, tilnefndur af embætti Ríkislögreglustjóra, Birgir Hákonarson, tilnefndur af Umferðarstofu, Guðbrandur Bogason, tilnefndur af Ökukennarafélagi Íslands, Jónas Helgason, tilnefndur af ráðherra, María Kristín Gylfadóttir, tilnefnd af samtökunum Heimili og skóli, og Arnaldur Árnason, tilnefndur af Kennaraháskóla Íslands (nú Menntavísindasviði Háskóla Íslands). Var hann jafnframt skipaður formaður starfshópsins.

Í byrjun september tók Holger Torp sæti Birgis Hákonarsonar og Jón Haukur Edwald sat þrjá fundi sem varamaður Guðbrands Bogasonar. Birna Hreiðarsdóttir, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu, var starfshópnum til ráðgjafar.

Meðal tillagna hópsins er að núverandi reglugerð um ökuskírteini verði skipt í tvær reglugerðir, annars vegar um útgáfu ökskírteina og endurnýjun þeirra og hins vegar um ökunám, ökupróf og endurmenntun ökumanna. Starfshópurinn leggur til að reglugerð um löggildingu ökukennslu og starfsleyfi ökuskóla nr. 527/1999 verði tekin til gagngerrar endurskoðunar.

Ökuskólar verði efldir

Meðal annars verði ökuskólar efldir með því að fela þeim aukin verkefni og ábyrgð og að endurskoðuð verði skipting verklegs ökuprófs í munnlegt próf og aksturspróf. Einnig er lagt til að ökukennari sem fengið hefur útgefið starfsleyfi til ökukennslu skuli starfa undir merkjum ákveðins ökuskóla. Hlutverk ökuskóla sé að fræða og móta nemendur með markvissum hætti í samræmi við faglega stefnu skólans varðandi ökukennslu og skal skólinn einnig sjá til þess að kennarar sem undir merkjum hans starfa framfylgi þeirri stefnu.

Þá telur hópurinn að með frestun á gildistöku ákvæðis um ökugerði séu skapaðar raunhæfar aðstæður til framgangs þess máls innan settra tímamarka og hvetur hann til þess að opinberir aðilar komi af krafti til liðs við fagaðila við raunverulegar framkvæmdir vegna ökugerða. ,,Tími athafna sé nú runninn upp, nógu lengi hafi verið rætt um ökugerðismál. Jafnframt telur hópurinn að rétt sé að skoða betur kosti sem hentað gætu fámennari og afskekktari byggðarlögum.”Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira