Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2010 Félagsmálaráðuneytið

Vinnustaðaskírteini og virkt samstarf um eftirlit á vinnustöðum

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum. Frumvarpið byggist á stöðugleikasáttmála stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem undirritaður var í júní 2009 og bókun Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um sama efni frá febrúar 2008. Í sáttmálanum er lagt til að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld taki upp virkt samstarf um eftirlit á vinnustöðum og vinnustaðaskírteini í því skyni að tryggja að starfsmenn njóti umsaminna réttinda og vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og misnotkun atvinnuleysisbóta. 

Á íslenskum vinnumarkaði er það viðtekin venja að aðilar vinnumarkaðarins semja um kaup og kjör launafólks og önnur vinnuskilyrði í kjarasamningum. Þessir samningar gilda sem lágmarkskjör launafólks í viðkomandi starfsgreinum, einnig gagnvart þeim sem ekki eiga aðild að stéttarfélagi. Í þessu felst að atvinnurekendum og einstökum launamönnum er óheimilt að semja um lakari kjör en kveðið er á um í almennum kjarasamningum.

Eftirlit með því að kjarasamningar séu haldnir og vinnulöggjöf virt er á ábyrgð aðila vinnumarkaðarins og hefur ekki tíðkast að opinberir aðilar sinni slíku eftirliti. Með frumvarpinu er því lögð til nokkurs konar rammalöggjöf um eftirlit aðila vinnumarkaðarins en þeim jafnframt heimilað að útfæra það nánar með samningum sín á milli. Ekki er gert ráð fyrir að vinnustaðaskírteini verði tekin upp í öllum atvinnugreinum til að byrja með heldur verði samið um það í kjarasamningum. Samkvæmt fyrrnefndri bókun Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins er stefnt að því að taka upp vinnustaðaskírteini í byggingariðnaði en jafnframt má gera ráð fyrir að samið verði um slíkt fyrirkomulag í hótel- og veitingarekstri.

Í vinnustaðaskírteini skal birta nafn og kennitölu atvinnurekandans og nafn og kennitölu starfsmanns ásamt mynd af honum. Eftirlitsfulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins sem heimsækja vinnustaði geta óskað eftir framvísun skírteinis hjá starfsmanni eða atvinnurekanda til að kanna hvort farið sé að kjarasamningum eða lögum. Í frumvarpinu er kveðið á um samstarf við opinberar stofnanir vegna eftirlitsins sem byggist á því að með rafrænum samskiptum verði unnt að sannreyna upplýsingar á skjótan hátt og sjá til dæmis hvort kennitala sé rétt, iðgjöld hafi verið greidd í lífeyrissjóð og hvort starfsmaður hafi viðurkennd starfsréttindi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira